

Fréttabréf Kóraskóla
Febrúar 2025
Nemendaþing
Okkur finnst mikilvægt að hlusta á raddir nemenda og að nemendur fái að koma að ákvörðunartöku um málefni sem snerta þá. Nemendaþing er góð leið til þess en það fór fram 19. febrúar sl. Nemendaþingið er liður í undirbúningi fyrir árlegt barnaþing grunnskólanna í Kópavogi sem haldið verður 19. mars. nk. og við segjum nánar frá á heimasíðunni okkar https://koraskoli.is/2025/02/19/nemendathing/
Nemendalýðræði
Nemendur Kóraskóla fengu tækifæri til að koma með hugmyndir að umræðuefni. Út úr þeim hugmyndum voru dregnar fjórar spurningar sem nemendur leituðu í sameiningu svara við. Spurningarnar voru:
- Hvað finnst ykkur að megi gera í matarmálum nemenda í Kóraskóla?
- Hvernig tölvubúnað væri best fyrir nemendur að nota í skólastarfi?
- Skólaskylda nemenda á unglingastigi eru um 30 klukkustundir á viku (ca. 6 klst. á dag). Hvenær finnst ykkur að skólinn ætti að hefjast á morgnana?
- Hvað finnst ykkur að mætti bæta varðandi húsnæði Kóraskóla t.d. varðandi húsgögn, loftgæði, skólalóð, félagsmiðstöðina osfrv.?
Notast var við skipulag heimskaffis. Nemendum var skipt í hópa þvert á árganga og voru nemendur 10. bekkjar hópstjórar. Eftir að hafa svarað spurningunum fóru 8. og 9. bekkingar á önnur borð og kynntu sér það sem aðrir hófðu ákveðið. Þeir komu svo til baka í sína heimahópa og bættu við sínar hugmyndir ef þeim fannst tilefni til. Að lokum forgangsröðuðu nemendur áherslum. Nemendur stóðu sig einstaklega vel í þessari vinnu, ekki síst 10. bekkingar sem hópstjórar en þeir sýndu þar bæði frumkvæði og ábyrgð.
Allar niðurstöður hafa verið hengdar upp í skólanum og forgangsröðun verkefna sett upp í súlurit á mötuneytisganginum.
Verðandi 8. bekkingar heimsækja Kóraskóla
Í síðustu viku heimsóttu nemendur 7. bekkjar Hörðuvallaskóla okkur heim í þeim tilgangi að kynnast Kóraskóla sem verðandi 8. bekkingar. Nemendur í 9. og 10. bekk tóku að sér að vera gestgjafar, kynntu skólann í máli og myndum og gengu svo með hópa um húsnæðið. Allt tókst þetta með miklum ágætum.
Lífsleikni í 10. bekk
Í dag fengu nemendur 10. bekkjar og forsjáraðilar þeirra fræðslu um færni í samskiptum og lausn ágreinings þegar sérfræðingar frá fyrirtækinu Domus Mentis, Geðheilsustöð, komu og höfðu vinnustund með hópnum. Vinnan byrjaði á fyrirlestri sem allir sátu en svo varið farið í vinnusmiðjur, foreldrar sér og nemendur sér þar sem m.a. var farið í hlutverkaleiki til að æfa viðbrögð í samskiptum.
Vertu þín eigin rödd
Nemendur í 9. bekk fengu góðan gest þegar tónlistarmaðurinn, ljóðskáldið og leikarinn Króli eða Kristinn Óli Sigrúnarson Haraldsson kom í heimsókn. Hann ræddi við nemendur um mikilvægi þess að láta rödd sína hljóma og hvatti þau til að skrifa og semja og láta í sér heyra. Koma hans er liður í því að kynna bókasöfnin í Kópavogi og allt það fjölbreytta starf sem þar fer fram.
GLITRANDI dagur
Í dag voru allir hvattir til að GLITRA til að sýna stuðning og samstöðu við þá sem lifa með sjaldgæfa sjúkdóma eða heilkenni. Starfsfólk skólans skartaði glitrandi fatnaði og einnig einstaka nemandi.
Framundan í mars
Í upphafi föstu
Í gömlum sið mörkuðu bolludagur, sprengidagur og öskudagur upphaf lönguföstu fyrir páska. Þeir dagar verða samkvæmt venju skemmtilegir í Kóraskóla.
Bolludagur
Allir mega hafa með sér bollu í nesti eða annað sparinesti. Gos og orkudrykkir eru ekki leyfðir og svo biðjum við alla að gæta þess að við erum hnetulaus skóli.
Við viljum líka minna á að allan mat skal borða í matsalnum og eingöngu þar.
Sprengidagur
Saltkjöt og baunir í hádeginu og þá borða allir á sig gat.
Öskudagur
Við hvetjum alla til að mæta í grímubúningi!
Fyrstu tveir tímarnir eru hefðbundnir en eftir frímínútur taka nemendur þátt í fjölbreyttu smiðjustarfi sem þeir verða búnir að velja sig í. Þar sem þessi skóladagur er skertur fara nemendur heim um hádegi.
Skipulagsdagur 12. mars
Þessum degi verja kennarar í að rýna í breytingar á aðalnámskrá grunnskóla og laga að starfi Kóraskóla næsta vetur auk annarra starfa. Ekkert skólastarf er þennan dag og því nemendur í fríi.
Framhaldsskólakynningar
Nemendur í 9. og 10. bekk heimsækja Laugardagshöllina 13. mars þar sem þeir fá kynningar á framhaldsskólunum og hvað þeir hafa upp á að bjóða. Þetta verður nánar auglýst í byrjun næstu viku.
Árshátíðarvika 24. - 28. mars
Samkvæmt venju byggjum við upp stemningu fyrir árshátíð nemenda með því að hafa sérstakt þema fyrir hvern dag í árshátíðarviku. Það þýðir að hver dagur er tileinkaður einhverju sérstöku sem birtist í klæðaburði nemenda og starfsmanna. Það er nemendafélag skólans sem ákvarðar þemað og hlökkum við mikið til að fá að vita hver ákvörðun þeirra verður fyrir þetta árið.
Árshátíðin sjálf verður haldin fimmtudaginn 27. mars frá kl.19 til 23 og fer fram í hátíðarsal HK. Húsið verður lokað á meðan á árshátíðinni stendur.
Föstudaginn 28. mars mæta nemendur í skólann kl. 9 en þessi dagur á að vera sérstaklega notalegur og Kósý enda ber hann það yfirheiti: Kósýdagur :) Það þýðir að á þessum degi er brugðið út frá hefðbundnu skólastarfi að einhverju leiti t.d. með því að horfa saman á skemmtiefni, spila og fara í leiki. Þessi dagur er skertur þannig að nemendur fara heim um hádegi.
Gildi Kóraskóla
Ábyrgð, Samvinna og Traust
Við vinnum nú að því að móta gildi Kórskóla með því að bera ýmsar tillögur undir bæði starfsmenn og nemendur. Flestum þykir eftirsóknarvert að gildin myndi orðið ÁST og stafirnir standi fyrir Ábyrgð, Samvinna og Traust. Það fellur vel að áherslum Kóraskóla sem byggjast á hugmyndum Leiðsagnarnáms þar sem áherslan felst í að efla ábyrgð nemenda á eigin námi, auka og efla samstarf allra aðila og mynda traust sem byggist á virðingu og tillitssemi.
Réttindaskóli Unicef
Kóraskóli er um þessar mundir að hefja innleiðingarferli sem miðar að því að skólinn verði Réttindaskóli Unicef. Markmiðið með því verkefni er að kenna nemendum um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og leggja hann til grundvallar í öllu starfi skólans. Það birtist meðal annars í skipulagningu, stefnumótun og starfsháttum og að byggja upp lýðræðislegt umhverfi með því að rækta með marvissum hætti þekkingu, leikni og viðhorf sem hjálpar börnum að verða gagnrýnir og virkir þátttakendur í nútímasamfélagi.