Foreldrabréf Hraunvallaskóla
Skólaárið 2023-2024
Október
Skólaárið 2023-2024
Nú er Hraunvallaskóli orðin símalaus skóli og hafa fyrstu dagarnir gengið vel.
Hér eru símareglurnar:
Hraunvallaskóli er símalaus skóli. Mælst er til þess að nemendur komi ekki með síma í skólann. Eftirfarandi reglur gilda um símanotkun í Hraunvallaskóla:
Nemendur
- Ef nemandi kemur með símann í skólann skal vera slökkt á honum (hljóðlaus og án titrings) og hann geymdur ofan í tösku eða læstum skáp nemanda.
- Sími er bannaður á öllum svæðum skólans og gildir það hvort sem um er að ræða kennslustundir, frímínútur, hádegi, vettvangsferðir, skólaferðalög, á leið í og úr íþróttum/sundi, íþróttahús, sundlaug, salerni eða fyrir fyrsta tíma að morgni.
- Símanotkun nemenda er alltaf á ábyrgð foreldra/forsjáraðila.
Fari nemandi ekki eftir fyrirmælum varðandi símanotkun hefst eftirfarandi ferli:
- Nemandi fær skráningu í dagbók í Mentor – “(númer) Brot á símareglu”.
- Þegar nemandi er kominn með 3 skráningar „Brot á símareglum“ í Mentor er haft samband heim og fundin lausn með foreldrum/forsjáraðilum.
- Ef ekki næst árangur og nemandi virðir áfram ekki símareglur (samtals 5 skráningar) er boðað til fundar með foreldrum/forsjáraðilum og gerð áætlun til úrbóta sem gæti verið eftirfarandi:
- Samningur við nemanda, forréttindamissir o.þ.h.
- Foreldrar/forsjáraðilar sæki símann í skólann.
- Nemandi komi ekki með símann í skólann í ákv. tíma sem væri á ábyrgð foreldra/forsjáraðila.
- Nemandi geymi símann á skrifstofu skólans á skólatíma á ákv. tímabili.
- Annað.
Starfsmenn
- Starfsmenn eru fyrirmyndir nemenda og fylgja símareglum skólans.
- Persónuleg símanotkun er óheimil á fundum, í kennslustundum og við gæslu eða önnur störf starfsmanns nema í neyðartilvikum eða vegna starfstengdra erinda.
Foreldrar/forsjáraðilar og gestir
- Þar sem Hraunvallaskóli er símalaus skóli förum við þess á leit við forsjáraðila/gesti að þeir hafi ekki síma uppi við í húsnæði skólans.
Að tilheyra
Að tilheyra samfélagi er mikilvægt. Þörfin fyrir að tilheyra er það mikill grundvöllur í tilveru okkar að afleiðingar geta verið alvarlegar ef við fáum ekki að tilheyra. Í fjölmenningarlegu samfélagi, eins og við búum í núna, er mikilvægt að við stöndum öll saman við að kenna börnunum okkar umburðarlyndi gagnvart öðrum og gefa öðrum tækifæri til þessa að fá að tilheyra.
Útilit, tungumál, áhugamál, kyn, trúarbrögð, kynhneigð eru m.a. þættir sem eiga ekki að hafa áhrif hvort aðili fær að tilheyra eða ekki. Í skólanum okkar eiga allir nemendur að fá tækifæri til þess að tilheyra skólasamfélaginu.
Stöndum saman við að kenna börnunum okkar það og hvetjum við því foreldra til þess að ræða mikilvægi þess að leyfa öðrum að tilheyra.
Samskipta- og eineltisteymi skólans
Samtalsdagur 11. okt.
Miðvikudaginn 11. okt. er samtalsdagur. Þar koma saman foreldrar/forsjáraðilar, umsjónarkennari og barn og ræða líðan og námsframvindu. Búið er að opna fyrir skráningar og verður opið fram að miðnætti sunnudaginn 8. okt. Ef einhverjir eru ekki búnir að skrá sig þá munu umsjónarkennarar gefa viðkomandi foreldri/forsjáraðila tíma og senda í tölvupósti.
Opið er í Hraunseli fyrir alla í 1.-4. bekk en mikilvægt er að skrá nemendur. Búið er að opna fyrir skráningu í gegnum Völu. Síðasti skráningadagur er 5. október.
Skertur dagur, skipulagsdagar og vetrarfrí
Miðvikudaginn 18. okt. er skertur dagur hjá okkur þar sem nemendur eru búnir í skólanum um kl. 11:00. Hraunsel verður opið fyrir þá sem eru með pláss þar til kl. 17:00.
Fimmtudaginn 19. okt. er skipulagsdagur og eru nemendur þá í fríi en Hraunsel er opið fyrir þá sem þar eru skráðir til kl. 17:00. Búið er að opna fyrir skráningu en síðasti skráningardagur er 5. október.
Föstudaginn 20. okt. er skipulagsdagur bæði í skólanum og í Hraunseli og eru allir nemendur í fríi á þeim degi.
Mánudaginn 23. okt. og þriðjudaginn 24. okt. er vetrarfrí og Hraunsel lokað. Nemendur eru því í fríi þessa daga.
Þessa daga ætlar starfsfólk að nýta í endurmenntun og fara í námsferð erlendis. Við komum síðan endurnærð til baka tilbúin í að miðla því sem við höfum tileinkað okkur í námsferðinni.
VIÐBURÐIR
Viðburðarskóladagatal
Á hverju skólaári setjum við upp viðburðarskóladagatal um helstu viðburði sem eiga sér stað hér í skólanum. Hér er það og mælum við með því að þið forsjáraðilar hafi það á góðum stað því þannig getið þið séð tímanlega hvað er framundan.
Bleiki dagurinn 13. okt.
Bleiki dagurinn hjá okkur í skólanum verður 13. okt. þar sem nemendur verða í fríi þegar hann á að vera í rauninni. Við viljum sýna stuðning við konur sem hafa fengið krabbamein og ákváðum því að færa daginn hjá okkur. Við hvetjum alla til þess að mæta í bleiku og valin verður bleikasti árgangurinn/bekkurinn.
Bekkjarmyndatökur
Á hverju skólaári eru bekkjarmyndatökur í 1., 4., 7. og 10. bekk. Þetta skólaárið verða þær fimmtudaginn 26. okt. og föstudaginn 27. okt. Nánari tímasetningar verða sendar út þegar nær dregur.
Hrekkjavaka
Þriðjudaginn 31. október er HREKKJAVAKA og ætlum við ekki að láta okkar eftir liggja. Við hvetjum nemendur til þess að mæta í búningum og vera HRYLLILEG. Endilega skoðið líka það sem er um að vera í Mosanum og í árgöngum nemenda.
SAMSTARF HEIMILIS OG SKÓLA
Bekkjartenglastarfið fer vel af stað
Röskun á skólastarfi vegna óveðurs
Við hvetjum ykkur foreldrar/forsjáraðilar góðir til þess að lesa yfir hvað gerist við óveður. Hér er linkur á heimasíðu skólans sem gott er að lesa og vita af ef óveður skyldi skella á:
Foreldrarölt
Nú er foreldraröltið farið af stað að fullu og við þurfum á ykkur að halda. Við erum öll saman í liði og það er á okkar allra ábyrgð að passa að börnum og unglingum í hverfinu líði vel og séu öruggir. Það þarf þorp til þess að ala upp barn. Hér er foreldraröltsbæklingurinn og á öftustu síðunni eru dagsetningar hvers árgangs. Þið sem hafið áhuga á því að taka þátt í foreldrarölti megið senda tölvupóst á sarap@hraunvallaskoli.is. Þið sem hafið nú þegar skráð ykkur, kærar þakkir fyrir.
MIKILVÆG SKILABOÐ
Hjólareglur
Nú er tilvalið að rifja upp hjólareglur skólans þar sem nemendur eru duglegir að koma á hjólum, hlaupahjólum, rafmagshlaupahjólum eða vespum í skólann. Við viljum biðja ykkur um að rifja þessar reglur upp með börnunum ykkar svo allir séu á sömu blaðsíðunni. Við viljum sérstaklega benda á reglurnar um léttu bifhjólin þar sem það er stranglega bannað að vera á þeim á skólalóðinni.
Reglur:
- Samkvæmt lögum er öllum undir 16 ára aldri, á hjólum, hlaupahjólum, línuskautum og léttum bifhjólum, skylt að nota öryggishjálma og viðeigandi öryggisbúnað. Endurskinsmerki skal nota í skammdeginu og hjólin þurfa að vera með ljósum og glitaugum og öðrum þeim öryggisbúnaði sem gerir þau lögleg.
- Hjól skulu vera læst á skólatíma og bera nemendur ábyrgð á hjólum sínum.
- Hjólreiðar til og frá skóla eru alfarið á ábyrgð foreldra.
- Nemendur sem velja að koma á hlaupahjólum í skólann gera það á eigin ábyrgð og læsa skal hlaupahjólum rétt eins og reiðhjólum fyrir utan skólann.
- Hjólin má ekki nota á skólatíma (frímínútur falla undir skólatíma) en heimilt er að fara stystu leið út af og inn á skólalóð ef farið er á hjóli í Ásvallalaug eða á Ásvelli. Þó er heimilt er að nota hlaupahjól og hjólabretti á hjólabrettavelli á skólatíma.
- Samkvæmt 44 grein umferðarlaga má barn yngra en 7 ára ekki hjóla á akbraut nema undir leiðsögn og eftirliti einstaklings sem náð hefur 15 ára aldri. Því óskum við þess að nemendur í 1. bekk komi ekki á hjólum í skólann nema undir eftirliti fullorðinna.
- Nemendur í 2.–4 bekk mega koma á hjólum í skólann fari þeir að settum umferðarlögum, með hjálma og læsi hjólum sínum við hjólagrindur eða aðra viðurkennda staði (grindverk) á skólalóðinni. Nemendum í 2.–3. bekk er ekki heimilt að hjóla til og frá Ásvallalaug.
- Nemendum í 4.–10. bekk er heimilt að koma á hjólum í skólann fari þeir að settum umferðalögum með hjálma og læsi hjólum sínum við hjólagrindur eða aðra viðurkennda staði (grindverk) á skólalóðinni. Nemendum í 4.–10. bekk er heimilt að hjóla til og frá Ásvallalaug og að Ásvöllum og skal þá farið stystu leið út af og inn á skólalóð.
Létt bifhjól
Nemendum sem eru orðnir 13 ára er heimilt að koma á léttu bifhjóli í flokki 1 í skólann svo fremi sem farið er að reglum sem gilda um notkun slíkra hjóla. Létt bifhjól eru aldrei leyfð á skólalóð. Þeim skal lagt á skilgreint svæði sem sérstaklega er ætlað léttum bifhjólum. Nánar um létt bifhjól má lesa hér: https://eplica.samgongustofa.is/media/umferd/Lett-bifhjol-i-flokki-I.2017.3.pdf.
Reglur um létt bifhjól
- Ég nota ávallt hjálm
- Ég tek aldrei farþega
- Ég tek tillit til gangandi vegfaranda og gæti að mér í umferðinni.
- Ég legg hjólinu á réttan stað
- Ég fer stystu leið inn á og út af skólalóð
- Ég keyri aldrei á léttu bifhjóli á skólalóð
FRÍSTUNDASTARFIÐ
Hraunsel
Hlutverk frístundaheimila er að bjóða upp á fjölbreytt frístunda- og tómstundastarf án aðgreiningar fyrir börn á aldrinum 6-9 ára eftir að kennslu lýkur. Markmið starfsins er að efla sjálfstraust og félagsfærni. Starfsemi frístundaheimila hefur áhrif á félagsþroska barna og er vettvangur þar sem þau æfa sig í vináttu og samskiptum. Börnin læra gagnkvæma virðingu, traust og umburðarlyndi í gegnum leik og starf. Umhverfi frístundaheimila einkennist af öryggi og fagmennsku. Aðstæður eiga að einkennast af jákvæðum samskiptum og lýðræðislegum starfsháttum. Í frístundaheimilinu er hlustað, rætt saman og ekki síst er pláss fyrir allar tilfinningar.
Hér er dagskrá Hraunsels fyrir ágúst og september.
Mosinn - miðdeild
Mosinn opnar mánudaginn 28. ágúst og verður opinn á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum í vetur frá kl. 17:00-19:00. Við hvertjum alla nemendur í miðdeild til þess að mæta og taka þátt. Við skorum á ykkur foreldra/forsjáraðila til þess að hvetja nemendur til þess að mæta og vera með. Þarna kynnast nemendur öðrum nemendum og annan hátt en í skólanum og byggja tengsl sem nýtast líka á skólatíma.
Hér er dagskrá Mosans fyrir ágúst og september.
Mosinn - unglingadeild
Mosinn opnar mánudaginn 28. ágúst og verður opinn á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum í vetur frá kl. 19:30-22:00. Við hvertjum alla nemendur í miðdeild til þess að mæta og taka þátt. Við skorum á ykkur foreldra/forsjáraðila til þess að hvetja nemendur til þess að mæta og vera með. Þarna kynnast nemendur öðrum nemendum og annan hátt en í skólanum og byggja tengsl sem nýtast líka á skólatíma.
Hér er dagskrá Mosans fyrir ágúst og september.
https://www.facebook.com/felagsmidstodinmosinn
Instagram - Mosinn
HHH félagsmiðstöð
Í vetur verður áfram hinsegin hittingur í Hafnarfirði. Allt er farið af stað og við hvetjum þau sem vilja að kíkja í hitting. Það er líka hægt að "follow" bæði á Facebook og Instagram, sjá hér undir:
https://www.facebook.com/hinseginhittingurihfj
Instagram - hinseginhittingurihfj