
Fréttamolar úr MS
23. janúar 2025
Þá er vetrarönn meira en hálfnuð, nemendur hafa fengið miðannarmat og ættu að vera upplýstir um stöðu sína í náminu. Það er nauðsynlegt að taka mark á miðannarmatinu og nemendur sem fengu Ó þurfa að leggja sig sérstaklega fram út önnina til að bæta stöðuna. Námsráðgjafar eru til taks ef nemendum vantar aðstoð - hægt að bóka tíma hér.
Kennslukönnun hefst í næstu viku í nokkrum námsgreinum og hvetjum við nemendur til að taka þátt.
Dagsetningar framundan 📆
Fimmtudagur 23. jan.: MS mætir Versló í æfingakeppni fyrir Morfís í Verzlunarskólanum kl. 18
Fimmtudagur 23. jan.: Lið MS mætir liði Borgó í 2. umferð Gettu betur kl. 20:35 - mæting í RÚV Efstaleiti kl. 20:20
Þriðjudagur og miðvikudagur 28.-29. jan.: Matsdagar. Dagskrá birtist á www.msund.is.
Föstudagur 14. feb.: Síðasti kennsludagur vetrarannar
Mán. og þri. 17.-18. feb.: Matsdagar
Fimmtudagur 20. feb.: Námsmatssýning
Mánudagur 24. feb.: Upphaf vorannar
Námsgögn - áminning 👈
Við minnum nemendur og forsjárfólk þeirra á að nemendur eiga að koma með eigin námsgögn í skólann. Ber þar helst að nefna námsbækur og ritföng en jafnframt hleðslutæki fyrir tölvur og reiknivélar. Vakin er athygli á því að nemendur í stærðfræði þurfa að nota reiknivélar í prófum og ýmsum verkefnum svo ekki dugir að vera með símareiknivél.
Gettu betur!
Þau Oliwia Eva, Sigurjón Nói og Matthilda Ósk sigruðu MK í fyrstu umferð Gettu betur með glæsibrag. Næst keppa þau við Borgó í 2. umferð fimmtudaginn 23. janúar. Ljóst er að þar verður háð hörð keppni um að komast áfram í 3. umferð, sem fara mun fram í beinni í sjónvarpssal!
Nemendur eru hvattir til að mæta og styðja liðið í Útvarpshúsinu Efstaleiti. Keppnin hefst kl. 20:35, mæting kl. 20:20.
Morfís
Morfís er komið á flug þetta skólaárið og stífar æfingar í gangi. MS mætir Versló í æfingakeppni fyrir Morfís í Verzlunarskólanum fimmtudaginn 23. janúar kl. 18. Nemendur MS eru hvattir til að mæta og hvetja sitt lið.
Viðfangsefni dagsins er Stríð fyrir frið og er MS á móti en Versló með.
Vigdís, Ásgeir, Alfreð, Agla og María eru í Morfís liðinu
FRÍS
Rafíþróttakeppni framhaldsskólanna er að hefjast um þessar mundir og hafa lið MS verið skipuð. Keppt er í Counter Strike 2, Rocket League og Fornite. MS hefur tekið þátt undanfarin ár og í ár var mikill áhugi á þátttöku sem sýnir að þessi keppni er komin til að vera.
Stöðupróf í þýsku og tælensku
Stöðupróf í þýsku og tælensku verða haldin í Menntaskólanum við Sund þriðjudaginn 28. janúar. Próf í þýsku hefst kl. 11, próf í tælensku hefst kl. 13:30.
Próftökugjald er 15.000 kr. og er óendurkræft. Nemendur geta fengið allt að 20 einingar metnar í tungumálinu. Smellið á myndina til að kynna ykkur málið.
Músíktilraunir
Nú styttist óðum í Músíktilraunir 2025 og ungt og upprennandi tónlistarfólk á aldrinum 13 – 25 ára er hvatt til að taka þátt. Keppnin fer fram í Hörpu, undankvöldin frá 27. mars – 30. mars og úrslitakvöldið til 6. apríl.
Skráning þátttakenda hefst á www.musiktilraunir.is 15. febrúar. og lýkur 3. mars.
Jafnréttisvika SMS
Feministaráð SMS og jafnréttisnefnd skólans standa fyrir Jafnréttisviku í skólanum þessa dagana. Dagskrá vikunnar má finna á síðunni hér fyrir neðan. Nemendum gefst kostur á að taka þátt í Jafnréttiskvissi og verður dregið úr innsendum svörum í hádeginu á föstudag - nánari upplýsingar á síðunni.
Smellið á myndina til að opna heimasíðuna
Baulan 2025
Baulan, söngvakeppni SMS, var haldin þann 9. janúar í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll. Þar stigu á stokk fjöldamörg hæfileikabúnt. Keppnin fór vel fram og voru nemendur og SMS skólanum til sóma.
Sigurvegari kvöldsins var Þóra Fanney Hreiðarsdóttir og óskum við henni innilega til hamingju!