

Tæknótíðindi
4. desember 2024
Dagsetningar framundan
- 5. desember - Jólapeysudagur í Tækniskólanum
- 5. desember - Upplýsingafundur útskriftarnema
- 6. desember - Útskriftarsýning í grafískri miðlun og prentun
- 7. desember - Kynningar á lokaverkefnum vélfræðinema
- 12. og 13. desember - Húsgagna- og húsasmíðasýning
- 12. og 13. desember - Námsmat
- 16. desember - Birting lokaeinkunna
- 18. desember - Útskrift Tækniskólans
Jólapeysudagur
Jólapeysudagur verður í Tækniskólanum fimmtudaginn 5. desember.
Gerum okkur glaðan dag og mætum í jólapeysu eða öðrum jólalegum fötum í tilefni dagsins 🎅
Upplýsingafundur vegna útskriftar
Fundurinn verður haldinn á Teams fimmtudaginn 5. desember kl. 12:30 og hvetjum við nemendur sem eru að útskrifast til þess að mæta.
Hægt er að smella á hlekkinn hér að neðan til að tengjast fundinum.
Útskriftarsýning í grafískri miðlun og prentun
Föstudaginn 6. desember kl. 15:00–17:00 verður útskriftarsýning og opnunarhóf í nýju húsnæði sérsviða Upplýsingatækniskólans í grafískri miðlun, prentun, bókbandi og ljósmyndun.
Þar munu útskriftarnemendur í grafískri miðlun og prentun sýna lokaverkefni ásamt öðrum verkum úr náminu.
Hér má sjá nánari upplýsingar um viðburðinn og við hvetjum ykkur til að líta við og fagna deginum með nemendum.
Birting lokaeinkunna
Lokaeinkunnir verða birtar í Innu mánudaginn 16. desember.
Þá eru nemendur hvattir til að skoða námsmat og fara yfir einkunnir en kennarar verða til viðtals í sínum deildum kl. 10:00–12:00 þennan sama dag.
Nánari upplýsingar um annarlok má finna á vefsíðu skólans.
Útskrift Tækniskólans
Útskrift Tækniskólans á haustönn fer fram í Eldborgarsal Hörpu, miðvikudaginn 18. desember.
Athöfnin hefst stundvíslega kl. 13:00 og nemendur eru beðnir um að mæta klukkustund áður en athöfn hefst, nánar tiltekið kl. 12:00 í Eldborgarsal.
Útskriftarnemendum er úthlutað sæti við athöfnina og hver skóli útskrifar eina námsbraut í einu. Frjálst sætaval er fyrir gesti en hver og einn nemand má bjóða allt að fjórum gestum með á útskriftina.
Nánari upplýsingar um útskriftina má finna á vefsíðu skólans.
Skólareglur Tækniskólans
Breytingarnar snúa m.a. að notkun snjalltækja, aðgangskortum og ýmsu sem tengist agamálum.
Við hvetjum ykkur til að kynna ykkur reglur skólans vel með því að smella á hnappinn hér að neðan.
Lýðræðið heiðrað
Eins og kom fram í síðustu Tæknótíðindum var vel heppnaður skólafundur haldinn þriðjudaginn 19. nóvember þar sem fjöldi nemenda og starfsfólks ræddi m.a. um draumaskólaumhverfið.
Skuggakosningar fóru svo fram í Tækniskólanum fimmtudaginn 21. nóvember þar sem settar voru upp kjördeildir á Háteigsvegi, í Hafnarfirði og á Skólavörðuholti.
Í tilefni Alþingiskosninganna bauð Tækniskólinn til pallborðsumræðna með fulltrúum stjórnmálaflokkanna dagana 26. og 27. nóvember. Þar svöruðu fulltrúar stjórnmálaflokkanna spurningum frá nemendum og sýndu á sér skrautlegar hliðar er þau þreyttu meistaraprófið.
Þá var nemendum og starfsfólki boðið í hátíðarkaffi föstudaginn 29. nóvember í tilefni fullveldisdagsins. Þjóðlegar veitingar voru á boðstólum og fjölmörg mættu spariklædd í skólann í tilefni dagsins.
Hér að neðan má sjá nokkrar svipmyndir frá þessum skemmtilegu og vel heppnuðu viðburðum.