Fréttabréf Grenivíkurskóla
4. tbl. 1. árg. - desember 2020
Kæra skólasamfélag
Þá er enn einn mánuðurinn liðinn og framundan er aðventan og jólavertíðin með allri þeirri tilhlökkun og gleði sem henni fylgir. Í skólanum eru að venju ýmsir viðburður á dagskrá á þessum tíma, svo sem laufabrauðsdagur, kyndlaganga og litlu-jólin. Vonandi getum við haldið upp á þessa viðburði með sem bestum hætti en það mun þó, líkt og annað þessi dægrin, ráðast af gildandi sóttvarnareglum.
Það er einmitt von á nýjum sóttvarnareglum á morgun, en núgildandi reglur falla úr gildi miðvikudaginn 2. desember. Í ljósi þess bakslags sem orðið hefur undanfarna daga er því miður ólíklegt að slakað verði á þeim tilmælum sem í gildi eru. Við munum að sjálfsögðu senda ykkur upplýsingar um framhaldið þegar það liggur fyrir.
Að lokum vil ég enn og aftur minna á að þótt takmarkanir á skólastarfi geri það að verkum að foreldrar séu beðnir um að heimsækja ekki skólann nema nauðsyn krefji að þá er ávallt hægt að hafa samband með því að hringja eða senda tölvupóst.
Með kveðju úr skólanum,
Þorgeir Rúnar Finnsson
skólastjóri Grenivíkurskóla
Skólastarf á tímum Covid
Covid-19 faraldurinn hefur haft gífurleg áhrif á heimsbyggðina síðustu mánuði og þar er Grenivíkurskóli engin undantekning. Gera hefur þurft nokkrar skipulagsbreytingar á starfi skólans til að hlíta sóttvarnaráðstöfunum en allt hefur þó gengið vel þökk sé samhentri vinnu, jákvæðni og þolinmæði jafnt starfsfólks sem nemenda.
Nú glittir í ljós við enda ganganna með fréttum af góðri virkni bóluefna sem eru í þróun. Ljóst má þó telja að skólaárið allt komi til með að litast að einhverju leyti af faraldrinum en vonandi tekst að koma böndum á hann á næsta ári og að þar með komist lífið aftur í eðlilegar skorður.
Hér má sjá nokkrar myndir úr skólastarfinu á þessum skrýtnu tímum.
Jól í skókassa
Að þessu sinni söfnuðust gjafir sem fylltu í 26 skókassa og þökkum við öllum þeim sem lögðu hönd á plóg kærlega fyrir sitt framlag.
Grænfáninn: Minnkum umbúðaflóð - áskorun
Síðustu föstudaga hafa umsjónarkennarar safnað saman umbúðum sem falla til í nestistímum. Myndarlegur haugur hefur myndast sem er í sjálfu sér eðlilegt, einhvern veginn þarf jú að pakka hlutum inn. En næstu tvo föstudaga langar okkur að fara í átak í því að minnka umbúðaflóðið.
Því biðlum við til nemenda og foreldra að útbúa nesti í eins litlum umbúðum og hægt er. Reynum að sleppa plastfilmum, álpappír og fernum og notum í staðinn fjölnota ílát, bæði undir mat og drykk.
Þegar við höfum prófað þetta, næstu tvo föstudaga, ætlum við svo að bera saman umbúðirnar sem falla til við það sem fallið hafði til föstudagana þar á undan. Niðurstöðurnar sýna okkur vonandi að við, sem neytendur, getum haft áhrif með okkar vali. Allt hjálpar þetta svo til við að vekja nemendur til umhugsunar um umhverfismál og hvetur þá til að vera hluti af lausninni en ekki hluti af vandanum.
Heilsueflandi skóli: Hollt nesti
Í framhaldi af Grænfánaverkefninu varðandi nesti á föstudögum hér að ofan langar okkur að brýna fyrir nemendum og foreldrum að velja hollt og staðgott nesti líkt og kveðið er á um í skólareglum Grenivíkurskóla. Brögð hafa verið að því að það sé ekki ávallt raunin og viljum við því minna á mikilvægi þess að nemendur fái hollan og góðan bita sem gefur þeim næga orku til að fást við verkefni dagsins.
Þemavika nemendaráðs
Hér má sjá nokkrar myndir úr þemavikunni. Því miður fyrirfórst að taka myndir alla dagana.
Útiskóli í desember
- 5.-6. bekkur: Jólabakstur og fleira jólastúss
- 1.-4. bekkur: Jólaföndur - hráefni úr náttúrunni
Á döfinni í desember
- 1. desember: Fullveldisdagurinn
- 4. desember: Laufabrauðsdagur
- 15. des: Kyndlaganga
- 18. desember: Litlu-jól, skipulag dagsins betur auglýst síðar. Jólafrí hefst
- 4. janúar: Starfsdagur. Frí hjá nemendum
- 5. janúar: Skóli hefst að nýju eftir jólafrí
Grenivíkurskóli
Ábyrgðarmaður: Skólastjóri Grenivíkurskóla
Email: grenivikurskoli@grenivikurskoli.is
Website: http://www.grenivikurskoli.is
Location: Grenivík
Phone: 414-5413
Facebook: https://www.facebook.com/search/top?q=greniv%C3%ADkursk%C3%B3li