Fréttabréf Grenivíkurskóla
5. tbl. 5. árg. - maí 2024
Kæra skólasamfélag
Þá er síðasti mánuður þessa skólaárs runninn upp og óhætt að segja að heilmikið sé um að vera þar til skóla verður slitið þann 31. maí næskomandi kl. 15:00. Nú í upphafi mánaðar fer stór hluti unglingastigsins á Samfestinginn í Reykjavík, nemendur á yngsta stigi sjá leiksýningu ásamt nemendum leikskólans, unglingarnir fara á Samskóladag, og við fáum þar að auki góðar fræðsluheimsóknir.
Síðar í mánuðinum er svo komið að Runólfi, kveðjuhátíð 10. bekkinga, og í lok mánaðar ljúkum við skólaárinu með útivistardögum og skólaslitum.
Nemendur hafa einnig haft ýmislegt fyrir stafni síðustu vikur. Við héldum glæsilega lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar, þar sem okkar fulltrúar stóðu sig með mikilli prýði, og það sama má segja um okkar fólk í Skólahreysti sem fram fór á dögunum.
Við vonumst eftir sólríkum og mildum maí-mánuði og hlökkum til þessara síðustu vikna skólaársins!
Með kveðju úr skólanum,
Þorgeir Rúnar Finnsson
skólastjóri Grenivíkurskóla
Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk
Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk var haldin í apríl, en nemendur höfðu æft sig reglulega í allan vetur undir dyggri leiðsögn Hólmfríðar Björnsdóttur. Þann 16. apríl fór fram heimakeppni í Grenivíkurskóla og stóðu nemendur sig allir frábærlega. Dómnefnd átti afar erfitt val fyrir höndum, en það voru þau Björg Guðrún Sigurbjörnsdóttir og Sindri Páll Ragnarsson sem voru valin til þess að vera fulltrúar skólans á lokahátíðinni.
Lokahátíðin var svo haldin með stæl í Grenivíkurskóla þann 23. apríl, en þangað mættu lesarar frá Grenivíkurskóla, Þelamerkurskóla, Hrafnagilsskóla, Árskógarskóla, Dalvíkurskóla og Grunnskóla Fjallabyggðar. Hátíðin var öll hin glæsilegasta og stóðu okkar fulltrúar sig með mikilli prýði.
Skólahreysti
Þann 30. apríl síðastliðinn atti Grenivíkurskóli kappi við aðra skóla á Norðurlandi í Skólahreysti. Keppnin fór fram í Íþróttahöllinni á Akureyri og var mikil stemning meðal áhorfenda. Smári Signar, Kristjana Elín, Aníta og Tryggvi Hrafn tóku þátt fyrir hönd skólans, en Sigurður Arnfjörð og Móeiður Alma voru varamenn. Krakkarnir stóðu sig með mikilli prýði og lögðu sig svo sannarlega alla fram í keppninni.
Heilsueflandi skóli
Dagatal Velvirk fyrir þennan mánuð ber yfirskriftina "mikilvægi maí". Á dagatalinu má finna ýmsar tillögur sem eru í anda þess sem rannsóknir hafa sýnt að geti hjálpað fólki að lifa hamingjuríkara lífi, svo sem að gefa af sér, tengjast öðrum, finna tilgang, leika sér og njóta augnabliksins.
Smellið hér til að sjá útprentanlegt pdf-skjal með dagatalinu.
Grænfáninn
Landshlutafundur Grænfánans á Norðurlandi var haldinn í Stórutjarnaskóla þann 22. apríl sl., en þar voru á dagskrá fræðsluerindi og ýmislegt fleira. Þau Hilmar Mikael og Aníta sóttu fundinn fyrir hönd nemenda Grenivíkurskóla ásamt kennurunum Ingu Maríu og Eddu. Fundurinn var vel heppnaður, en þátttaka okkar var ekki síst í þeim tilgangi að blása meira lífi í Grænfánastarfið í skólanum. Stefnir skólinn að því að endurnýja fánann á næstu misserum.
Frekari upplýsingar og hugmyndir að ýmsum verkefnum má finna á hér.
Myndir úr skólastarfinu
Matseðill
Á döfinni í maí
- 1. maí: Verkalýðsdagurinn - frí.
- 7. maí: Samskóladagur í Þelamerkurskóla fyrir 8.-10. bekk.
- 9. maí: Uppstigningardagur - frí.
- 17. maí: Útskriftarmyndataka nemenda í 10. bekk.
- 20. maí: Annar í hvítasunnu - frí.
- 21. maí: Runólfur - kveðjuhátíð 10. bekkinga.
- 23. - 28. maí: Útskriftarferð nemenda á unglingastigi.
- 30. maí: Útivistardagur.
- 31. maí: Útivistardagur. Skólaslit kl. 15:00.
Útgefandi: Grenivíkurskóli
Ábyrgðarmaður: Skólastjóri Grenivíkurskóla
Tölvupóstur: grenivikurskoli@grenivikurskoli.is
Heimasíða: http://www.grenivikurskoli.is
Sími: 414-5413
Facebook: Grenivíkurskóli