
Fréttabréf Grenivíkurskóla
10. tbl. 5. árg. - desember 2024
Kæra skólasamfélag
Að vanda flýgur tíminn áfram og nú höldum við inn í síðasta mánuð ársins, en að margra mati er skemmtilegasti tími ársins framundan. Undirbúningur fyrir jólahátíðina, hátíð ljóss og friðar, er kominn á fullt hér í skólanum sem annars staðar. Í desember höldum við í ýmsar hefðir eins og laufabrauðsdag og kyndlagöngu, og þann 20. desember höldum við litlu jól og förum að þeim loknum í jólafrí. Nánari upplýsingar um þessa daga alla berast ykkur þegar nær dregur.
Í nóvember var ýmislegt á dagskránni. Nemenda- og foreldraviðtöl fóru fram í mánuðinum, við héldum upp á baráttudag gegn einelti, og þá fengum við frábæra heimsókn frá þeim Lindu Ólafsdóttur og Sævari Helga Bragasyni í tengslum við verkefnið Skáld í skólum.
Sem fyrr segir er síðasti kennsludagur fyrir jólafrí föstudagurinn 20. desember og litlu jólin verða svo haldin seinni partinn þann sama dag. Að þeim loknum halda nemendur í jólafrí, en skóli hefst svo aftur að loknu jólafríi mánudaginn 6. janúar.
Við í skólanum vonum að þið eigið notalega aðventu og njótið hátíðanna sem allra best.
Með kveðju úr skólanum,
Þorgeir Rúnar Finnsson
skólastjóri Grenivíkurskóla
Styrkur til jólabókakaupa
Undanfarin ár hefur Grenivíkurskóli fengið veglega styrki frá fyrirtækjum hér á svæðinu fyrir jólin, sem nýttur hefur verið til bókakaupa. Fyrstu árin fékk hver nemandi bók að gjöf, en undanfarin ár hafa styrkirnir verið nýttir til sameiginlegra bókakaupa og bækurnar settar í bókahillur eða í heimastofur nemenda. Nemendur geta þannig valið úr glæsilegu úrvali glænýrra bóka, til viðbótar við góðan bókakost sem bókasafnið býr yfir, og er það von okkar að þetta framtak auki lestraráhuga nemenda.
Þau fyrirtæki sem styrktu verkefnið að þessu sinni eru Darri ehf., Sparisjóður Höfðhverfinga og Gjögur hf., og færum við þeim bestu þakkir fyrir frábæran stuðning!
Skáld í skólum
Þann 1. nóvember fengum við í skólanum góða heimsókn frá rithöfundunum Lindu Ólafsdóttur og Sævari Helga Bragasyni, en þau komu til okkar í tengslum við verkefnið Skáld í skólum. Í heimsókninni stikluðu þau á stóru um hvernig það er að vera rithöfundur og með dyggri aðstoð nemenda tóku þau sig svo til og bjuggu til - og myndskreyttu - æsispennandi vísindaskáldsögu! Skemmtileg heimsókn og þökkum við þeim kærlega fyrir komuna.
Jól í skókassa
Líkt og undanfarin ár tóku nemendur og starfsfólk Grenivíkurskóla þátt í verkefninu Jól í skókassa. Um er að ræða alþjóðlegt verkefni sem felst í því að gleðja börn sem lifa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika með því að gefa þeim jólagjafir.
Skókassarnir frá Íslandi fara til barna í Úkraínu og verður meðal annars dreift á munaðarleysingjaheimili, barnaspítala og til fólks sem býr við sára fátækt. Líkast til hefur þörfin fyrir hvers kyns aðstoð í Úkraínu aldrei verið meiri en um þessar mundir, í ljósi þess ömurlega stríðs sem þar geysar.
Að þessu sinni söfnuðust gjafir sem fylltu ríflega 20 skókassa og þökkum við öllum þeim sem lögðu hönd á plóg kærlega fyrir sitt framlag.
Baráttudagur gegn einelti
Þann 13. nóvember sl. var haldinn sérstakur baráttudagur gegn einelti í skólanum. Safnast var saman um morguninn og horft á myndbönd þar sem meðal annars var fjallað um mikilvægi þess að við ákveðum öll að vera saman í baráttuliðinu gegn einelti og að segja frá ef við vitum af því að verið sé að leggja í einelti. Einnig spjölluðum við almennt um einelti, Olweusaráætlunina, og eineltishringinn góða, sem er gott verkfæri þegar unnið er með eineltismál.
Að því loknu hengdu nemendur og starfsfólk hin ýmsu form, sem þau höfðu föndrað, í kringum græna kallinn okkar. Markmiðið er að minna okkur öll á mikilvægi þess að taka skýra afstöðu gegn einelti og leggja okkar af mörkum í baráttunni gegn þessu samfélagsmeini.
Grænfáninn
Í grænfánadálki fréttabréfsins í vetur verður sjónum meðal annars beint að hinum ýmsu hugtökum sem varða umhverfisnefnd.
Hugtak desembermánaðar er umhverfismerki. Umhverfismerki segja okkur að varan uppfylli kröfur um að dregið sé úr umhverfisáhrifum við framleiðslu á henni. Áreiðanleg umhverfismerki (Svanurinn og Evrópublómið m.a.) hjálpa okkur að velja það sem er betra fyrir umhverfi og heilsu. Réttlætismerki (siðgæðisvottun) eins og Fair trade segir okkur að varan uppfylli kröfur um ýmsa félagslega þætti svo sem að verkafólkið fái sanngjörn laun og að vinnuaðstæður séu í lagi.
Heilsueflandi skóli
Dagatal Velvirk fyrir þennan mánuð ber yfirskriftina "hlýhugur í desember". Á dagatalinu má finna ýmsar tillögur sem eru í anda þess sem rannsóknir hafa sýnt að geti hjálpað fólki að lifa hamingjuríkara lífi, svo sem að gefa af sér, tengjast öðrum, finna tilgang, leika sér og njóta augnabliksins.
Smellið hér til að sjá útprentanlegt pdf-skjal með dagatalinu.
Myndir úr skólastarfinu
Á döfinni í desember
- 1. desember: Fullveldisdagurinn.
- 9. desember: Laufabrauðsdagur.
- 16. desember: Kyndlaganga.
- 20. desember: Litlu jól - jólafrí hefst að þeim loknum.
- 23. desember: Þorláksmessa.
- 24. desember: Aðfangadagur jóla.
- 25. desember: Jóladagur
- 26. desember: Annar í jólum.
- 31. desember: Gamlársdagur
- 1. janúar: Nýársdagur
- 3. janúar: Starfsdagur - frí hjá nemendum.
- 6. janúar: Þrettándinn - skóli hefst að loknu jólafríi.
Matseðill
Útgefandi: Grenivíkurskóli
Ábyrgðarmaður: Skólastjóri Grenivíkurskóla
Tölvupóstur: grenivikurskoli@grenivikurskoli.is
Heimasíða: http://www.grenivikurskoli.is
Sími: 414-5413
Facebook: Grenivíkurskóli