
Fréttamolar úr MS
17. desember 2024
Styttist í jólafrí
Dagsetningar framundan
18. des.: Jólastemning í hádeginu 🎅
19.-20. des.: Matsdagar - dagskrá birtist á www.msund.is á miðvikudaginn 📝
20. des.: Brautskráning í MS kl. 15:00 🎓
21. des.-5. jan.: Jólafrí - skólinn lokaður 🎄
6. jan.: Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá 🏫
9. jan.: Baulan, söngvakeppni SMS 🎤
14. jan.: Miðannarmat 📊
Baulan 🎤
Baulan söngvakeppni SMS, verður haldin þann 9. janúar næstkomandi. Keppnin fer fram í gamla NASA salnum sem stendur við Thorvaldsensstræti 2, 101 Reykjavík.
Baulan er frábært tækifæri fyrir nemendur skólans til að leyfa hæfileikum sínum að skína! Sigurvegari Baulunar keppir síðan fyrir hönd skólans í söngvakeppni framhaldskólanna!🤩 Öll sem hafa áhuga eru hvött til að skrá sig!♥️
FRÍS
FRÍS er rafíþróttakeppni íslenskra framhaldsskóla. MS hefur tekið þátt síðustu ár með góðum árangri. Nú vantar liðsmenn í leikana en í Counter-Strike 2, Rocket League* og Fortnite*. Einnig verður samfélagsmiðlakeppni FRÍS á sínum stað líkt og áður til að hvetja keppendur til að huga að líkama og sál.
*Cross-play í RL og Fortnite er leyfilegt, keppendur ráða hvort þeir spili á PC/Playstation.
Keppendur í aðalliði CS2 skulu vera fimm, keppendur í aðalliði Rocket League skulu vera þrír og keppendur í aðalliði Fortnite skulu vera þrír. Varamenn mega síðan vera allt að þrír í hverjum leik. Athugið að til þess að eiga möguleika á því að keppa í úrslitakeppninni (fara áfram í undanúrslit FRÍS) þarf að vera með lið í öllum þremur leikjunum. Skólar þurfa að hafa keppendur af fleira en einu kyni í öllum leikjum.
Nemendur í MS geta sótt um einingar fyrir þátttöku í FRÍS, allt að 5 einingar í boði fyrir þau sem standa sig vel og mæta samviskusamlega á keppnir og æfingar!
Ef þið hafið spurningar um FRÍS skuluð þið hafa samband við Guðnýju félagsmálastjóra í Viskusteini (bókasafninu). Við hvetjum öll áhugasöm til að skrá sig!
Frá skrifstofunni
Nemendur sem hafa fengið lánuð hleðslutæki og vasareikna eru vinsamlegast beðin um að skila þeim á skrifstofuna við fyrsta tækifæri!
Frá tölvuumsjón💻
Tölvuumsjón biður alla um að uppfæra tölvurnar sínar, bæði vegna aukinna netárása og eins til að bæta virkni tölvunnar.
Ef þið eruð ekki viss um hvernig þetta er gert þá endilega kíkið við í Viskusteini og fáið aðstoð.
Svo bendum við líka á upplýsingasíðu Tölvuaðstoðar (Tölvuaðstoð | Menntaskólinn við Sund) en þar er að finna ýmsar leiðbeiningar um helstu atriði.
Norska / sænska á vorönn 2025
Norska og sænska eru kenndar í MH. Námið er staðnám fyrir nemendur sem eru að taka þessi tungumál í staðinn fyrir dönsku. Nánar má lesa um norsku eða sænsku kennsluna hér. Skráningu lýkur 3. janúar 2025.
Lykilmatsþáttur
Á vetrarönn hófst tilraunaverkefni um lykilmatþætti í MS sem ætlað er að auka seiglu og árangur nemenda. Lykilmatsþáttur er ákveðinn námsþáttur sem nemandi þarf að standast til að ljúka áfanga, óháð meðaleinkunn í öðrum námsþáttum áfangans. Um lykilmatsþátt gilda eftirfarandi reglur:
- Kennarar hafa val um það hvort lykilmatsþættir séu settir inn í áfanga – þetta er ekki í öllum áföngum
- Lykilmatsþáttur getur verið hvaða form námsmats sem er – lykilmatsþáttur getur verið í formi prófs en það er aðeins ein möguleg útfærsla af mörgum.
- Lykilmatsþættir eru skýrt skilgreindir í námsáætlun og kennara ber að útskýra vandlega fyrir nemendum í upphafi annar hvernig matið fer fram og til hvers er ætlast af nemendum.
- Til að ljúka áfanga þar sem lykilmatsþáttur er til staðar verður nemandi að standast þann matsþátt með einkunn 5.00 að lágmarki.
- Takist nemanda ekki að standast lykilmatsþátt í fyrstu atrennu ber kennara að veita viðkomandi annað tækifæri til að standast lykilmatsþáttinn.
- Lágmarksvægi lykilmatsþáttar er 15% og hámarksvægi 30% af lokaeinkunn áfanga.
Er það von skólans að þessi nýjung verði til þess að auka árangur og mikilvægar undirstöður í námi nemenda okkar. Nánar má lesa um verkefnið hér.
Vel heppnuð litlu jól framhaldsskólanna
Litlu jól framhaldsskólanna fóru fram í Fjölbrautaskólanum við Ármúla fimmtudaginn 28. nóvember en viðburðurinn var haldinn af umhverfisnefndum MS, FÁ og Tækniskólans. Tilgangur viðburðarins var að fræða nemendur um loftslagsmál með skemmtilegum hætti. Hringrásarhagkerfið var allsráðandi á viðburðinum og hver einasta smiðja úthugsuð frá umhverfissjónarmiði. Viðburðurinn gekk afskaplega vel og söfnuðust 37 þúsund krónur til styrktar Barnaheilla.
Fjölmargt var í boði á viðburðinum:
- fataskiptimarkaður
- lukkuhjól til styrktar Barnaheilla
- þakklætissmiðja frá Grænfánanum
- fataviðgerðir
- jól í skókassa
- fríbúð
- fræðsla frá Frey Eyjólfssyni, hringrásarhagkerfispeppara
- loftslagsvænt kakó og afgangs bakarísmatur
- nýbakaðar smákökur frá nemendum í MS
- piparkökuskreytingar
- Tónlist frá nemendum MS, Tækniskólans og FÁ
Jólasveinn mætti einnig á svæðið og vakti það mikla lukku meðal nemenda. Gjafakortum frá Hopp var dreift um salinn og var ókeypis að koma á Hopp-hlaupahjóli í skólann allan daginn.
Viðburðurinn var styrktur af fjölmörgum aðilum, t.d. Strætó, Hopp, Rent a party, Nytjamarkaði ABC, Krónunni, Góða hirðinum, Ekó húsinu, Grænfánanum og Hringekjunni og þakka umhverfisráðin kærlega fyrir stuðninginn. Aðal styrkurinn kom svo frá Loftslagssjóði ungs fólks hjá Reykjavíkurborg. Án hans hefði viðburðurinn ekki geta orðið að veruleika.