Brekkuskóli
MENNTUN - GLEÐI - UMHYGGJA - FRAMFARIR
Kæru foreldrar/forráðamenn nemenda í Brekkuskóla
Lífið í skólanum gengur sinn vanagang, það er farið að styttast í annan endann á skólaárinu og þá líður tíminn svo óskaplega hratt. Það tilheyrir vorinu að bekkir fari út og hreinsi í kringum skólann en snjórinn hylur enn lóðina okkar og því lítið hægt að tína rusl og sópa.
Undanfarin vor höfum við verið með farfuglaverkefni þar sem nemendur og starfsfólk keppist við að fylgjast með komu vorboðanna ljúfu og tilkynna um leið og vart verður við einhverja fuglategund. Þessum upplýsingum er svo safnað saman á „brúnni“ okkar þar sem allir geta skoðað og lesið um þá fugla sem eru komnir. Þetta er skemmtilegt verkefni sem sameinar fuglaáhugafólk í skólanum.
Framundan í apríl, maí og júní
24. apríl Upplestrarhátíð hjá 4. bekk
30. apríl Skólahreysti
2. - 3. maí þemadagar um kvikmyndir
13. maí Frjálsíþróttamót í Boga 7. bekkur
14. maí Frjálsíþróttamót í Boga 6. bekkur
15. maí Frjálsíþróttamót í Boga 5. bekkur
16. maí Frjálsíþróttamót í Boga 4. bekkur
27. - 28. maí Vorskóli fyrir væntanlega nemendur í 1. bekk haustið 2024
28. - 30. maí Skólaferðalag 10. bekkjar
3. júní Vorhátíð nánari dagskrá auglýst síðar
4. júní Skólaslit nánari dagskrá auglýst síðar
Hulduverur í Hofi - sýning nemenda
Nemendur í 4. - 10. bekk taka þátt í Barnamenningarhátíð í Hofi og sýna verk sín um Hulduverur. Í íslenskum þjóðsögum er mikið um lýsingar af samskiptum álfa og manna. Þessi sýning varpar ljósi á hvert viðhorf barna til álfa og huldufólks er árið 2024, hvaða augum þau líta þessar hulduverur. Verkin eru unnin með akríllitum á striga og bylgjupappa, vatnslitum á vatnslitapappír auk þess sem nemendur skáru út í línolíudúk sem þau þrykktu á striga.
Myndirnar hér fyrir neðan eru einungis sýnishorn af verkunum og því hvetjum við alla til að kíkja í Hof, sýningin stendur til 29. apríl
Skák í skólanum
Í Brekkuskóla hefur verið öflug skákkennsla fyrir nemendur á miðstigi frá árinu 2018. Það skilar sér í auknum áhuga á skákinni og góðum árangri á skólamótum. Nú er nýyfirstaðið skákmót Brekkuskóla þar sem var góð þátttaka. Myndin sem fylgir með er frá mótinu í Brekkuskóla.
Helgina 13. - 14. apríl var haldið Íslandsmót grunnskólasveita 4. - 7. bekkja þar sem nemendur skólans náðu bestum árangri landsbyggðarsveita. Keppnin um landsbyggðarbikarinn var hörð og jöfn, enda við sterkar sveitir að eiga. Þegar upp var staðið endaði okkar sveit í 7. sæti af 36 með 19 vinninga, eða um 60% vinningshlutfall.
Lýðheilsa í Brekkuskóla
Umhverfisnefnd Brekkuskóla ákvað haustið 2022 að velja lýðheilsu sem þema til að vinna með næstu tvö skólaár. Ýmislegt hefur verið unnið í sambandi við það. Í fyrra var áhersla lögð á hléæfingar í kennslustundum sem hafa það að markmiði að brjóta upp kennslustundina þannig að nemendur standi upp, hreyfi sig, nái djúpri öndun, slökun o.fl. Kennarar hafa einnig notað ýmsar jógaæfingar og meira að segja hláturjóga. Á þessu skólaári hefur athyglinni verið beint að svefni og hvíld nemenda. Við gerðum könnun í tengslum við það en úrvinnslu er ekki lokið. Áætlað er að bjóða upp á fræðslu um mikilvægi svefns. Nemendur vildu kanna hvort síminn væri í svefnherbergi nemenda á nóttunni og verður spennandi að sjá niðurstöður. Skipulega hefur verið sett fram víða um skólann hvatningarorð og jákvæðar hugmyndir um hvað hægt er að gera til að bæta andlega líðan. Eins og undanfarin ár hafa ákveðnar bekkjardeildir ræktað grænmeti og blóm. Í vetur hófst grænmetis- og kryddræktun í heimilisfræðinni sem notuð er við matargerð þar. Allir árgangar skólans unnu einnig verkefni út frá markmiðum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna en þar kemur lýðheilsa mikið við sögu.
Samstarf heimila og skóla - Farsældarsáttmálinn
Foreldrar gegna mikilvægu hlutverki við að styðja við og stuðla að góðri menningu innan nemendahópa. Rannsóknir hafa sýnt að samstíga foreldrahópur hefur mikið forvarnargildi. Á heimasíðu heimilis og skóla má kynna sér Farsældarsáttmálann sem gefur foreldrum tækifæri til að forma samstarf sín á milli og styrkja foreldrastarfið.
Meðal annars má lesa um Foreldrabankann sem er efni fyrir bekkjarfulltrúa.
Hafðu samband
Email: brekkuskoli@brekkuskoli.is
Website: brekkuskoli.is
Location: v. Skólastíg
Phone: +354 414-7900
Facebook: https://www.facebook.com/brekkuskoli.is/