Fréttabréf Grenivíkurskóla
9. tbl. 5. árg. - nóvember 2024
Kæra skólasamfélag
Skólaárið flýgur áfram og það verða komin jól áður en við vitum af! Framundan er myrkasti tími ársins og þá er um að gera að leita allra leiða til að létta lundina og lýsa upp skammdegið. Við minnum á að gott er að skoða fatnað og töskur barnanna með tilliti til endurskinsmerkja, þau gera gæfumun.
Október var fjölbreyttur og skemmtilegur hjá okkur, á dagskrá voru t.d. tónleikar hjá Tónlistarskóla Eyjafjarðar, samskóladagur hjá miðstigi, þemavika, hrekkjavaka og ótalmargt fleira. Myndir frá völdum viðburðum og almennt úr skólalífinu má nálgast neðar í fréttabréfinu.
Nóvember verður að sama skapi viðburðaríkur. Ber fyrst að nefna foreldraviðtöl, en þau fara fram þriðjudaginn 12. nóvember. Mánudaginn 11. nóvember er starfsdagur og frí hjá nemendum. Frekari upplýsingar og skráning í foreldraviðtöl berast ykkur í tölvupósti á næstunni.
Með kveðju úr skólanum,
Þorgeir Rúnar Finnsson
skólastjóri Grenivíkurskóla
Nemendaráð 2024-2025
Nemendur á unglingastigi og miðstigi kusu fulltrúa í nemendaráð fyrir skólaárið 2024-2025 um daginn. Á unglingastigi voru kosnir þrír fulltrúar, en tveir á miðstigi. Nemendaráðið er að þessu sinni skipað eftirtöldum nemendum:
Hilmar Mikael Þorsteinsson - 10. bekkur
Móeiður Alma Gísladóttir - 10. bekkur
Ágúst Hrafn Guðjónsson - 8. bekkur
Angantýr Magni Guðmundsson - 7. bekkur
Lilja Katrín Harðardóttir - 5. bekkur
Við óskum þeim til hamingju með kjörið og höfum fulla trú á því að þau sinni störfum sínum af krafti í vetur.
Grænfáninn
Í grænfánadálki fréttabréfsins í vetur verður sjónum meðal annars beint að hinum ýmsu hugtökum sem varða umhverfisnefnd.
Hugtak nóvembermánaðar er vistspor. Vistspor er aðferð til að mæla hve mikið maðurinn hefur gengið á auðlindir Jarðar, s.s. hversu hratt og mikið við nýtum náttúrulegar auðlindir Jarðar og búum til úrgang borið saman við það hversu hratt og mikið náttúran getur endurnýjað sínar auðlindir og tekið við úrganginum.
Heilsueflandi skóli
Dagatal Velvirk fyrir þennan mánuð ber yfirskriftina "nýjar leiðir í nóvember". Á dagatalinu má finna ýmsar tillögur sem eru í anda þess sem rannsóknir hafa sýnt að geti hjálpað fólki að lifa hamingjuríkara lífi, svo sem að gefa af sér, tengjast öðrum, finna tilgang, leika sér og njóta augnabliksins.
Smellið hér til að sjá útprentanlegt pdf-skjal með dagatalinu.
Myndir úr skólastarfinu
Á döfinni í nóvember
- 8. nóvember: Baráttudagur gegn einelti.
- 11. nóvember: Starfsdagur - frí hjá nemendum.
- 12. nóvember: Viðtalsdagur.
- 13. nóvember: Valgreinar - 2. lota hefst.
- 16. nóvember: Dagur íslenskrar tungu.
- 20. nóvember: Dagur mannréttinda barna.
Matseðill
Útgefandi: Grenivíkurskóli
Ábyrgðarmaður: Skólastjóri Grenivíkurskóla
Tölvupóstur: grenivikurskoli@grenivikurskoli.is
Heimasíða: http://www.grenivikurskoli.is
Sími: 414-5413
Facebook: Grenivíkurskóli