
Fréttabréf Flóaskóla
október 2024
Kæra skólasamfélag
Október fer vel af stað, hefðbundin verkefni haustsins hafa gengið vel og skólastarfið er komið í nokkuð fastar skorður. Í síðustu viku voru hjá okkur tveir kennaranemar. Oft er sagt að glöggt sé gests augað og ef það er raunin getum við verið ansi sátt við skólann okkar. Nemarnir voru mjög hrifnir af skólanum, fannst einstaklega góður andi, afslappað andrúmsloft, góð og jákvæð samskipti milli allra og metnaðarfull verkefni í öllum hópum.
Samstarfsverkefni leik- og grunnskóla Gullin í grenndinni er farið af stað og hafa nemendur þegar hist einu sinni í Skagási. Einnig hafa nemendur í 1.bekk farið í heimsókn í leikskólann og í næstu viku koma elstu nemendur leikskólans í heimsókn í Flóaskóla.
Í vetur ætlum við að skipta skólaárinu í sex hluta þar sem í hverjum þeirra er kennt eitt þemaverkefni tengt einum af grunnþáttum menntunar. Fyrsta verkefnið var tengt grunnþættinum heilbrigði og velferð. Nemendur skólans hafa undanfarið unnið viðamikið þemaverkefni tengt þessu sem nefnist Hver er ég? Þar hafa nemendur skoðað styrkleika sína og veikleika, sett sér markmið, unnið með áhugamál sín og margt fleira tengt þeim sjálfum. Mánudag 7.10. verða svo nemendastýrð viðtöl í skólanum, þar sem nemendur kynna verkefnið fyrir foreldrum sínum og byggja viðtalið á þessu verkefni að stærstum hluta.
Næsta þema er tengt grunnþættinum sköpun. Þar ætla nemendur elsta stigs að undirbúa og sýna leikrit sem svo verður sýnt um miðjan nóvember. Miðstigið vinnur að verkefni sem nefnist Afmælisveislan mín - Grænu skrefin og yngsta stig vinnur með Himingeiminn. Í öllum þessum verkefnum og verkefnaskilum verður áhersla lögð á skapandi vinnu.
Dagana 17. og 18. október er haustleyfi í skólanum. Þegar við komum úr því verður Jón Pétur danskennari mættur með sína árlegu danskennslu.
Smiðjur með Uppsveitaskólunum eru svo fyrirhugaðar 24. og 25. október. Miðstigið fer að Flúðum föstudag 25., en elsta stigið fer í Menningarferð til Reykjavíkur fimmtudag 24. og kemur heim 25. Nánari upplýsingar um ferðina verða sendar foreldrum þegar nær dregur. Það eru Kerhólsskóli og grunnskólinn á Laugarvatni sem skipuleggja þá ferð.
bestu kveðjur úr Flóaskóla
Þórunn Jónasdóttir
skólastjóri
Öryggismyndavélar komnar upp við skólann
Búið er að setja upp öryggismyndavélar bæði á Þjórsárver og á skólabygginguna. Þær vísa báðar að innkeyrslunum að byggingunum. Stjórnendur og húsvörður hafa aðgang að efni vélanna en umgengni við þær lúta ströngum reglum vegna persónuverndar. Upplýsingaskilti eru komin upp vegna þessa.
Gjöf til skólans frá þroskaþjálfunum skólans í tilefni af degi þroskaþjálfa
Þær Ósk og Sigurbára þroskaþjáfar Flóaskóla færðu skólanum klukku að gjöf í tilefni af degi þroskaþjálfa 2.10. Klukkan á að koma í glugga við inngang skólans og vísa út á hlað svo nemendur og aðrir geti fylgst með tímanum þegar verið er úti. Við þökkum þeim kærlega fyrir þessa góðu gjöf hún á eftir að nýtast vel, ekki síst fyrir þá sem eru á útivöktum í frímínútum en það er ósjaldan spurt hvað klukkan sé þegar nemendur eru í frímínútum.
Aðalfundur foreldrafélags Flóaskóla 26.september 2024
Stjórn 2023-2024
Elísabet Ýr Norðdahl kt.151086-2689 formaður (2023-2026)
Ósk Unnarsdóttir kt. 080377-3479 ritari ((fyrst 2015) núverandi 2021-2024)
Anný Ingimarsdóttir kt. 080368-3569 gjaldkeri ((fyrst 2020) núverandi 2022-2025)
Fundur settur kl. 20:08, mæting á fund: 8 einstaklingar.
Elísabet setur fund og skipar fundarstjóra og fundarritara.
Fundarstjóri: Hallfríður Ósk Aðalsteinsdóttir
Fundarritari: Ósk Unnarsdóttir
Skýrsla stjórnar: Elísabet les skýrslu stjórnar skólaárið 2023-2024.
Stjórn fundaði þrisvar sinnum á árinu og hafði einnig samráð gegnum símtöl og skilaboð. Einn fundanna var með Þórunni Jónasdóttur skólastjóra.
Á aðalfundi 2023 var ákveðið að prófa senda félagsgjöldin inn á heimili í nóvember og athuga hvort það hefði jákvæð áhrif á greiðslur. 41 heimili af 66 greiddu félagsgjöldin eða 62% heimila. Það er nánast sama tala og síðasta ár svo tímasetning virðist ekki hafa áhrif á greiðslur.
Í kjölfar aðalfundar á síðasta ári sendi stjórn erindi fyrir hönd félagsins til Vegagerðarinnar vegna lélegs ástands á vegum og til sveitarstjóra Flóahrepps vegna ábendinga um óæskilega símanotkun skólabílstjóra við skólaakstur.
Stjórn barst svar frá Vegagerðinni þar sem erindi var afgreitt að “ekki væri hægt að sjá að ástand vega væri verra en reikna má með varðandi malarvegi almennt”.
Stjórn barst svar frá sveitastjóra þar sem upplýst var um aðgerðir sem farið var í til að efla öryggisþætti í skólabílaakstri.
Foreldrafélagið fékk atriði frá Sirkus Íslands í skólann á fjölskyldudegi þann 22.maí 2024. Um var að ræða 60 mínútna heimsókn þar sem tveir skemmtikraftar voru með um hálftíma atriði og síðan viðveru á staðnum þar sem þeir röltu á milli gesta og spjölluðu. Þann dag aðstoðuðu foreldrar/forráðamenn einnig við að grilla hamborgara fyrir nemendur í hádeginu.
Sú hefð hefur skapast að félagið gefur nemendum, foreldrum/aðstandendum og starfsfólki ís á skólaslitum.
Reikningar: Anný - fer yfir reikninga félagsins.
Niðurstöður rekstrarreiknings: Tekjur kr. 118.839 og gjöld kr. 197.581. Rekstrartap kr. 78.742. Eigið fé alls þann 31.08.2024 kr. 121.384.
Fundarstjóri ber skýrslu stjórnar og reikninga undir fund í sitthvoru lagi, bæði samþykkt samhljóða.
Lagabreytingar - engar í ár
Félagsgjald: Anný
Tillaga um hækkun á félagsgjaldi um 500 krónur á heimili. Árgjald hefur verið 2500 krónur á heimili frá árinu 2017. Tillaga að hækka í 3000 krónur á heimili. Töluverðar umræður um félagsgjöld, innheimtur á þeim og hækkun. Tillaga frá foreldri á fundi að hækka félagsgjöld upp í 3500 krónur á heimili. Tillögur bornar upp og hækkun upp í 3500 krónur á heimili samþykkt samhljóða. Ákveðið að stjórn sendi póst um hvað fyrirætlað sé að gera í vetur til að hvetja öll heimili til að borga í félagið. Gjöldin eru rukkuð undir valgreiðslum þar sem ekki er hægt að skylda fólk til að borga.
Kosningar:
Ósk hefur lokið núverandi tímabili sem ritari stjórnar. Kosið er til þriggja ára.
Framboð: Bjarni Ólafsson - samþykkt samhljóða.
Katrín Ástráðsdóttir hefur lokið sínu tímabili sem varamaður stjórnar. Kosið er til tveggja ára. Katrín býður sig fram aftur - samþykkt samhljóða.
Walter Fannar Kristjánsson hefur lokið sínu öðru tímabili sem skoðunarmaður reikninga. Kosið er til tveggja ára. Walter býður sig fram aftur - samþykkt samhljóða.
Ágúst Guðjónsson hefur lokið sínu öðru tímabili sem vara skoðunarmaður reikninga. Kosið er til tveggja ára.
Framboð: Snædís Mjöll Kristjánsdóttir - samþykkt samhljóða.
Ragnar Finnur Sigurðsson hefur lokið sínu tímabili í setu í skólaráði. Kosið er til tveggja ára.
Framboð: Bryndís Eva Óskarsdóttir - samþykkt samhljóða.
Önnur mál:
Frístundabíll/akstur í tómstundir - Ósk bar upp erindi frá foreldri um möguleikann á aðkomu félagsins að frístundaakstri á Selfoss beint eftir skóla. Á fundinum var enginn mættur sem fylgdi þessu máli eftir. Málin rædd og fundargestir ekki á því að þörf sé á þessum akstri heldur frekar að félagið hvetji foreldra/forráðamenn til samtals við aðra í sömu stöðu um að skiptast á um akstur.
Í framhaldi af þessari umræðu barst tal að tómstundastarfi hjá sveitarfélaginu (Þjótanda). Heilmikið er þar í boði, vikulegar leikjaæfingar í Þingborg að vetri til, opið hús fyrir unglinga í félagsmiðstöð og leikjakvöld að sumri.
Skyndihjálp - Elísabet bar upp erindi sem er í vinnslu en það er skyndihjálparkennsla fyrir alla nemendur skólans. Verkefnið er félagið að vinna í samstarfi við skólann. Búið er að finna leiðbeinanda en verið er að vinna í fyrirkomulagi og kostnaði.
Hugmyndir:
Endurvekja félagsvistar kvöld eins og var komin hefð á fyrir Covid. Þá voru tvö-þrjú kvöld að vetri, spilaðar 6 umferðir og verðlaun fyrir nokkur sæti, frítt fyrir nemendur og foreldra. 10.bekkur starfrækti sjoppu þessi kvöld til fjáröflunar fyrir sína vorferð.
Hafa piparköku-skreytingar fyrir jólin.
Kaupa peysur eða aðrar flíkur merktar skóla? Fá fyrirtæki til að styrkja með því að fá merki sitt á flíkina.
Fundargestur bendir á að hægt er að sækja um ýmsa styrki ef vantar meiri pening til verkefna hjá félaginu t.d. til búnaðarfélaga í hreppnum (þau eru þrjú).
Nefndar hugmyndir til fjáröflunar eins og t.d. kökusala eða kleinusala.
Í lok fundar eru Ósk færð blóm og þakkir fyrir sín störf sem ritari stjórnar í níu ár. Ósk þakkar fyrir sig.
Fundi slitið kl. 21:10.
Fundargerð ritar: Ósk Unnarsdóttir
23. október - bleikur dagur
Bleiki dagurinn er hluti af Bleikum október sem er árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélagsins. Bleiki dagurinn er haldinn miðvikudaginn 23. október og er þá fólk hvatt til þess að klæðast bleiku til stuðnings Bleiku slaufunni, árlegu átaksverkefni tileinkað baráttunni gegn krabbameinum hjá konum.
Dönsum saman í október
Jón Pétur danskennari kemur til okkar dagana 21., 22., 23., 30. og 31. október. Hann tekur upp þráðinn frá fyrri árum og þjálfar fótafimi og samhæfingu nemenda í skemmtilegum danstímum. Líkt og undanfarin ár er öllum nemendum skólans boðið upp á danskennslu þessa daga. Síðasta daginn verður svo endað á uppskeruhátíð fyrir foreldra og forráðamenn í salnum í Þjórsárveri klukkan 13:20.
20 ára afmæli Flóaskóla
Eins og áður hefur komið fram fagnar skólinn 20 ára afmæli á þessu ári, en Flóaskóli var stofnaður haustið 2004. Af því tilefni ætlum við að halda afmælisfagnað í janúar. Við höfum fengið nokkrar fyrirspurnir um hvort hægt sé að færa skólanum eitthvað í tilefni afmælisins. Ef einhver félagasamtök eða hópar hafa áhuga á að færa skólanum gjöf fögnum við því og hvetjum viðkomandi til að hafa samband. Alltaf er nóg af viðfangsefnum sem gott er að fá stuðning við, hvort sem um er að ræða leiktæki á lóð skólans, bækur, hljóðfæri eða tæknibúnað til náms og kennslu.
Norrænt samstarf - Nordplus
12. september komu í heimsókn til okkar ríflega 20 nemendur frá Gudenåskolen í Danmörku. Þeir eru í samstarfi við 10. bekk- 9 ingana okkar í vetur. Yfirskrift samstarfsverkefnisins þetta skólaár er Vatnið í nærumhverfi okkar. Hópurinn fór m.a. til Vestmannaeyja, í Hellisheiðarvirkjun og í Reykjaréttir. Heimsóknin gekk mjög vel og var lærdómsrík fyrir alla. Krakkarnir halda svo tengslum gegnum netið í vetur og í mars er fyrirhugað að okkar 10. bekkingar fari í heimsókn til Danmerkur.
Olympíuhlaup Flóaskóla
Olympíuhlaupið var föstudaginn 13. september í blíðskaparveðri. Krafturinn og seiglan í krökkunum var mikill og frábært að fylgjast með nemendum alveg niður í annan bekk fara 10 km og "ætla sko ekki að gefast upp" 🏃🏻♂️🏃🏻♀️
Langspilsverkefni - Jólatónleikar með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Hörpu
Síðasta skólaár var langspilssveit Flóaskóla í samtarfi við Sinfóníuhljómsveit Íslands undir leiðsögn Eyjólfs Eyjólfssonar. Það samstarf gekk svo vel að Sinfóníuhljómsveitin óskaði eftir áframhaldandi samstarfi við langspilssveitina. Um miðjan desember eru jólatónleikar þar sem langspilssveitin kemur fram með Sinfóníunni, allir nemendur í 5.-10. bekk og þeir nemendur sem útskrifuðust í vor og voru í langspilssveitinni á síðasta vetri eiga þess kost að taka þátt. Nánari upplýsingar verða sendar til foreldra í byrjun nóvember en þá hefjast æfingar fyrir tónleikana.