
Fréttabréf Grenivíkurskóla
5. tbl. 6. árg. - maí 2025
Kæra skólasamfélag
Þá er páskafríi lokið, maí genginn í garð og framundan er síðasta kennslulota vetrarins og ótalmargt spennandi og skemmtilegt framundan.
Vorskemmtun var haldin í byrjun apríl og tókst hún með mikilli prýði. Leikritið um Emil í Kattholti var sett á svið og var skemmtilegt að fylgjast með nemendum vinna stóra og litla sigra á sviði, í söng og í hljóðfæraleik. Viljum við þakka öllum þeim sem komu að sýningunni með einum eða öðrum hætti kærlega fyrir þeirra framlag. Þá þökkum við góðum gestum innilega fyrir komuna á sýningarnar og vonum að þeir hafi skemmt sér vel. Myndir frá sýningunum og undirbúningi þeirra má sjá hér neðar í fréttabréfinu og fær Hermann Gunnar Jónsson sérstakar þakkir, en hann á heiðurinn af flestum myndunum.
En það er nóg framundan áður en skóla verður slitið líkt og áður var getið um. Nú í upphafi mánaðar fer stór hluti unglingastigsins á Samfestinginn í Reykjavík, í næstu viku eru samskóladagar á miðstigi og unglingastigi og síðar í mánuðinum er svo komið að Runólfi, kveðjuhátíð 10. bekkinga. Þá ætlum við að hafa fjölmenningarviku um miðjan mánuðinn og í lok mánaðar ljúkum við svo skólaárinu með útivistardögum og skólaslitum.
Við vonumst eftir sólríkum og mildum maímánuði og hlökkum til þessara síðustu vikna skólaársins!
Með kveðju úr skólanum,
Þorgeir Rúnar Finnsson
skólastjóri Grenivíkurskóla
Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk
Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk var haldin í Grenivíkurskóla þann 29. apríl síðastliðinn, en nemendur hafa æft sig reglulega í allan vetur undir dyggri leiðsögn Hólmfríðar Björnsdóttur. Nemendur stóðu sig frábærlega og átti dómnefnd afar erfitt val fyrir höndum, en það voru þeir Angantýr Magni Guðmundsson og Ari Logi Bjarnason sem voru valdir til þess að vera fulltrúar skólans á lokahátíðinni. Hún fer fram í Hrafnagilsskóla þann 7. maí næstkomandi og verður spennandi að sjá hvernig okkar mönnum gengur þar!
Páskagetraun
Árleg páskagetraun Grenivíkurskóla fór fram síðustu daga fyrir páskafrí, en þá fengu nemendur á unglingastigi að spreyta sig á ýmsum þrautum, t.d. að þekkja fána, kennileiti, málshætti og fleira.
Eftir harða keppni voru úrslitin á þá leið að jöfn í 2.-3. sæti voru þau Móeiður Alma Gísladóttir og Jón Barði Sigurbjörnsson með 94 stig, en sigurvegari þetta árið var Hilmar Mikael Þorsteinsson með 103 stig.
Nemendur á miðstigi fengu einnig að spreyta sig á þrautunum og þar voru það þeir Páll Þórir Þorkelsson, Ari Logi Bjarnason, Kristófer Darri Birgisson og Angantýr Magni Guðmundsson sem lentu í efstu fjórum sætunum.
Þessir öflugu krakkar fengu páskaegg að launum, og við óskum þeim til hamingju með góðan árangur!
Hér getið þið skoðað og spreytt ykkur á gátunum sem lagðar voru fyrir.
Grænfáninn
Í grænfánadálki fréttabréfsins í vetur verður sjónum meðal annars beint að hinum ýmsu hugtökum sem varða umhverfisnefnd.
Hugtak maímánaðar er heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Heimsmarkmið Sameinuðu Þjóða (SÞ) eru 17 talsins og eiga að leiða okkur áfram í átt að sjálfbærri þróun. Öll aðildarríkin SÞ, þar með talið Ísland, hafa skuldbundið sig til þess að vinna skipulega að innleiðingu heimsmarkmiða bæði á innlendum og erlendum vettvangi.
Heilsueflandi skóli
Dagatal Velvirk fyrir þennan mánuð ber yfirskriftina "mikilvægi maí". Á dagatalinu má finna ýmsar tillögur sem eru í anda þess sem rannsóknir hafa sýnt að geti hjálpað fólki að lifa hamingjuríkara lífi, svo sem að gefa af sér, tengjast öðrum, finna tilgang, leika sér og njóta augnabliksins.
Smellið hér til að sjá útprentanlegt pdf-skjal með dagatalinu.
Myndir úr skólastarfinu
Á döfinni í maí
- 1. maí: Verkalýðsdagurinn - frí í skólanum.
- 6. maí: Samskóladagur fyrir 8.-10. bekk í Grenivíkurskóla.
- 7. maí: Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar - haldin í Hrafnagilsskóla.
- 8. maí: Samskóladagur fyrir 5.-7. bekk í Stórutjarnaskóla.
- 12.-16. maí: Fjölmenningarvika.
- 28. maí: Útivistardagur.
- 29. maí: Uppstigningardagur - frí í skólanum.
- 30. maí: Útivistardagur. Skólaslit seinni partinn. Sumarfrí hefst!
Matseðill
Útgefandi: Grenivíkurskóli
Ábyrgðarmaður: Skólastjóri Grenivíkurskóla
Tölvupóstur: grenivikurskoli@grenivikurskoli.is
Heimasíða: http://www.grenivikurskoli.is
Sími: 414-5413
Facebook: Grenivíkurskóli