
Fréttabréf Flóaskóla
febrúar 2025
Kæra skólasamfélag
Janúarmánuður hefur að mestu verið með nokkuð hefðbundnu sniði. Þorrinn kom með smá hvelli og núna síðustu daga mánaðarins raskaði veður skólastarfi aðeins. Síðasta dag janúar var ekki hægt að hafa skólaakstur vegna hálku og vindhraða en skólinn var opinn og gátu foreldrar komið með börnin sín í skólann, óhefðbundið skólastarf var þann dag.
Stærsti viðburður janúarmánaðar var afmælishátíð skólans og vil ég nota tækifærið og þakka öllum þeim sem gáfu sér tíma til að koma og samfagna með okkur, myndir og umfjöllun um afmælið er hér neðar í fréttabréfinu.
Þær ánægjulegu fréttir bárust skólanum um miðjan mánuð að sveitarstjórn og Tónlistarskóli Árnesinga hefðu náð samningum um að fjölga kennslustundum í Flóahreppi og að píanókennsla muni hefjast á skólatíma í Flóaskóla í febrúar. Kennari verður Timothy Andrew Knappett. Mikil fjöldi umsókna barst og er þegar kominn biðlisti. Það er einstaklega ánægjulegt að sjá þennan mikla áhuga nemenda á tónlistarnámi og gefur það fyrirheit um að samstarf skólans við Tónlistarskóla Árnesinga eflist enn frekar í framtíðinni og vonandi verður hægt að bjóða upp á kennslu á fleiri hljóðfæri en píanó þegar fram líða stundir.
Smiðjur með skólunum í uppsveitum Árnessýslu eru fyrirhugaðar um miðjan mánuð og vetrarleyfi er svo í framhaldi af því. Uppbrot er frá hefðbundinni kennslu í síðustu viku febrúarmánaðar, sjá nánar um það hér neðst í bréfinu.
Bestu kveðjur úr Flóaskóla
Þórunn Jónasdóttir
Afmælishátíð á 20 ára afmæli Flóaskóla
Miðvikudaginn 22. janúar var haldið upp á 20 ára afmæli Flóaskóla. Stofnfundur Flóaskóla var haldinn 2. febrúar 2004 og því var ekki seinna vænna að halda upp á tvítugsafmælið. Við vorum mjög ánægð með afmælishátíðina, það var okkur mikils virði hvað margir gáfu sér tíma til að koma til okkar að njóta dagsins með okkur. Dagskrá var í Þjórsárveri þar sem skólastjóri og gestir fluttu stuttar ræður, einnig komu nemendur fram, sungu og sögðu frá starfinu í skólanum. Síðan var gestum boðið inn í skóla þar sem nemendur kynntu fyrir þeim skólastarfið. Gestir áttu þess kost að taka þátt í ýmiskonar þrautum og verkefnum og svo var boðið upp á afmælisköku.
Í smíðastofunni voru sýnishorn af ýmsum verkefnum
Hér getur að líta sýnishorn af vinnu nemenda í textíl
Yngsta stig vann verkefni um þyngdaraflið og útfærði á listrænan hátt
Ýmis verkefni úr lista- og tæknismiðjum yngsta stigs
Unnið með numicon kubba og spjaldtölvur
Nemendur á yngsta stigi bjuggu til ýmiskonar kúlubrautir og gerðu tilraunir með virkni þeirra
Boðið var upp á að spreyta sig í skólahreysti
Hægt var að framkvæma náttúrufræðitilraun og kanna magn baktería á húsbúnaði
Gestir snéru lukkuhjóli og fengu ýmsar þrautir til að leysa
Nemendur á miðstigi kynntu stærðfræðiverkefni þar sem unnið var með pizzur
Kynning var á viðburðum í skólastarfinu
Nýr 3D prentari og ýmis FABLAB verkefni voru til sýnis
Skólanum bárust margar góðar gjafir, blómvendir, kærleiksbekkur á skólalóðina frá starfsfólki, 5 milljónir frá sveitarstjórn Flóahrepps til kaupa á leiktækjum á skólalóð, 800 þúsund frá Kvenfélagi Villingaholtshrepps til kaupa á leiktæki á skólalóð, 200 þúsund frá Kvenfélagi Hraungerðishrepps til uppbyggingar á tæknirými skólans og 500 þúsund frá Ungmennafélaginu Þjótanda til heilsueflingar, íþróttaiðkunar og útivistar nemenda í Flóaskóla.
Hulda sveitarstjóri fór stuttlega yfir sögu skólans og ræddi um mikilvægt hlutverk skólans í hverju samfélagi
Kristín Sigurðardóttir fyrsti skólastjóri Flóaskóla rifjaði upp fyrstu ár skólans og sína upplifun af þeim árum
Axel Páll færði skólanum kveðju frá fræðslunefnd Flóahrepps
Berglind Björk Guðnadóttir, formaður Kvenfélags Hraungerðishrepps færði skólanum gjöf
Ósk Unnarsdóttir og Mia Hellsten úr stjórn Kvenfélags Villingaholtshrepps færðu skólanum gjöf
Guðmunda Bríet Steindórsdóttir, formaður Ungmennafélagsins Þjótanda færði skólanum gjöf
Á svona tímamótum er ekki úr vegi að staldra við og líta um öxl. Það sem einkenndi alla vinnu við undirbúning og stofun Flóaskóla voru lýðræðisleg vinnubrögð. Öflugur undirbúningshópur kom að vinnunni og þar sést að vandað var til allra verka. Kallað var eftir skoðunum og sýn allra; nemenda grunnskólanna þriggja sem verið var að sameina, starfsmanna skólanna, foreldra og annarra sveitunga og síðan fagaðila í skólamálum. Áður en skólastarf hófst var búið að móta stefnu til framtíðar. Þar var lögð áhersla á að skapa nemendum öruggt og hvetjandi námsumhverfi þar sem þeim liði vel og þeir hefðu tækifæri til að efla samstarfshæfni sína og víðsýni. Alltaf var horft til framtíðar en hvert skref tekið að yfirvegun og skynsemi. Það er augsýnilegt að jákvætt hugarfar og metnaðarfull vinna einkenndi alla uppbygginguna.
Flóaskóli er enn í dag vaxandi stofnun sem nýtur velvildar og stuðnings samfélagsins, það er ómetanlegt fyrir okkur sem störfum í skólanum, ýtir undir metnað í starfinu og hvetur okkur til góðra verka.
Elfa Rún Heimisdóttir frá Árprýði, nemandi í 9. bekk og Hugrún Svala Guðjónsdóttir frá Þjórsárnesi, nemandi í 10. bekk. Fulltrúar nemendaráðs Flóaskóla sögðu frá starfinu í skólanum og þeirra upplifun af því að vera nemendur í Flóaskóla
Hugrún Lísa Guðmundsdóttir Johnsen frá Selfossi, nemandi í 10. bekk, söng lögin Þessi fallegi dagur og Ástin á sér stað við undirleik Hafdísar Gígju Björnsdóttur kennara í Flóaskóla
Skólakórar Flóaskóla sungu syrpu af íslenskum lögum undir stjórn kórstjóra og tónmenntakennara skólans Eyrúnar Jónasdóttur
Kórar skólans auk fulltrúa allra bekkja á elsta stigi og fulltrúa starfsmanna sungu lagið Riddari kærleikans.
Þetta fallega lag varð til í barnamenningarverkefninu Málæði en því er ætlað að hvetja ungt fólk til að tjá sig á íslensku í tali og tónum. Öllum unglingum í grunnskólum landsins var boðið að semja lög og texta í samstarfi við íslenskt listafólk. Það voru tvær stelpur á unglingastigi í Grunnskólanum Austan vatna þær Dagmar Helga Helgadóttir og Valgerður Rakel Rúnarsdóttir sem sömdu bæði lag og texta. Fleiri unglingar í skólanum komu svo að verkefninu með söngkonunni GDRN og gítarleikaranum Vigni Snæ. Viðfangsefni textans ekki úr lausu lofti gripið heldur vísar til ummæla Höllu Tómasdóttur forseta sem kallaði eftir því að við gerðum kærleikan að eina vopninu í samfélaginu okkar, að við yrðum öll riddarar kærleikans. Þessi ummæli lét hún falla þegar stofnaður var minningarsjóður í nafni Bryndísar Klöru sem lét lífið í kjölfar hnífaárásar á Menningarnótt í ágúst síðastliðnum. Markmiðið sjóðsins er að styðja við verkefni sem miða að því að vernda börn gegn ofbeldi og efla samfélag þar sem samkennd og samvinna eru í forgrunni.
Starfsmenn skólans ákváðu að færa skólanum bleikan kærleiksbekk í afmælisgjöf í minningu Bryndísar Klöru, bekk til að hafa úti á skólalóð fyrir nemendur sem upplifa sig einmanna eða á einhvern hátt vansæl og starfsmenn geta þá verið sérstaklega vakandi fyrir að sinna þeim nemendum. En líka til að minna okkur á að við ætlum öll að vera riddarar kærleikans. Jafnframt var tekin ákvörðun um að starfsmenn myndu styrkja minningarsjóð Bryndísar Klöru um 50 þúsund. Gestum var boðið að taka þátt í söfnuninni. Styrkurinn verður síðan sendur inn í nafni nemenda Flóaskóla.
Smiðjur með uppsveitaskólunum 13.og 14. febrúar
Dagana 13. og 14. febrúar fara nemendur af elsta stigi í Reykholtsskóla og taka þar þátt í smiðjum með nemendum í uppsveitaskólunum. Farið verður af stað um kl 12:00 á fimmtudegi og komið heim um kvöldið eftir sameiginlega félagsmiðstöðvargleði. Síðan er farið aftur af stað að morgni og áætluð heimkoma er ríflega14:00 á föstudeginum.
Föstudaginn 14. febrúar koma nemendur af miðstigi í heimsókn í Flóaskóla og verða í smiðjum hér hjá okkur bæði í skólanum og í Þingborg. Nemendur koma til okkar rúmlega 9 að morgni og fara aftur heim í sína skóla rétt fyrir hádegi.
Vetrarleyfi verður í Flóaskóla 17. og 18. febrúar
Vikan 24.-28. febrúar
Þessi vika verður með nokkuð óhefðbundnu sniði.
24.2. mánudag fara nemendur í 7. bekk í skólabúðir að Reykjum í Hrútafirði og koma þaðan seinnipart fimmtudags 27.2. Nánari upplýsingar koma heim í pósti.
24.2. er líka skertur skóladagur og fara nemendur heim kl 12:00, frístund er opin frá kl 12:00.
25.2. þriðjudag eru nemenda- og foreldraviðtöl í skólanum.
26.2. miðvikudag fara nemendur á elsta stigi í skíðaferð á skíðasvæði Tindastóls við Sauðárkrók, þar dvelja þau fram á föstudag 28.2. Nánari upplýsingar koma heim í pósti.
28.2. eru nemendur í 7.bekk í sínum nemenda- og foreldraviðtölum.