Fréttabréf
7. tbl. 15 árg Október 2023
Kæra skólasamfélag
Upp er runninn októbermánuður og skólalífið komið í nokkuð fastar skorður og framundan eru þemadagar og haustfrí nemenda og áður en við vitum af er komin aðventa. Nú í haust erum við að innleiða leiðsagnarnám í skólanum og hafa kennarar og stjórnendur verið nú í haust að kynna sér þau vinnubrögð en áætlað er að innleiðingarferlið muni taka þrjú ár. Miðstöð skólaþróunar aðstoðar okkur í þessari vinnu. Leiðsagnarnám felur í sér fjölbreyttni í kennsluháttum , áhersla er á meiri námsvitund nemenda og virki þeirra í eigin námi og væntum þess að þessar aðferðir bæti á nemenda.
Þann 2.október kemur Dagný Björg Gunnarsdóttir félagsáðgjafi til starfa og mun hún sinna starfi námsráðgjafa.
Við viljum vekja athygli á að nauðsynlegt er að lesa hin vikulegu fréttabréf sem ykkur berast frá kennurum barnanna ykkar þar sem vikulegt skipulag hvers bekkjar er kynnt.
Þessi mánuður hefur margt að færa og er fyrsti vetrardagur á næsta leiti og það gæti farið að bera á einum og einum köldum degi með frost í lofti og hálku. Þá er mikilvægt að huga vel að börnunum sem hafa verið að hjóla í skólann og jafnvel getur þurft að geyma hjólið heima, einnig er gott að huga vel að því að börnin klæði sig eftir veðri. Sum okkar finna fyrir söknuði að sumarið er liðið og hægt og rólega færist dimman yfir, þá er nauðsynlegt að muna eftir endurskinsmerkinu, og einnig að það birtir aftur.
Að lokum þá viljum við nefna að gott skólastarf byggir ekki síst á góðu samstarfi við ykkur foreldra/forráðamenn sem eigið þessi yndislegu börn sem eru í skólanum og fyrir það erum við starfsfólk Naustaskóla þakklát.
Góðar haustkveðjur!
Bryndís Björnsdóttir, skólastjóri.
Aðalfundur foreldrafélagsins
2.október kl.20:00 verður foreldrarfélag Naustaskóla með sinn árlega aðalfund sem verður haldinn í sal Naustaskóla. Vonum við foreldrar sjá sér sem allra flest fært um að mæta og taka þátt.Á heimasíðu Heimila og skóla má finna ýmiskonar fræðsluefni til stuðnings fyrir foreldra og foreldrafélög.
Dagskrána má finna hér.
Forvarnardagurinn 4.október.
4. október er Forvarnardagurinn það eru margir aðilar sem standa að deginum og þó áherslan þennan dag sé á nemendur í 9.bekk þá að sjálfsögðu eiga forvarnir við fyrir börn á öllum aldri allan ársins hring- nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að huga að verndandi þáttum fyrir börnin okkar. Hér má sjá streymi frá árinu 2022 þar sem fjallað er um forvarnir og verndandi þætti. Gera má ráð fyrir að 4.október verði opið streymi inn á síðu forvarnardagsins 2023.
Alþjóðadagur kennara
5.október er alþjóðadagur kennara.
Að baki Alþjóðadags kennara standa UNESCO, Alþjóðasamtök kennara (Education International) og Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO).
Þemadagar
10.-12. október eru þemadagar og í ár verður Ofurhetjuþema.
Haustkynningar
Haustfrí
23.-24.október er haustfrí í skólanum.
Frístund verður opin frá kl. 8:00 -16:00 fyrir þau börn sem eru skráð í frístund.
Bleiki dagurinn
Föstudagurinn 20. október 2023 er Bleiki dagurinn sem er árlegt átaksverkefni á vegum Krabbameinsfélagsins tileinkað baráttunni gegn krabbameinum hjá konum.
Fyrsti vetrardagur
Laugardaginn 31.október tökum við á móti fyrsta vetrardegi sem ber upp á laugardag eins og venja er. Fyrsti Vetrardagur er fyrsti dagur Gormánðar fyrsta vetrarmisseris Íslenska misseristalsins.
Mikilvægi endurskinsmerkja
Endurskinsmerkin eiga að vera sýnileg og er best að hafa þau á eftirfarandi stöðum:
Fremst á ermum
Hangandi meðfram hliðum
Á skóm eða neðarlega á buxnaskálmum
Þá virkar endurskin eins og blikkljós þegar ljós skín á þau. Því fyrr og betur sem ökumenn greina óvarða vegfarendur þeim mun minni líkur eru á að slys verði.
Leyfi frá skóla
Þrátt fyrir að vel sé tekið í óskir foreldra og forráðamanna um leyfi þurfa þeir að sækja um leyfi fyrir 3 daga eða lengur til skólastjóra. Þá fá þeir sent leyfiseyðublað og senda undirritað til skólastjóra. Þar skrifa þeir m.a. undir að leyfi frá skóla eru á ábyrgð foreldra, þeir þurfa að sjá til þess að nemandinn vinni upp það sem hann kann að missa úr námi meðan á leyfi stendur. Þá er líka mikilvægt að hafa tímanlega samband við viðkomandi kennara svo hægt sé að taka til námsefni.
Olympíuhlaupið
Góð þátttaka var í Olympíuhlaupinu föstudaginn 15.sept. og hlupu nemendur ýmist 2,5 km eða 5 km.
Áætluð forvarnarfræðsla
Forvarnarfræðsla er á vegum Félak og kemur inn í skólann. Mikilvægt er að hafa í huga að fræðslur geta færst til.
17.okt. 10.bekkur - kynfræðsla.
25.okt. 9.bekkur - kynbundið ofbeldi.
Hér má sjá upplýsingar um forvarnir og skipulag þeirra.
Þrír góðir hlutir
Í dagsins önn þegar oft eru margir boltar á lofti getur verið gott að staldra við og veita góðu og oft litlu hlutunum sem gerast í lífi okkar athygli.
Æfingin Þrír góðir hlutir er þannig að í lok hvers dags rifjar þú upp þrjá góða hluti eða atburði sem áttu sér stað, þinn hlut í þeim og skrifar þá niður í 7 daga. Þetta getur verið eitthvað sem gekk vel eða vakti góða, jákvæðar tilfinningu innra með þér. Það getur verið um að ræða "einhver brosti til þín og þú brostir á móti", "vinur bað þig um að koma út í göngutúr og þú sagðir já". "Ég hitti skólafélaga á leiðinni í skólann og við vorum samferða". Æfiningin þjálfar þig í að veita athygli því jákvæða sem gerist í kringum þig og hvaða áhrif þú getur haft á upplifun þína af atburðinum. Þessi æfing getur verið mjög góð að gera saman í lok dags með barninu sínu eða maður sjálfur og mikilvægt er að skrá niður hjá sér í bók eða í tölvuna. Með börnum er oft árangursríkt að geta flett og skoðað í gegnum dagana hvað hefur gengið vel. Sýnt hefur verið fram á árangur af þessari æfingu eftir aðeins eina viku en það er þó mælt með því að gera hana í 3 vikur eða lengur.