
DJÚPAVOGSSKÓLI
FYRSTA FRÉTTABRÉF Á NÝJU ÁRI
JANÚAR 2022
Þetta er fyrsta formlega fréttabréfið á þessu ári og stefnan er auðvitað að það komi út alla föstudaga eins og áður.
Árið byrjaði með þvílíkum hvelli hjá okkur og segja má að við séum bara búin að reyna að halda úti skóla, dag frá degi. Það hefur samt gengið nokkuð vel og enn höfum við ekki fengið smit inn í skólann þótt að það sé allt í krinum okkur og hafi töluverð áhrif.
Skólastarfið hefur verið líkt við bútasaum þessa dagana og það er ágæt samlíking, eða kannski má segja að þetta sé eins og að púsla góðu púsluspili :) En aðalmálið er að allir séu heilsuhraustir og við losnum við veiruna sem fyrst.
Þetta væri ekki hægt nema með góðri hjálp frá ykkur og mig langar að þakka ykkur kærlega fyrir að grípa verkefnin vel með okkur, það er ómetanlegt.
Eins og þið vitið þá var mikil mannekla í skólanum á haustönninni en við bindum vonir við að það sé að breytast. Við erum að efla stoðþjónustuna og fjölga starfsfólki og festa betur niður hvaða verkefnum hver er að sinna. Þetta verður vonandi til þess að við náum að sinna hverjum og einum betur.
Stundartöflur nemenda breytast ekki mikið en eitthvað þurfum við samt að færa til. Allar töflur eiga að vera tilbúnar á mánudaginn og umsjónarkennarar tilkynna ykkur ef það verða breytingar hjá ykkar nemendum og ef allt gengur upp þá ættu allar töflur að vera komnar inn á Mentor í lok næstu viku.
Í dag er samskiptadagur og vegna aðstæðna þá þarf hann að fara fram á Teams. Eitthvað er líka um að umsjónarkennarar séu forfallaðir í dag og þá munu þeir kennarar boða ný viðtöl, það er mjög mikilvægt að allir nemendur fái viðtal með foreldrum og umsjónarkennara. Fari yfir námslega stöðu og líðan. Með þeim hætti getur skólinn brugðist við og komið til móts við nemendur.
Í morgun funduðu kennarar og starfsfólk, sem kemur að stuðningi eða stoðþjónustu með Heiðu. En síðustu daga hafa Heiða og Steinunn lagt alla áherslu á að útbúa skipulag með það að markmiði að efla stoðþjónustuna. Eftir daginn í dag eiga allir sem koma að kennslu í skólanum að vera vel meðvitaðir um með hvaða hætti við styðjum við nemendur.
Í jólafríinu voru gerðar töluverðar breytingar á húsnæði skólans og það má lesa meira um það á heimasíðu Múlaþings eða heimasíðu skólans.
https://www.mulathing.is/is/frettir/framkvaemdir-a-djupavogi
Nú er komið kerfisloft í allar kennslustofur í skólanum og það er ótrúlega góð breyting, hljóðvistin er allt önnur. Við erum mjög sátt með þær breytingar sem hafa verið gerðar og fleiri breytingar eru á dagskrá.
NÆSTA VIKA
- Mætum hress og kát eftir gott helgarfrí
Þriðjudagur 25.janúar
- 14:40 Teymisfundur
Miðvikudagur 26.janúar
- Upplagt að lesa góða bók
Fimmtudagur 27.janúar
- 14:40 Fagfundur
Föstudagur 28.janúar
- Förum hress inn í helgarfrí
MATSEÐILL Í NÆSTU VIKU
KONUNGUR LJÓNANNA
Andrea Katrín og Berglind tónlistarkennari ætla að vera með þetta val saman og setja upp árshátíðarsýninguna okkar í mars.
Í fyrsta tíma hjá val-hópnum var tekin ákvörðun um að setja upp söngleikinn Lion king, eða Konung ljónanna. Þetta er frábært verk og mörg okkar þekkjum það enda var það sett upp hjá okkur árið 2011. Nú er um að gera að poppa og horfa á Lion king og láta sig dreyma. Þessi söngleikur er til á mörgum tungumálum og hægt að finna texta og lög á youtube og syngja með.
Vonandi verður veiran ekki að þvælast fyrir okkur á árshátíðartíma eins og í fyrra en það er í fersku minni þegar við þurftum að fresta árshátíðinni okkar á síðustu stundu.
Þar sem Djúpavogsskóli er vaxandi skóli og flókið að setja upp leiksýningu þar sem allir fá að njóta sín, hefur verið ákveðið að hafa tvær sýningar.
Nemendur í 1.-4.bekk setja upp sýningu, innblásin af sögunni um Konung ljónanna, við stefnum á að sýna það verk 22.mars.
Nemendur í 5.-10.bekkur setja svo upp sýningu sem verður með svipuðu sniði og við þekkjum og samkvæmt skóladagatali þá verður það sýnt 24.mars, takið dagana frá.
Við sjáum svo til hvernig þetta þróast en æfingar og undirbúningur er að fara í gang.
Hækka og syngja með :)
Með enskum texta
https://www.youtube.com/watch?v=IwH9YvhPN7cMeð pólskum texta
https://www.youtube.com/watch?v=FBqZUbKzjnk
Á spænsku
https://www.youtube.com/watch?v=BpB0h6jiOOk
Hér er hægt að syngja með á íslensku
TÓNLISTARSKÓLINN - AUGLÝSIR
Slóðin er hér fyrir neðan og ég hvet ykkur til að ræða það við ykkar börum um helgina. Það væri gott ef allar skráningar væru komnar inn fyrir mánudaginn.
Berglind hefur sýnt ótrúlega útsjónarsemi í húsnæðisleysi tónlistarskólans í vetur og í góðu samstarfi við alla kennara þá höfum við látið þetta ganga. Við ætlum að reyna það áfram og stefnum á að nemendur í tónlistarskólanum fái tónlistarkennslu á skólatíma og reynum að láta það rúlla þannig að nemendur missi ekki af sömu kennslustundunum.
Það er ljóst að við þurfum að finna tónlistarskólanum fastan stað en eins og þessi vetur hefur þróast í heimsfaraldri og öðru þá hefur þetta gengið upp með mikilli útsjónarsemi.
Berglind er að gera frábæra hluti með nemendum og það hefur líka smitast inn í starfsmannahópinn, jólamyndbandið okkar er dæmi um það :) það er ótrúlega skemmtilegt að hafa tónlist og söng í skólanum, heyra nemendur syngja úti á skólalóð og sumir starfsmenn taka hressilega undir.
Meðfylgjandi er myndband sem tekið var í vikunni þar sem nemendur á yngstastigi eru í tónmenntartíma.
MEIRA AF TÓNLISTARSKÓLANUM
Á vorönn 2022 verður eftirfarandi nám í boði í Tónlistarskóla Djúpavogs.
Kennari er Berglind Björgúlfsdóttir, söngkona.
Forskóli 1.- 3. bekkur
Kennsla fer fram í hópatímum einu sinni í viku, 40mín í senn.
Markmið forskólans er að efla sönggleði og tilfinningu fyrir tónlist sem undirbúning undir hljóðfæranám. Nemendur læra í gegnum söng, hlustun, hreyfingu, leik og sköpun. Nemendur hefja nám á ukulele og kynnast því að spila á bjöllur og ýmis ásláttarhljóðfæri. Forskólanemendur læra að koma fram og taka virkan þátt í tónleikahaldi skólans.
Ukulele 4.-10. bekkur
Kennsla fer fram í hópatímum einu sinni í viku, ýmist 40 mín í senn eða 2 x 20 mín.
Ukulele byrjendanám. Rythmiskt tónlistarnám með áherslu á hljóma og undirleiksmynstur við sönglög, einnig þjálfun í að spila laglínur við undirleik samnemenda og gefið tækifæri til að semja lög. Farið í hugtök og tákn hefðbundins nótnalesturs, lestur hljómatákna og lestur á ukulele TABS. Nemendur læra að koma fram og taka virkan þátt í tónleikahaldi skólans.
Gítar 4.-10. bekkur
Kennsla fer fram 1x í viku, (40 mín í senn eða 2 x 20 mín) – skipt í hópa eftir aldri.
Byrjendanám á gítar. Rythmiskt tónlistarnám með áherslu á bókstafshljóma og undirleiksmynstur við sönglög, þjálfun í að spila laglínur við undirleik samnemenda og gefið tækifæri til að semja lög. Einnig verða fjölbreyttar leiðir farnar, stuðst við smáforrit(öpp) og netnám. Farið í hugtök og tákn hefðbundins nótnalesturs, lestur hljómatákna og lestur á gítar TABS. Nemendur læra að koma fram og taka virkan þátt í tónleikahaldi skólans.
Hljómborð 5.-10.bekkur
Kennsla fer fram 1x í viku 40 mín – 2 til 3 nemendur saman. Skipt í hópa eftir aldri.
Rythmiskt tónlistarnám með áherslu á hljóma og undirleiksmynstur, einnig hefðbundinn nótnalestur. Farið í grunnatriði hljómborðsleiks, laglína með hægri hönd og hljómar með vinstri hönd, æfðir skalar, einnig þjálfun í að spila laglínur við undirleik samnemenda og gefin forskrift til lagasmíða.
Söngur 5.-10.bekkur
Kennsla fer fram 2x í viku 20mín – í hópatíma.
Lögð er áhersla á heilbrigða og látlausa raddbeitingu og að efla sjálfstæði og persónulegan söngstíl hvers og eins. Nemendur fá þjálfun í að syngja sjálfstætt laglínur við hljómaundirleik, einnig þjálfun í að radda með öðrum, samsöng og meðleik. Uppbygging námsins er einstaklingsbundin og viðfangsefni geta verið breytileg, eftir áhuga og þörfum nemenda. Nemendur læra að koma fram og taka virkan þátt í tónleikahaldi skólans.
Samspil
Nemendur sem stunda hljóðfæranám, hittast í samspilstímum, spila hver fyrir aðra, einnig kemur gestaspilari. Þetta verða tvö skipti á vorönn.
Gjaldskrá
Þar sem ekki er búið að samræma gjaldskrár tónlistarskóla í Múlaþingi mun nám í tónlistarskólanum á vorönn flokkast sem hálft nám (23.898) auk hljóðfæraleigu (7.185kr) þar sem við á.
Nýskráningar fara fram dagana 14.-23.janúar 2022 (það er hægt að skoða þetta um helgina)
og hefst kennslan aftur þriðjudaginn 18.janúar.
ÁFRAM VEGINN...
Höldum áfram að huga að persónulegum sóttvörnum og mætum ekki í skólann ef það eru kvef-einkenni í kringum okkur.
Áfram Djúpavogsskóli
Bestu kveðjur til ykkar
starfsfólk Djúpavogsskóla
HUGREKKI - VIRÐING - SAMVINNA
Email: skolastjori.djupivogur@mulathing.is
Website: https://www.djupavogsskoli.is/
Location: Varda 6, Djúpivogur, Iceland
Phone: 4708700