
Fréttabréf Engidalsskóla maí 2025
Ábyrgð - Virðing - Vellíðan
Kæru foreldrar/forsjáraðilar.
Hér koma síðustu fréttamolar þessa skólaárs. Það eru örfáir skóladagar eftir og margs konar uppbrot og vettvangsferðir fram undan.
Í fyrri fréttabréfum hefur verið komið inn á innra- og ytra mat skólans. Skólapúlsinn er eitt af þeim tækjum sem mæla gæði starfsins og að þessu sinni erum við að kryfja nemendakönnun þar sem nemendur í 6. og 7. bekk eru að svara spurningum um virkni sína í skólastarfinu, heilsu og líðan og skóla- og bekkjaranda. Við erum mjög ánægð með að nemendum líði almennt mjög vel og betur en landsmeðaltalið. Bæði einelti og tíðni eineltis mælist nú líka undir landsmeðaltali. Við viljum auðvitað útrýma því alveg og með samhentu átaki heimilis og skóla ætti það að vera hægt. Nemendur eru í ágætis sambandi við kennara sína, rétt yfir landsmeðaltali, en við erum aðeins undir þegar kemur að aga í tímum og þar eru tækifæri til bætinga. Það eru líka tækifæri þegar kemur að ánægju af náttúrufræði, trú á eigin vinnubrögð og getu og þrautseigju í námi. Við munum leggja enn meiri áherslu á þessa þætti næsta vetur og þar geta foreldrar/forsjáraðilar líka komið sterkir inn.
Við höfum verið í tilraun með að sýna ykkur meira frá skólastarfinu í gegnum sögu (e. story) á bæði Facebook og Instagram og bara fengið góð viðbrögð við því. Þetta er einn af þeim umbótaþáttum sem við erum að vinna að til að auka upplýsingaflæðið um skólastarfið. Vonandi sjáið þið ykkur fært að fylgja okkur á þessum miðlum.
Lestur er eina heimanámið í Engidalsskóla og við hvetjum ykkur til að sinna því vel. Stundum koma erfið tímabil en þá er það þrautseigjan sem blífur, á endanum er það barnið sem græðir og stendur uppi sem sigurvegarinn. Lesfimiprófin eru enn eitt tækið sem mælir gæði skólastarfsins, þar er heimalesturinn þó stór breyta. Í vetur tókum við upp nýtt skráningarkerfi fyrir heimalesturinn, appið Læsir, og auðveldar það alla yfirsýn yfir það hvernig verið er að sinna heimalestrinum og sparar kennurum mikinn tíma við að fara yfir heimalestursmöppur, tíma sem þá getur farið í að sinna nemendum enn betur. Niðurstöður síðustu lesfimiprófanna eru ekki komnar þannig að við getum borið okkur saman við landið en við munum setja þær upplýsingar á heimasíðuna, Instagram og facebook.
Vel hefur gengið að manna skólann, mikill stöðugleiki er í hópi kennara og stefnir allt í að enginn nýr kennari eða stuðningur verði við störf næsta vetur. Við fáum nýjan skrifstofustjóra, Ingu Rakel Einarsdóttur, og nýjan aðstoðardeildarstjóra tómstundamiðstöðvarinnar, Gabriellu Ósk Egilsdóttur. Einhverjir nýjir starfsmenn munu koma inn í frístundaheimilið Álfakot og er verið að vinna í þeim ráðningum en uppistaðan verður það fólk sem verið hefur hjá okkur.
Umsjónarkennarar næsta vetur verða eftirfarandi:
1. bekkur - Alma og Karen Ýrr
2. bekkur - Jakobína og Magnea Dís
3. bekkur - Sigurveig og Guðrún Kjartans
4. bekkur - Aldís Baldvins og Guðrún Brynja
5. bekkur - María Björk
6. bekkur - Laufey og Sunna Dís
7. bekkur - Aldís Anna og Örlygur
Við vonum að allir njóti sumarsins vel en getum ekki sleppt því að minna á mikilvægi þess að viðhalda þeirri færni sem náðst hefur í lesfimi í vetur, hér gildir að æfingin skapar meistarann.
Með bestu kveðju og von um að allir njóti sumarfríssins,
Skólastjórnendur Engidalsskóla.
Skólaslit 2025
Skólaslitin þetta árið verða með öðrum hætti en verið hefur. Skólaslit fyrir allan skólann verða föstudaginn 6. júní kl. 16 og ætti öllu að vera lokið fyrir kl. 17.
Ef veður leyfir stefnum við á að vera með þau úti. Líkt og áður munu nemendur syngja samsöng og nokkrir nemendur spila á hljóðfæri. Skólastjóri mun segja nokkur orð. Nemendur í 7. bekk verða útskrifaðir og yngri nemendur fá afhentan vitnisburð. Jón Jónsson mun svo loka þessum vetri með nokkrum lögum. Við vonumst auðvitað til að sjá sem flesta.
Fréttir úr Álfakoti og Dalnum
Kæru foreldrar og forsjáraðilar,
Undanfarnar vikur hafa verið mjög skemmtilegar hjá okkur í Álfakoti og hafa einkennst af mikilli útiveru í þessu góða veðri. Börnin hafa verið dugleg að finna sér alls konar að leika með og hefur hraunið verið sérstaklega vinsælt. Við höfum verið með alls konar útileiki í boði og nokkur danspartý hafa verið haldin.
Við minnum á að enn þá er opið fyrir skráningu í sumarfrístund inni á Völu.
Einnig viljum við minna á að seinasti dagurinn sem að frístundabíllinn gengur er 30. maí.
Mikið fjör hefur verið í Dalnum undanfarið, við höfum verið að bjóða upp á spilakvöld, varúlf og göngutúr í ísbúð svo eitthvað sé nefnt.
Fram undan er svo sumarpartýið okkar þann 28. maí sem við erum mjög spennt yfir. Skráning hefur farið vel af stað í það og hafa börnin fengið miða sem á að framvísa þegar þau mæta. Við biðjum fyrir góðu veðri þann dag!
Kær kveðja,
Arnheiður, Julia og starfsfólk Álfakots/Dalsins
Engidalsskóli
Email: engidalsskoli@engidalsskoli.is
Website: https://www.engidalsskoli.is
Location: Breiðvangur 42, Hafnarfjordur, Iceland
Phone: 555 4433