Fréttabréf Egilsstaðaskóla
Skólahald á tímum samkomubanns..... 26. mars
Meiri breyting á skólastarfi
Í gær var staða skólans endurmetin í samráði við öryggisnefnd skólans og fræðsluyfirvöld og í framhaldi var ákveðið að takmarka skólastarf enn frekar.
Breytingin fólust í að fækka í námshópum og mæta nemendur í 1.-6. bekk í skólann annan hvern dag. Þetta gildir um alla nemendur aðra en þá sem eiga foreldra í svokölluðum forgangshópi. Þeir nemendur munu geta mætt í skólann á hverjum degi.
Þessi breyting tók gildi í dag 26. mars en póstur var sendur foreldrum í gær.
Nám nemenda í 7.-10.bekk verður með óbreyttu sniði.
______________________________________________________________________________________________
Allir fundir á vegum skólans og ALL-teymisins er frestað um óákveðinn tíma
Mötuneyti og Frístund - greiðslur
Fréttir úr 1. - 3. bekkjarhólfi
Starfið gengur vel fyrir sig á yngsta stigi. Aðaláherslan í náminu er á stærðfræði og Byrjendalæsi.
1.bekkur hefur haldið sínu striki í stafainnlögn á meðan 2.bekkur fræðist um hreindýr og 3.bekkur hugar að himingeimnum.
Nemendur í 2. bekk unnu nýlega verkefni um hamingjuna og hafa síðan þá staldrað við daglega og rætt hvað þau eru þakklát fyrir. Þessa dagana eru þau t.d. þakklát fyrir það að fá að koma í skólann, fyrir góða veðrið og að fá að fara út að leika saman þó að sumir sakni vina sinna úr öðrum stofum.
Þetta virðist eiga almennt við um nemendurna í 1.-3.bekk og er óhætt að segja að þeir séu jákvæðir, tillitssamir og stundi nám sitt af kappi.
Við höfum það sem sagt bara gott á yngsta stiginu þrátt fyrir allt og unum glöð við okkar. Við tökum bara einn dag í einu og njótum hans.
Fréttir úr 4. - 6. bekkjarhólfi
Við höldum áfram veginn á miðstiginu. Góða veðrið undanfarna daga hjálpar okkur og kennarar eru duglegir að fara með nemendum út í alls konar verkefni. Verkefnin eru öðruvísi en ekki síður mikilvæg heldur en í hefðbundnu skólastarfi.
Nemendur standa sig vel og eiga hrós skilið fyrir aðlögunarhæfnina og taka því sem höndum ber.
Ástandið eflir okkur og gerir okkur sterkari.
Fréttir úr 7. - 10. bekkjarhólfi
Nemendur vinna ýmis nokkuð hefðbundin verkefni í bóklegum greinum ásamt því að horfa á myndbönd og vinna verkefni í tengslum við þau. Eins takast nemendur á við önnur verkefni sem reyna meira á sköpun og hvetja til útiveru. Sem dæmi um það má nefna að 7. bekkingar unnu frétt á ensku um Lagarfljótsorminn sem bauð upp á skemmtilega útiveru og gaf nemendum tækifæri til að láta hugmyndarflugið njóta sín. Eins hafa nemendur tekist á við ýmsar áskoranir s.s. að gera góðverk, ýmis heimilisstörf og hreyfingu.
Kennarar ræða það sín á milli hvað nemendur eru jákvæðir og tilbúnir að gera sitt besta við þessar aðstæður.
Skiplag á námi í fjarkennslu
Í dag eru nemendur í 7- 10. bekk búin að vera í fjarkennslu í tæpar tvær vikur og gengur það frekar vel hjá flestum en eins og gefur að skilja þá eiga sumir erfiðara með að koma sér að verki og að halda sér við námið. Við verðum að muna að við erum ekki í fríi heldur erum við að takast á við hluti sem við höfum ekki gert áður og það veitist okkur miserfitt. En með jákvæðnina að vopni þá eru okkur flestir vegir færir eða eins og enskt máltækir segir:
” positive thinking makes positive outcomes”
eða
Jákvæðar hugsanir leiða til jákvæðra verka
Við verðum að hugsa daginn sem rútínu eins og hvern annan skóladag. Byrjum kl. 9 og vinnum til 12 með stuttum frímínútum inn á milli. Byrjum aftur kl.13 ef þarf og vinnum til ca 14/15 + frímínútur. Þetta getur auðvitað verið mismunandi eftir bekkjum og viðfangsefnum.
Mikilvægt er að hafa góða vinnuaðstöðu og vinna alltaf á sama stað ef það er hægt að koma því við, þá vita nemendur hvar dótið þeirra er og geta staðið upp frá því án þess að vera alltaf að ganga frá.
Við ættum að horfa á vinnuvikuna með fimm vinnudögum og skipuleggja hvað við ætlum að gera á hverjum degi svo að við komumst yfir flest/allt sem við eigum að gera.
Með því að skrifa niður það sem við þurfum að gera sköpum við yfirsýn sem er mikilvæg því sumir mikla hlutina fyrir sér.
Sumir nemendur eiga erfitt með að skipuleggja sig og fyllast neikvæðni og vonleysi og þeir nemendur þurfa aðstoð. Ef við fylgjum skipulaginu eftir þá förum við sátt og ánægð inn í helgina, því við eigum að fá helgarfrí þar sem við verjum tímanum í eitthvað annað.
Ef foreldrar finna að börnin þeirra ráða illa við þessar aðstæður eða verkefni þá er mjög mikilvægt að hafa samband við umsjónarkennara og í sameiningu er reynt að finna út hvernig er hægt koma til móts við viðkomandi.