
Fréttabréf Flóaskóla
mars 2025
Kæra skólasamfélag
Að venju eru fjölbreytt verkefni í gangi í skólanum.
Nemenda- og foreldraviðtöl eru nýafstaðin og gengu þau afar vel. Foreldrar og forráðamenn nemenda í Flóaskóla styðja vel við skólann og starf hans bæði í orði og verki og okkur þykir vænt um það traust sem við finnum fyrir hjá hópnum. Samstarf heimilis og skóla er mjög mikilvægt fyrir farsæla skólagöngu barnanna og ómetanlegt fyrir okkur að heyra frá ykkur bæði ef eitthvað bjátar á en eins þegar vel gengur.
Á morgun er öskudagur og þá brjótum við upp hefðbundna dagskrá. Öll eru hvattir til að mæta í búningum eða furðufötum. Kötturinn er sleginn úr tunnunni og svo er endað á öskudagsballi í Þjórsárveri.
Síðustu vikuna í mars fara 10. bekkingarnir okkar til Danmerkur þar endurgjalda þau heimsóknina frá í september og vinna í samstarfi við Nordplus vini sína í eina viku.
Í mars og fram í fyrstu viku apríl er unnið í þemum út frá grunnþættinum jafnrétti en í honum felst að nemendur skilji hvernig allir hafa rétt á að fá að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og lifa ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, víðsýni og jafnréttis án fordóma og mismununar. Elsta stig skólans nýtir þemað til að læra vinnubrögð við ritun heimildarritgerða og viðfangsefni ritgerðanna er jafnrétti. Yngsta og miðstig setja á svið hinn vinsæla söngleik Grease. Hann verður svo fluttur í Þjórsárveri 3. apríl. Við hlökkum til að sjá ykkur sem flest á þeirri sýningu.
Bestu kveðjur úr Flóaskóla
Þórunn Jónasdóttir
Smiðjur með uppsveitaskólunum
Þriðju smiðjur vetrarins voru haldnar um miðjan febrúar, þá fóru allir nemendur á elsta stigi í Reykholt en nemendur af miðstigi komu til okkar í Flóaskóla. Viðfangsefni í smiðjum elsta stigs eru afar fjölbreytt eins og kynnt var í síðasta Fréttabréfi. Á miðstigi hittast nemendur í tvær klukkustundir og þar er höfuðáhersla lögð á að krakkarnir kynnist og eflist félagslega. Smiðjurnar sem við buðum miðstigi upp á voru félagsvist, hópeflisleikir í Þingborg og leiktækin í Þjórsárveri.
7. bekkur á Reykjum
7. bekkurinn okkar varði síðustu viku febrúarmánaðar í skólabúðunum að Reykjum í Hrútafirði. Farið var af stað snemma á mánudagsmorgni og komið heim síðdegis á fimmtudegi. Ferðin í ár var skipulögð þannig að allir samstarfsskólarnir í Árnesþingi fóru saman í skólabúðirnar, uppsveitaskólarnir fimm og Flóaskóli. Þetta heppnaðist mjög vel og styrkti enn frekar böndin milli skólanna sem er afar jákvætt upp á áframhaldandi samstarf í smiðjum og öðrum verkefnum.
Skíðaferð í brekkur Tindastóls
Í síðustu viku fóru nemendur á unglingastigi í skíðaferð á Sauðárkrók. Miðað við lélegt skíðafæri víða um land í vetur þá náði hópurinn einstaklega góðum tveimur dögum í brekkum Tindastóls. Fínt skíðafæri var og yndislegt veður. Ætlunin var að koma heim á föstudegi en vegna veðurs var ferð flýtt, lagt af stað seinnipart fimmtudags og það voru þreyttir en ánægðir unglingar sem skiluðu sér heim eftir miðnætti aðfararnótt föstudags.
Undankeppni USSS í Flóaskóla
USSS er undankeppni söngkeppni Samfés á Suðurlandi. Eftir nokkurt hlé er Flóaskóli að taka þátt í keppninni í ár. Það er Hafdís Gígja kennari við skólann sem á heiðurinn af því að endurvekja þátttöku okkar en hún hefur frá því á haustönn verið með val á elsta stigi til að undirbúa þátttakendur. Undankeppni Zone og Flóaskóla fyrir söngvakeppnina fór fram í gær, 3. mars. Dómnefnd skipuðu þau Aldís Þórunn Bjarnardóttir sem hefur m.a. verið í Sunnlenskum röddum og er virkur meðlimur í Jórukórnum, Halldór Bjarnason, gítarleikari, hann er einn af fyrstu meðlimum félagsmiðstöðvarinnar Zone og Íris Hanna Björnsdóttir en hún hefur verið í söng og tónlist alla tíð. Fjögur atriði tóku þátt. Ásta Björg Jónsdóttir söng lagið From the start eftir Laufey, Hugrún Lísa Guðmundsdóttir Johnsen söng lagið My way eftir Frank Sinatra, Hróar Indriði Dagbjartsson söng lagið Counting stars með hljómsveitinni OneRepublic og loks sungu þær Ásta Björg og Hugrún Lísa saman lagið Show yourself úr teiknimyndinni Frozen 2. Höfundar lags eru Idina Menzel og Evan Rachel Wood. Allir þátttakendur stóðu sig með prýði og skiluðu sínum lögum mjög vel, en það var Ásta Björg sem stóð uppi sem sigurvegari. Hún mun því keppa fyrir okkar hönd á USSS sem fram fer í Njálsbúð þann 14. mars næst komandi þar koma fulltrúar félagsmiðstöðva á Suðurlandi og keppa um þrjú sæti í úrslitakeppni Samfés sem fer fram í vor. Það er einstaklega gaman að búið sé að endurvekja þessa keppni í skólanum okkar og þessi frumraun setur góðan tón fyrir framhaldið.
Hugrún Lísa og Ásta Björg
Kynnar keppninnar voru þær Elfa Rún og Hugrún Svala
Verðlaunaafhending
Söngleikurinn Grease settur á svið, sýning 3. apríl, aukaæfing 28. mars
Undirbúningur fyrir sýningu 1.-7. bekkja á söngleiknum Grease er nú kominn á fullan skrið. Nemendur hafa fengið úthlutað hlutverkum, eru komnir með texta til að læra bæði í tali og söng. Sýning á verkinu er áætluð fimmtudaginn 3. apríl kl 9:30. Við undirbúning sýningarinnar ætlum við að hafa aukaæfingu föstudaginn 28. mars frá kl 14:00-16:30. Mjög mikilvægt er að allir nemendur á yngsta og miðstigi mæti á æfinguna. Boðið verður upp á pitsu í hléi á æfingunni.