Fréttabréf Grenivíkurskóla
8. tbl. 5. árg. - október 2024
Kæra skólasamfélag
Þá er skólastarfið komið í fullan gang og nemendur fást við fjölbreytt og skemmtileg verkefni á hverjum degi. Sprotasjóðsverkefnið, sem sagt var frá í síðasta fréttabréfi, fer vel af stað og verður skemmtilegt að fylgjast með því áfram, en stefnan er að nemendur á miðstigi opni bókabúð á Grenivík í upphafi desember þar sem seldar verða bækur og fleira sem þau munu semja og skapa á næstu vikum og mánuðum.
Ýmislegt er á döfinni í október. Tónlistarskóli Eyjafjarðar verður með tónleika í græna salnum um miðjan mánuðinn og í lok október fara nemendur í 9. og 10. bekk í heimsókn í MA, VMA og á Heimavistina, en það eru alltaf áhugaverðar og skemmtilegar heimsóknir. Nemendur á miðstigi fara á samskóladag og þá verður árleg danssýning haldin föstudaginn 25. október. Alltaf nóg um að vera!
Að lokum er vert að minnast á að nú fer skammdegið að hellast yfir með dimmum morgnum og því um að gera að foreldrar og forráðamenn skoði fatnað og skólatöskur tímanlega með tilliti til endurskinsmerkja - það eykur öryggi barnanna mikið ef þau sjást vel á leið sinni í skólann.
Með kveðju úr skólanum,
Þorgeir Rúnar Finnsson
skólastjóri Grenivíkurskóla
Útivistartími og umferðaröryggi
Þann 1. september sl. breyttust reglur um útivistartíma barna og unglinga. 12 ára börn og yngri mega lengst vera úti til kl. 20:00, en 13-16 ára börn mega vera úti til kl. 22:00. Mikilvægt er að foreldrar og forráðamenn standi saman um að virða útivistarreglurnar.
Þá er tilvalið að fara vel yfir ýmis atriði er varða umferðaröryggi, t.d. á leið í og úr skóla. Við munum fara yfir þessi mál með nemendum hér í skólanum, en hvetjum ykkur einnig til þess að ræða þessi mál heima við. Ýmsar upplýsingar og góð ráð varðandi umferðaröryggi er að finna á þessari síðu.
Farsæld barna
Við í skólanum erum að feta okkur áfram þegar kemur að nýlegum lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, sem oftast eru kölluð Farsældarlögin. Lögin eiga að tryggja skipulag og samfellu í þjónustu fyrir börn og foreldra sem á þarf að halda, og hafa það markmið að skapa heildarsýn og ramma um þau þjónustukerfi sem skipta mestu máli fyrir farsæld barna.
Öll börn og foreldrar hafa aðgang að tengilið þjónustu í þágu farsældar barna eftir því sem þörf krefur. Hlutverk tengiliðar er fyrst og fremst að veita upplýsingar, aðstoða foreldra og barn og styðja við samþættingu á fyrsta stigi í samræmi við óskir foreldra og/eða barns.
Í Grenivíkurskóla er það Guðrún Árnadóttir sem sinnir hlutverki tengiliðs og ávallt hægt að hafa samband við hana, eða skólastjóra, ef óskað er upplýsinga eða ráðlegginga í tengslum við farsældarlögin og samþætta þjónustu.
Þá er í vinnslu úrræðalisti, sem verður gerður aðgengilegur á heimsíðu skólans, þar sem hægt verður að sjá yfirlit yfir þá þjónustu sem börnum og foreldrum stendur til boða.
Göngum í skólann og Ólympíuhlaup ÍSÍ
Nemendur hafa verið virkilega duglegir í árlegum hreyfiverkefnum sem jafnan eru á dagskrá í september, en í heildina eru nemendur búnir að ganga og hjóla 790 km í tengslum við þessi verkefni.
Göngum í skólann var sett 9. september og í tvær vikur voru nemendur hvattir til að nýta virkan ferðamáta í og úr skóla. Nemendur gengu og hjóluðu í skólann sem aldrei fyrr á meðan átakinu stóð og fóru samtals 505 km sem er frábær frammistaða. Okkar von er að þetta verkefni verði hvatning fyrir nemendur, foreldra og starfsfólk skólans til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla allt árið um kring.
Þann 17. september hlupu nemendur í Ólympíuhlaupi ÍSÍ og nemendur stóðu sig virkilega vel, en alls hlupu 43 nemendur 285 kílómetra!
Grænfáninn
Í grænfánadálki fréttabréfsins í vetur verður sjónum meðal annars beint að hinum ýmsu hugtökum sem varða umhverfisnefnd.
Hugtak septembermánaðar er matarsóun. Það kallast matarsóun þegar matur sem er ætur, eða hefur verið ætur, er hent. Ekki er talað um matarsóun í sambandi við þann hluta matar sem er ekki ætur, t.d. bananahýði, appelsínubörk, bein og þess háttar. Þriðjungi þeirra matvæla sem framleidd eru á heimsvísu er sóað. Draga verður úr matarsóun til að sporna gegn ofnýtingu auðlinda, vernda umhverfið og spara fé.
Heilsueflandi skóli
Dagatal Velvirk fyrir þennan mánuð ber yfirskriftina "bjartsýni október". Á dagatalinu má finna ýmsar tillögur sem eru í anda þess sem rannsóknir hafa sýnt að geti hjálpað fólki að lifa hamingjuríkara lífi, svo sem að gefa af sér, tengjast öðrum, finna tilgang, leika sér og njóta augnabliksins.
Smellið hér til að sjá útprentanlegt pdf-skjal með dagatalinu.
Myndir úr skólastarfinu
Á döfinni í október
- 1.,2., 15. og 16. október: Þórunn Rakel heimsækir miðstig í tengslum við Sprotasjóðsverkefni.
- 8. október: Samskóladagur í Þelamerkurskóla fyrir 5.-7. bekk.
- 17. október: Tónleikar hjá Tónlistarskóla Eyjafjarðar í græna salnum.
- 23. október: Bleikur dagur.
- 25. október: Síðustu danstímarnir og danssýning kl. 13:00.
- 30. október: Nemendur í 9. og 10. bekk fara í heimsókn í MA, VMA og á Heimavistina.
Matseðill
Útgefandi: Grenivíkurskóli
Ábyrgðarmaður: Skólastjóri Grenivíkurskóla
Tölvupóstur: grenivikurskoli@grenivikurskoli.is
Heimasíða: http://www.grenivikurskoli.is
Sími: 414-5413
Facebook: Grenivíkurskóli