Fréttabréf
8. tbl. 15 árg. Nóvember 2023
Kæru foreldrar og forráðamenn
Eins og endranær eru næg viðfangsefni og atburðir framundan hjá okkur í Naustaskóla næstu vikurnar og er það einkennandi fyrir það hve skólastarfið og verkefnin geta verið fjölbreytt í skólanum og lífi barnanna ykkar. Í nóvember höldum við hinn árlega nemendadag, fögnum degi íslenskrar tungu og höldum hátíð þegar við fáum að kalla okkur réttindaskóla UNICEF.
Við getum glaðst yfir hve haustið hefur farið vel af stað og veðrið hefur leikið við okkur. Það gerir flest allt auðveldara viðfangs þegar sólin skín og tunglsbirtan og stjörnurnar fá að njóta sín. Það er gaman að segja frá því að í Naustaskóla eru starfsmenn og nemendur af 23 þjóðernum. Nemendur okkar eru því með mjög mismunandi bakgrunn og reynslu, það er því mikilvægt að huga vel að sálarheill barna okkar á þessum tímum þar sem umræðan getur verið óvægin og fréttatímar eru yfirfullir af erfiðum fréttum og átökum.
Við minnum á að á heimasíðu skólans má nálgast starfsáætlanir kennsluteyma og einnig starfsáætlun skólans í heild þar sem má fræðast um stefnu, starfshætti, helstu áhersluþætti vetrarins o.fl. Þessar upplýsingar er að finna undir hlekknum skólinn / skólanámskrá á heimasíðu Naustaskóla. Með bestu kveðjum úr skólanum og von um öflugt starf og dásamlegt líf að vanda hjá okkur í nóvember.
Bryndís Björnsdóttir, skólastjóri
Viðurkenning sem Réttindaskóli
14.nóvember fær Naustaskóli viðurkenningu sem Réttindaskóli. Hér má kynna sér enn frekar um Réttindaskóla - og UNICEF. Markmið Réttindaskóla er að byggja upp lýðræðislegt umhverfi með því að rækta með markvissum hætti þekkingu, leikni og viðhorf sem hjálpar börnum að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í nútímasamfélagi. Með þetta að markmiði eru grunnforsendur Barnasáttmálans útgangspunktur fyrir allar ákvarðanir í skóla- og frístundastarfi auk þess sem þær endurspeglast í samskiptum barna, ungmenna, kennara, frístundaráðgjafa og annars starfsfólks. Við fögnum þessum áfanga. Hér er má líka sjá upplýsingar inn á heimasíðu Naustaskóla um Réttindaskólann.
Dagur gegn einelti
Dagur gegn einelti. Það er ekki einfalt að ákveða hvort um einelti sé að ræða þegar samskiptavandi kemur upp. Samskiptavandi birtist á margvíslegan máta og er misalvarlegur. Þegar upp kemur vandi í samskiptum er mikilvægt að orka og athygli fari ekki eingöngu í að skilgreina hversu alvarlegur vandinn er og hvort um einelti sé að ræða eða ekki. Mikilvægast er að finna farsælar leiðir til að takast á við vandann, skoða umhverfið í heild sinni og gefa öllum aðilum máls tækifæri til að axla ábyrgð á hegðun sinni og breyta til hins betra. Því þegar allt kemur til alls þá er vandinn sá sami, hvaða nafni sem við köllum hann.
Hér má sjá aðgerðaráætlun Naustaskóla gegn einelti og einnig má benda á hnapp sem er á heimasíðu skólans þar sem hægt er að tilkynna einelti eða grun um einelti.
Viðburðir í nóvember
8.nóvember. Dagur gegn einelti.
8.nóvember. Nemendadagur.
9.nóvember. Viðtalsdagur.
10.nóvember. Starfsdagur.
14.nóvember. kl.10.00 Viðurkenning sem Réttindaskóli.
14.nóvember. kl. 12:30 Skáld í skólum 4.-7.bekkur.
15.nóvember. Dagur mannréttindabarna.
16.nóvember. Dagur íslenskrar tungu.
16.nóvember - 7. bekkur. Upplestarkeppnin Upphátt hefst.
16.nóvember. 1.-2. bekkur. Aldís G. Gunnarsdóttir rithöfundur kemur og les í bók sinni, Trölli litli og skilnaður foreldra hans.
30.nóvember. Skreytingardagur
Jákvæður agi
Naustaskóla er unnið með agastefnuna Jákvæður agi. Kennarar og starfsfólk nota jákvæðan aga markvisst í skólastarfinu. Á öllum kennslusvæðum er að finna bekkjarsáttmála sem nemendur hafa skrifað undir. Umsjónarkennarar leggja upp með gæðahringi tvisvar sinnum í viku þar sem unnið er eftir handbók fyrir kennara um jákvæðan aga. Þar eru mismunandi æfingar sem kennarar leggja fyrir nemendahópinn sem þjálfa nemendur meðal annars í samskiptafærni, að segja sína skoðun, hlusta á aðra, hlutverkaleikir og vinna með verkfæri mánaðarins. Hægt er að skoða frekari áherslur í starfsáætlun teymana.
Viðtalsdagur
Viðtalsdagur er í skólanum 9. nóvember nk. Opnað verður fyrir skráningu inn á mentor í viðtöl þann 1. nóvember kl: 14:00 hvert viðtal er 15. mínútur, við biðjum ykkur að virða tímamörk. Við bendum ykkur á að íþróttakennarar og smiðjukennarar eru til viðtals í sínum stofum. Sjá staðsetningu viðtala er hér fyrir neðan í viðhengi.
Okkar heimur
Viðfangsefni okkar eru mörg sem manneskjur og er Okkar heimur stuðningsúrræði fyrir börn sem eiga foreldra með geðrænan vanda og var sett á laggirnar vegna skorts á stuðningi og fræðslu fyrir börn í þessari stöðu hér á landi. Markmið starfsins er að veita fræðslu, stuðning og vitundarvakningu.
Hrekkjavaka
Nemendur og starfsfólk þjófstörtuðu hrekkjavökunni og mættu í búningum á föstudeginum 27.okt. Unglingarnir stóðu síðan fyrir balli fyrir yngsta stig og var ekki annað að sjá en að það hafi vakið gleði. Það er alltaf gaman að gera sér dagamun og voru margar kynjaverur á sveimi þennan dag í skólanum.
Óskilamunir
Það er gott að kíkja í óskilamuni í leiðinni og foreldrar/forráðamenn koma í skólann á viðtalsdaginn. Einnig viljum við vekja athygli á að nauðsynlegt er að merkja föt barnanna vel. En ómerkt flík getur verið glötuð flík - að sama skapi er alltaf líklegra að flíkin komist í réttar hendur ef hún er merkt meða nafni og símanúmeri. Það er gott að muna og minna börnin okkar á að það geta legið margar vinnustundir að baki til að kaupa eina úlpu eða vettlinga. Þann tíma gætum við kannski notað í samveru með börnunum okkar, fjölskyldunni og eða annað sem nærir okkur.
Börn og fullorðnir
Börn vilja öruggan ramma
Börn vilja finnast þau vera velkomin og mikilvæg
Börn vilja að við sjáum þau og þekkjum þau
Börn vilja upplifa skilyrðislausa umhyggju
Börn vilja fá að vera þau sjálf
Fullorðnir eiga að hlaða börn með ást, öryggi og reynslu
Fullorðnir eiga að vera á staðnum fyrir börn
Fullorðnir eiga að vera skilyrðislaust tilbúnir fyrir börn
Fullorðnir eiga að búa til öruggan ramma fyrir börn