
Fréttabréf Flóaskóla
desember 2024
Kæra skólasamfélag
Skólastarfið hefur gengið afar vel síðustu vikur. Allir í önnum að sinna námi og kennslu og ýmis áhugaverð viðfangsefni í gangi. Nemendur á yngsta og miðstigi luku við sitt sköpunarþema um miðjan nóvember og elsta stig lauk sínu þema með leiksýningu sem nánar er fjallað um hér neðar. Næsta þema er byggt á grunnþættinum lýðræði og mannréttindi. Elsta stig fær jafningjafræðslu í heimsókn til sín og vinnur verkefni tengd kosningum. Yfirskriftin er stjórnmál og flóttamenn. Yngsta og miðstig eru að vinna verkefni tengd jólum um allan heim þar sem horft er til ólíkra samfélaga og hvernig jólahald er á ólíkum stöðum.
Við minnum á jólatónleika Sinfóníuhljómsveitarinnar þar sem langspilssveitin okkar tekur þátt. Enn er hægt að kaupa miða á tix.is, https://www.sinfonia.is/tonleikar-og-midasala/2024/12/15 . Jólatónleikunum verður svo sjónvarpað á RUV á jóladag kl 19:30.
Fréttabréfið hefur að geyma allnokkuð efni í þetta sinn svo gott er að gefa sér tíma til að skoða það vel. Upplýsingar eru um nýjan Matsferil MMS, um rafræntnámskeið sem foreldrar geta sótt varðandi ADHD. Kynning er á Forvarnar og aðgerðaáætlun vegna skólaforðunar og auglýsing um Fjölskyldu ART námskeið á vorönn 2025.
Nú við upphaf aðventu förum við að huga að undirbúningi jóla. Við leggjum áherslu á að skapa notalegt og rólegt andrúmsloft í aðdraganda jóla en viljum samt halda í nokkrar góðar hefðir í skólastarfinu. Mánudag 2.12. verður kyndlaganga og skreytingadagur í skólanum. 10. desember er svo komið að hinni árvissu jólasýning 1.-7. bekkja. Dagana 17.-19. desember eru jólahringekjur og í þetta sinn tökum við tvo daga í hringekju þvert á skólann, þannig að myndaðir eru 6 hópar nemenda af öllum stigum sem vinna saman í smiðjum þessa daga, þar verður farið í jólabingó, jólaföndur, íþróttafjör í Þingborg, kaffihúsastemmingu og jólabíó, jólabakstur og ýmiskonar spil. 19. desember eru svo smiðjur innan stiga og í hádeginu verður boðið upp á hátíðarmat. Við endum svo á stofujólum og jóladiskói þann 20. desember áður en allir halda í jólaleyfi. Skóli hefst svo aftur samkvæmt stundaskrá föstudaginn 3.1.2025.
Bestu kveðjur úr Flóaskóla
Þórunn Jónasdóttir
Flóaskóli fær sinn annan Grænfána
Nýverið fékk Flóaskóli afhentan Grænfána í annað sinn. Grænfáninn var afhentur við formlega athöfn þar sem fulltrúi frá Landvernd færði skólanum nýjan fána fyrir umhverfisvinnu árin 2022-2024. Nýskipuð umhverfisnefnd skólans tók við fánanum að viðstöddum nemendum og starfsmönnum skólans. Veðrið skartaði sínu fegursta þegar nýi fáninn var dreginn að húni.
Skólinn fékk Grænfánann fyrst árið 2021 en hafði þá unnið markvisst að innleiðingu frá haustinu 2018. Grænfáni er verkefni á vegum Landverndar og er tákn alþjóðlegrar umhverfisvottunar fyrir menntastofnanir. Markmið verkefnisins er að auka umhverfismennt, menntun til sjálfbærni og að styrkja umhverfisstefnur í skólum. Fyrstu þemu sem skólinn vann að voru orka og neysla og hringrásarkerfið. Á nýliðnu tímabili var unnið með átthaga og landslag ásamt lýðheilsu.
Flóaskóli stefnir á að halda ótrauður áfram að vinna að umhverfismálum og eflast og styrkjast sem Grænfánaskóli.
Ósk Kristinsdóttir sérfræðingur hjá menntateymi Landverndar.
Ósk og Iðunn fulltrúar Flóaskóla gáfu Ósk fulltrúa Landverndar endurunninn poka með kartöflum úr heimabyggð og eggjum sem orpið var að hænum sem fá afgangana úr eldhúsi Flóaskóla.
Umhverfisnefnd Flóaskóla, skipuð nemendum af öllum stigum skólans.
Nemendur og starfsfólk söfnuðust saman við stigann þegar fáninn var afhentur.
Sveinn húsvörður dró nýja Grænfánann að húni.
Nýr fáni blaktir við hún.
Stella í orlofi í uppsetningu elsta stigs Flóaskóla
27. nóvember sýndi elsta stig Flóaskóla einþáttunginn Stellu í orlofi. Tvær sýningar voru í Þjórsárveri og voru þær báðar vel sóttar. Við erum ótrúlega stolt af þessu stórglæsilega verkefni og öllum þeim sem að vinnunni komu.
Verkið er byggt á íslensku kvikmyndinni Stella í orlofi sem frumsýnd var árið 1986. Þetta er gamanfarsi sem fjallar um Stellu sem fer í sumarbústað ásamt sænskum alkahólista sem kominn er til landsins til að fara í meðferð hjá SÁÁ. Þau lenda í alls kyns vandræðum á ferðum sínum. Inn í söguna fléttast börn Stellu, eiginmaður hennar og hjákona hans, Lionsklúbburinn Kiddi, flugmaðurinn Anton og börn úr sveitinni.
Höfundur handrits og leikgerðar er Hallfríður Ósk Aðalsteinsdóttir deildarstjóri og leikstjóri er Hjálmar Benónýsson íslenskukennari. Umsjónarkennarar elsta stigs, list- og verkgreinakennarar og stuðningsfulltrúar hafa allir lagst á eitt að sinna undirbúningi sýningarinnar með nemendum. Hver nemandi á elsta stigi átti sitt hlutverk í uppsetningunni, sem leikarar, sviðsfólk, hvíslarar, tækni- og ljósameistarar, sviðsmyndahönnuðir, leikskrárgerðarfólk, förðunarmeistarar og búningagerðarfólk.
Undirbúningur sýningarinnar stóð yfir frá því í um miðjan október.
Skemmst er frá að segja að sýningin gekk í alla staði einstaklega vel. Öll umgjörð var afar vel heppnuð, leikarar voru eintaklega áheyrilegir og sýndu framúrskarandil leik og svo var sýningin hnittin. Bestu og spaugilegustu augnablikum þessarar sígildu kvikmyndar var raðað saman þannig að úr varð hin besta skemmtun. Hér fyrir neðan má sjá nokkrar svipmyndir frá sýningunni.
Goggi á spítala eftir brunaslys og aðrar hrakningar
Stella ásamt börnum sínum á leið í orlofið
Salómon og hjákona Gogga á leið til landsins
Lionsklúbburinn Kiddi býður berjatínur og salernispappír
Goggi hittir börn úr sveitinni
Albert flugstjóri og aðstoðarflugmaður í útsýnisflugi yfir Selá
Sýningarskrána má finna á þessum QR kóða
Eins og sönnum Grænfánaskóla sæmir þá var ekki prentuð út sýningarskrá,
en hana má nálgast á með þessum QR kóða.
Menningarferð og Uppsveitaval 5.-10. bekkja
Elsta stigið lauk svo nóvembermánuði í Menningarferð í Reykjavík með skólunum í Uppsveitum Árnessýslu. Lagt var upp á fimmtudagsmorgni og komið heim um miðjan dag á föstudegi. 10. bekkur heimsótti alþingi, Tækniskólann og Hönnunarsafnið. 9. bekkur fór í Norrænahúsið, Sögusafnið og heimsótti Landhelgisgæsluna. 8. bekkur fór á Gerðarsafn, Náttúrufræðistofu, Þjóðminjasafnið og í Borgarleikhúsið. Hópurinn fór svo allur á sýningu Jóla Hólm. Gist var á hosteli í Laugardalnum. Miðstigið fór í Flúðaskóla, á skólatíma, föstudaginn 29. nóvember í afar vel heppnaðar smiðjur. Þeirra smiðjur voru listasmiðja, íþróttasmiðja og útismiðja.
Hér fyrir neðan eru svipmyndir frá þessum ferðum.
Íþróttasmiðja á Flúðum
Listasmiðja á Flúðum
Afrakstur listasmiðju á Flúðum
Matsferill - nýtt námsmatskerfi MMS
Hjá miðstöð menntunar og skólaþjónustu, hefur síðustu misseri unnið að þróun nýs námsmatskerfis. Með víðtæku samstarfi við skólasamfélagið, fagfólk, nemendur og forráðamenn höfum við skapað nýtt samræmt námsmat sem gefur heildræna sýn á stöðu og framvindu barna í námi. Nýja námsmatskerfið hefur fengið nafnið Matsferill og verður tilbúið til innleiðingar á næsta skólaári. Markmið Matsferils er að afla upplýsinga sem ætlað er að auðvelda starfsfólki skóla að miða kennslu við þarfir hvers nemanda og koma auga á þau börn sem telja má í áhættu vegna framvindu í námi og þroska. Niðurstöðurnar veita skýra mynd af frammistöðu barna í rauntíma og gefa gott yfirlit yfir þróun námsárangurs þeirra yfir skólagönguna. Þannig gefst tækifæri á að grípa inn í og styðja við námsframvindu á hverjum tíma. Matsferill gegnir einnig mikilvægu hlutverki fyrir skólasamfélagið í heild. Með því að veita skólastjórnendum og stefnumótandi aðilum yfirsýn yfir stöðu og þróun námsárangurs á landsvísu verður mögulegt að bregðast hratt og örugglega við áskorunum sem upp kunna að koma. Matsferill nýtist þannig sem öflugt tól til að styrkja menntakerfið í takt við þarfir samtímans og í alþjóðlegum samanburði. Sett hefur verið upp sérstakt vefsvæði til að kynna Matsferil, innleiðingu hans og útfærslu. Við hvetjum ykkur eindregið til að kynna ykkur þetta mikilvæga framfaraskref í þágu menntunar barna á Íslandi sem mun hafa mikil áhrif á skólastarfið á komandi árum. Á matsferill.is er meðal annars að finna kynningarmyndband sem útskýrir Matsferil á aðgengilegan hátt. Saman stuðlum við að farsælu og öruggu námsumhverfi fyrir börnin okkar.
Kær kveðja,
Þórdís Jóna Sigurðardóttir,
forstjóri Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu
Skólaforðun, forvarna- og aðgerðaráætlun
Skóla- og velferðarþjónusta Árnesþings (SVÁ) og grunnskólar í Uppsveitum Árnessýslu og Flóahreppi hafa markað sér sameiginlega sýn á skilgreiningu á skólaforðun og hvernig skuli brugðist við ef skólasókn nemenda er ófullnægjandi með sameiginlegri viðbragðsáætlun. Í þeirri vinnu var unnið út frá ákvæðum aðalnámskrár grunnskóla og öðru efni um skólaforðun. Í aðalnámskrá segir að grunnskóla beri að grípa til aðgerða ef fjarvistir nemanda koma niður á námi og farsæld hans. Jafnframt skal miða við að skóli bregðist við ef heildarfjarvistir nemenda eru umfram tíunda hluta skólaárs. Mikilvægt er að skólasamfélagið allt sé sammála um hvernig skólaforðun er skilgreind og markvisst unnið samkvæmt skilgreindu verklagi.
Þegar unnið er með skólaforðun nemenda þarf að skoða vel alla þætti í umhverfi þeirra sem áhrif geta haft á skólasókn og vinna einstaklingsmiðaða áætlun þar sem markmiðið er að mæta hverju barni þar sem það er statt og styðja það til betri vegar. Ólíkar aðstæður kalla á ólíkar lausnir. Ástæður fyrir skólaforðun nemenda geta verið margvíslegar og því er mikilvægt að skoða hvert tilvik fyrir sig. Snemmtækur stuðningur og markviss samvinna heimilis og skóla eru lykilatriði til þess að koma í veg fyrir skólaforðun og til þess að ná barni sem glímir við skólaforðun sem fyrst aftur inn í skólastarfið.
Kærleikur í kaos - rafrænt foreldranámskeið - ADHD
Uppeldi barna með ADHD getur reynst frábrugðið uppeldi annarra barna. Foreldrar og forráðamenn verða að vera í stakk búnir að takast á við krefjandi aðstæður og aðlagast eiginleikum barnsins og iðulega upplifa foreldrar óvissu í uppeldi barna með ADHD. Réttar uppeldisaðferðir og skilningur eru lykillinn að vellíðan barns með ADHD og um leið foreldranna. Hér skiptir höfuðmáli að foreldrar hafi aðgengi að fræðslu og þjálfun ásamt einföldum verkfærum sem leiði til betra heimilislífs.
Kærleikur í kaos, er ætlað er foreldrum barna með ADHD og skyldar raskanir á aldrinum 3 - 10 ára. Námskeiðið byggir á dönsku foreldrafærninámskeiði - KIK Nu! - sem hlotið hefur alþjóðlega viðurkenningu og er vísindalega árangursmælt. Foreldrar barna með ADHD sem nýta sér námskeiðið öðlast betri uppeldisfærni, árekstrum fækkar og samband foreldra og barns batnar.
Kærleikur í kaos veitir foreldrum betri skilning á ADHD röskuninni og hvaða áhrif hún hefur á daglegt líf barnsins ásamt því að vera stuðningur við foreldrahlutverkið. Byggt er á fræðslu, verkefnum og góðum ráðum til að takast á við og vinna með ADHD eiginleika barnsins.
Kærleikur í kaos er gagnvirkt netnámskeið sem er alltaf opið og aðgengilegt hvar sem er á landinu. Námskeiðið er endurgjaldslaust fyrir félagsfólk ADHD samtakanna en aðrir greiða hóflegt þátttökugjald.
Einnig geta skólar og aðrar stofnanir haft samband ef þeir vilja bjóða upp á efnið sem lið í fræðslu og/eða endurmenntun starfsfólks.
Allar frekari upplýsingar hér: Kærleikur í kaos | ADHD samtökin
Önnur fræðsla
Við minnum einnig á að á liðnum misserum hafa ADHD samtökin útbúið fræðsluefni um ADHD og skólastarf, sem hentar öllum skólastigum og öllu starfsfólki skóla.
Samtökin hafa staðið fyrir fjölda fyrirlestra, námskeiða og sérfræðisamtala vítt og breytt um landið - á staðnum og/eða í gegnum fjarfundarbúnað.
Hvarvetna hafa fyrirlesarar okkar fengið mikið lof og þakkir og fræðslan sögð nýtast vel. Við vinnum með hverjum skóla og útbúum fræðslupakka sem henta.
ADHD samtökin bjóða jafnframt upp á fræðslu fyrir nemendur og aðstandendur.
Er þinn skóli búinn að fá fræðslu um ADHD?
Hafðu samband adhd@adhd.is eða jonakristin@adhd.is
Kær kveðja,
Jóna Kristín Gunnarsdóttir
verkefnastjóri fræðslumála
ADHD samtökin Háaleitisbraut 13 108 Reykjavík Sími: (+354) 581 1110 Farsími: (+354) 897 2598