Fréttamolar úr MS
27. september 2024
Á döfinni
Að venju er nóg um að vera í MS, skemmtileg íþróttavika að baki sem lýkur með fyrirlestri frá Þorgrími Þráinssyni í hádeginu í dag, föstudag.
Í næstu viku stendur hagsmunaráð fyrir góðgerðarviku þar sem safnað verður áheitum til styrktar Barnaheilla. MS tekur líka þátt í forvarnardeginum 2. október.
Haustönn er bráðum hálfnuð og styttist í miðannarmat sem gefur nemendum leiðbeinandi upplýsingar um stöðuna í náminu.
Miðannarmat
Miðannarmat (stöðumat) er aðgengilegt nemendum og forráðaaðilum í Innu um miðbik hverrar annar og verður birt í Innu fimmtudaginn 3. október. Miðannarmatið er gefið í hverri námsgrein og er byggt á ástundun, prófum, raunmætingu og verkefnum nemenda í greininni fyrri hluta annarinnar og gefur leiðbeinandi upplýsingar um stöðu nemenda í námi sínu.
Matskvarðinn er þrískiptur:
- G Gott (frammistaða á bilinu 8 - 10) merkir að með sama áframhaldi mun nemandi ná góðum árangri í áfanganum. Nemendur eiga hrós skilið og eru hvattir til að halda áfram á sömu braut.
- V Viðunandi (frammistaða á bilinu 5 - 7) merkir að nemandi stendur sig þokkalega og góðar líkur á að með sama áframhaldi muni hann standast lágmarkskröfur eða ná þokkalegum árangri í áfanganum. Fái nemandi V er mikilvægt að slaka hvergi á í námi og jafnvel að gera betur.
- Ó Ófullnægjandi (frammistaða á bilinu 1 - 4) merkir að nemandi stendur sig ekki nægilega vel í náminu og mun með sama áframhaldi að öllum líkindum falla í áfanganum. Einkunnin Ó í grein gefur þau skilaboð að nemandinn verði að taka sig verulega á í náminu og leita alls mögulegs stuðnings við námið sem kostur er á.
Dagskrá SMS í október
30. sept. – 4. okt.: Góðgerðavika SMS
7.-22.okt.: Morfísprufur hjá Málfundafélaginu ásamt þjálfurum.
14.-18. okt.: Leiklista, söng- og dansprufur hjá Leikfélaginu Thalíu
21.-24. okt.: Íþróttavika hjá Íþróttaráði
29. okt – 1. nóv: Æfingakeppni í Morfís
Fylgist með á Instagram miðlum SMS en þar birtast nánari upplýsingar þegar nær dregur. Hvetjum öll til að taka þátt í félagslífinu og vera með með því að mæta í prufur fyrir Morfís eða hjá Thalíu. Ef það er eitthvað sem þið hafið áhuga á að gera en finnið ekki að sé í boði er allskonar hægt að gera - hafið samband við stjórn SMS eða Guðnýju félagsmálastjóra á felagsmalastjori@msund.is.
Hagsmunaráð (sér um góðgerðarviku): @hagsmunaradms
Málfó (sér um Morfís, Gettu betur o.fl.): @malfosms
Íþróttaráð: @ithrottaradms
Leikfélagið Thalía: @leikfelagms
Stoðtímar í stærðfræði
Kæru nemendur, foreldrar og forráðamenn.
Ég vil kynna fyrir ykkur stoðtíma í stærðfræði sem eru haldnir tvisvar í viku í Menntaskólanum við Sund. Þetta eru endurgjaldslausir tímar hugsaðir sem aðstoð fyrir stærðfræðinemendur.
Tímarnir eru haldnir á þriðjudögum kl. 14:40-15:40 og á fimmtudögum kl. 15-16.
Ég vil endilega hvetja nemendur til að nýta þessa tíma. Stærðfræðikennarar skiptast á að vera í þessum tímum og því óskum við eftir því að nemendur sem vilja mæta skrái sig á lista á skrifstofunni. Þessi skráning er gerð til þess að vita hversu margir kennarar þurfa að vera á staðnum.
Ég vil einnig hvetja foreldra til að fylgjast með heimavinnu nemenda í stærðfræði. Samvinna ykkar við kennara getur skipt sköpum fyrir nemendur til að skipuleggja sig vel.
Bestu kveðjur
Unnur Sigmarsdóttir
fagstjóri í stærðfræði og eðlisfræði
Íþróttavika Evrópu #beactive
Íþróttavika Evrópu fór vikunni og var mikið líf og fjör í skólanum þessa daga.
Góðgerðarvikan
Hagsmunaráð SMS heldur góðgerðarviku dagana 30. september til 4. október. Áheit sem safnast renna beint til Barnaheilla en nemendur vilja vekja athygli á ofbeldi gegn börnum og berjast gegn því.
Á forvarnardaginn, 2. október, mætir fulltrúi Barnaheilla í hús og segir okkur frá starfinu þar. Hvetjum öll til að taka þátt og foreldra til að heita á nemendur.
Frá tölvuumsjón 💻
Á heimasíðu skólans (www.msund.is), undir Þjónusta, Tölvuaðstoð, er að finna ýmsar leiðbeiningar um tölvumál, til dæmis tveggja þátta auðkenninguna sem þarf að nota utan skólans. Munið að fara vel eftir þeim leiðbeiningum sem þarna eru.