Hvalrekinn
Október 2024
Haustkveðja
Þá er liðið vel á þetta skólaár og hefur skólastarfið gengið mjög vel, verkefnið Göngum í skólann var hjá okkur í september og Ólympíuhlaupið var í síðustu viku. Allir nemendur hafa tekið Lesferilsprófið og nú er að setja stefnuna á að æfa sig í lesti og hafa náð góðum framförum næst þegar prófið verður lagt fyrir í janúar 2025.
Námsviðtöl verða tekin í næstu viku og munu umsjónarkennarar senda nánari upplýsingar um það. Í námsviðtölunum verður áhersla lögð á líðan, frumkvæði og seiglu nemandans.
Ég vil óska nýrri stjórn foreldrafélagsins til hamingju en hún var kosin á aðalfundi foreldrafélgsins um miðjan september. Veit ég að það á eftir að vera gott samstarf við stjórn foreldrafélagsins nú eins og endranær.
Enn og aftur vil ég hvetja ykkur foreldra til að fylgjast vel með heimanámi ykkar barna, því áhugi ykkar getur skipt sköpum hvað varðar námsárangur, áhuga og viðhorf nemenda til náms. Áhugi og jákvæðni ykkar á nám nemenda mun efla hjá þeim getu, seiglu og þrautsegju. Seigla gengur út á að gefast ekki upp og með þrautsegju eflast nemendur við hverja raun.
Kristinn Guðlaugsson, skólastjóri
Vinaleikar og vetrarfrí
Dagana 22. og 23. október verðum við með Vinaleika í Hvaleyrarskóla. Þá skiptum við nemendum upp í 34 hópa þar sem nemendur í 10. bekk koma til með að halda utan um sinn hóp. Hóparnir fara síðan á milli stöðva þar sem þau þurfa að leysa hinar ýmsu þrautir og verkefni.
Vetrarfrí verður í framhaldi af Vinaleikum 24. og 25. október. Þá daga er Holtasel einnig lokað.
Við sjáumst svo hress og kát á loknu vetrarfríi mánudaginn 28. október.
Hvaleyrarskóli er hnetulaus skóli
Farsæld barna
Lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna tóku gildi þann 1. janúar 2022. Meginmarkmið laganna er að skapa umgjörð sem stuðlar að því að börn og foreldrar, sem á þurfa að halda, hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana.
Í lögunum kemur fram að börn undir 18 ára aldri og fjölskyldur þeirra skuli hafa aðgang að tengilið þjónustu í þágu farsældar barns eftir því sem þörf krefur. Hlutverk tengiliðar er:
• að hafa hagsmuni barns að leiðarljósi
• að rækja hlutverk sitt í samstarfi og samráði við foreldra og barn
• að veita upplýsingar um þjónustu í þágu farsældar barns
• að aðstoða við að tryggja aðgang að frummati á þörfum barns – eyðublað frá BOFS
• að skipuleggja og fylgja eftir samþættingu fyrsta stigs þjónustu í þágu farsældar barns
• að koma upplýsingum til sveitarfélags um þörf fyrir tilnefningu málstjóra
• að taka þátt í starfi stuðningsteymis eftir því sem við á
Þegar barn er við nám í leik-, grunn-, eða framhaldsskóla er tengiliður þjónustu í þágu farsældar barns starfsmaður skólans þar sem barnið er við nám eða leik.
Tengiliðir farsældar í Hvaleyrarskóla eru:
- Nedelína Ivanova deildarstjóri stoðþjónustu í grunnskóla nedelina@hvaleyrarskoli.is
- Sigrún Einarsdóttir deildarstjóri sérverkefna sigrune@hvaleyrarskoli.is
- Steinar Stephensen deildarstjóri 1. – 7. bekkjar steinar@hvaleyarskoli.is
- Vala Stefánsdóttir deildarstjóri 8. – 10. bekkjar og aðstoðarskólastjóri vala@hvaleyrarskoli.is
Hér eru nokkrir gagnlegir tenglar:
·Kynningarmyndband: Samþætting þjónustu í þágu farsældar barna
·Leiðbeiningar um innleiðingu á lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna (Barna- og fjölskyldustofa)
· Samþætting þjónustu í þágu farsældar barna (Barna- og fjölskyldustofa)
·Reglugerð um tengiliði og málstjóra samþættingar þjónustu í þágu farsældar barna
VIÐ ERUM ÞORPIÐ!
Hafnarfjarðarbær boðar til opins íbúafundar með ungmennum, fjölskyldum og öllum áhugasömum um eigin málefni, líðan og öryggi. Fundurinn verður haldinn í Bæjarbíó þriðjudaginn 8. október kl. 17:30. Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri opnar samtalið.
Eva Mattadóttir stýrir stundinni, samtali og umræðum og verður áhersla lögð á að gestir geti komið hugmyndum sínum og skoðunum á framfæri með skilvirkum og gagnvirkum hætti. Markmiðið er að safna saman hugmyndum og tillögum að aðgerðum sem snúa að öryggi og vellíðan barna og ungmenna í „þorpinu“ sínu. Í pallborði sitja fulltrúar frá ungmennum, lögreglu og sveitarfélagi og hefst umræðan með sterkum skilaboðum frá hverju og einu þeirra til gesta í sal.
Tölum saman og látum hugmyndirnar flæða. Hugmyndir og tillögur frá fundi verða lagðar fram til umræðu í fræðsluráði og fjölskylduráði og verða fóður í fyrirhugaða fundi, aðgerðaáætlun og forgangsröðun forvarnarverkefna. Þessi fundur er fyrsti upphafsfundur fyrirhugaðrar fundaraðar Hafnarfjarðarbæjar og Heilsubæjarins Hafnarfjarðar um málefni barna og ungmenna, líðan þeirra og öryggi.
Til fundarins eru sérstaklega boðaðir foreldra barna í Hafnarfirði upp að 18 ára aldri og hafnfirsk ungmenni sem vilja taka þátt í opinni umræðu og koma sjónarmiðum sínum á framfæri.
Meiri upplýsingar um atburðinn má finna ér: https://www.facebook.com/events/1267460721081453
Saman erum við þorpið.
Vertu með!
Hafnarfjarðarbær
Ólympíuhlaup ÍSÍ
Ólympíuhlaup ÍSÍ fór fram þann 25 september hjá nemendum. Allir nemendur og starfsmenn skólans tóku þátt. Nemendur gátu valið að hlaupa/ganga 2,5 km, 5 km eða 10 km. Nemendur í yngstu deild fóru allir 2,5 km en einhverjir fóru 5 km. Á mið- og elsta stigi fóru nokkrir nemendur 10 km sem er glæsilegt. Alls hlupu nemendur og kennarar skólans 1723,75 km.
Nemendur stóðu sig afskaplega vel og voru sjálfum sér og skólanum til mikils sóma.
Ný stjórn foreldrafélagsins
Formaður - Lisa Maríudóttir Mahmic
Netfang: lisa.mahmic@gmail.com
Meðstjórnendur:
Guðvarður Ólafsson - varaformaður
Dagný Rós Stefánsdóttir - ritari
Margrét Fídes Hauksdóttir - gjaldkeri
Fanney Þóra Heimisdóttir
Natalie Scholtz
Anna Louise Ásgeirsdóttir
Harpa Dís Magnúsdóttir
Viðmið um skjánotkun
Það er fyrst og fremst á ábyrgð foreldra hversu mikil skjánotkun er á heimilinu.
Foreldrar þurfa því að leitast við að skapa jafnvægi í lífi barna sinna og einnig að skipuleggja skjálausar stundir saman.
Hér má finna skjáviðmið fyrir börn og ungmenni.
Lestur er lífsins leikur
Hér má finna endurskoðaða lestrarstefnu Hafnarfjarðar Lestur er lífsins leikur.
Mentor - leiðbeiningar fyrir foreldra/forráðamenn
Reglur um ástundun í grunnskólum Hafnarfjarðar
Við minnum á samræmdar reglur um ástundun í grunnskólum Hafnarfjarðar en kynning á þeim er í kynningarglærum árganganna. Reglur og viðbragðsáætlun eru samræmdar þannig að ekki sé mismunun milli skóla bæjarins.
Starfsfólk skólanna í Hafnarfirði hefur áhyggjur af minnkandi skólasókn og fjölgun nemenda sem teljast falla undir skilgreiningar um skólaforðun. Í reynd eru allar fjarvistir frá skóla óheppilegar af ýmsum ástæðum og því er ekki gerður greinarmunur á fjarvistardögum þótt greinarmunur sé gerður á tilefni fjarvista. Eftir því sem skólasókn fer minnkandi taka við aukin viðbrögð af hálfu skóla til að koma sem lengst í veg fyrir að námsárangur nemenda versni vegna slakrar skólasóknar og vanlíðan aukist.
Meginefni reglanna er:
1. AÐ VIRÐING SÉ BORIN FYRIR SKÓLASÓKN
Allt skólasamfélagið (forsjáraðilar, nemendur, starfsfólk skóla) verður að bera virðingu fyrir mikilvægi skólasóknar alla 180 skóladaga nemenda í grunnskóla á hverju skólaári.
2. AÐ SKÓLA BERI ENGIN SKYLDA TIL SÉRSTUÐNINGS VEGNA LEYFA
Starfsfólk skóla ber ekki skylda til að þjónusta einstaka nemendur sérstaklega vegna fjarvista frá skóla, hverju nafni sem þær nefnast, og skulu foreldrar/ forráðmenn ekki óska eftir slíkri þjónustu (t.d. að kennarar gefi út sérstaka heimavinnu eða skilaboð þegar um er að ræða persónuleg leyfi fjölskyldna).
3. AÐ SKRÁÐ SÉ RAUNSKÓLAMÆTING Í LOK SKÓLAÁRS Á VITNISBURÐARBLAÐ NEMANDA
Allar fjarvistir, hverju nafni sem þær nefnast, búa til eina raunmætingareinkunn sem gefin er á vitnisburðarskírteini nemenda í lok skólaárs, sem prósentuhlutfall af skólasókn yfir skólaárið.
4. AÐ GEFIN SÉ ÁRLEG LOKAEINKUNN (A-D) VEGNA SKÓLASÓKNAR Á VITNISBURÐARBLAÐ
Ástundun sem snýr að fjarvistum, seinkomum og brottrekstri úr kennslustundum mynda á einu skólaári skólasóknareinkunn sem hver nemandi fær á matskvarðanum A, B+, B, C+, C og D í samræmi við kvarða (sjá fylgiskjal póstsins).
5. AÐ VIÐBRÖGÐ SKÓLA OG BARNAVERNDAR VIÐ MINNKANDI SKÓLASÓKN SÉU SAMHÆFÐ
Þótt forsjáraðilar hafi víðtækar heimildir til að tilkynna veikindi og leyfi frá skóla munu skólar bregðast við öllu slíku sem „fjarvistum“ óháð tilefni, í samræmi við reglur. Allar fjarvistir frá skóla eru óheppilegar og miklar fjarvistir (umfram 10% kennslutímans eða 18 skóladaga á skólaári) geta hamlað námsárangri barna. Það er skylda nemenda að mæta í skóla nema að löggild forföll hamli. Umræddar reglur gilda um alla grunnskóla Hafnarfjarðar jafnt og færast með nemendum flytji þeir á milli skóla innan Hafnarfjarðar á skólaárinu.
Tengill á reglur um ástundun nemenda í grunnskólum Hafnarfjarðar.
KURTEISI ~ ÁBYRGÐ ~ SAMVINNA
Hvalrekinn
Opnunartími skrifstofu:
Kl. 7:45 - 15:30 mán-fim
Kl. 7:45 - 14:00 fös
Email: hvaleyrarskoli@hvaleyrarskoli.is
Website: www.hvaleyrarskoli.is
Location: Akurholti 1
Phone: 354 565 0200
Facebook: https://www.facebook.com/hvaleyri/