Flataskólafréttir
Skólaárið 2020-2021 - 1. september 2020
Kæra skólasamfélag!
Nú er septembermánuður framundan og þar eru fastir liðir í skólastarfinu m.a. ferð í Guðmundarlund og samræmd próf í 4. og 7. bekk. Nánar má lesa um þessa viðburði hér á eftir.
Einn er þó sá liður sem tvísýnt er um að geti verið með hefðbundnum hætti en það eru haustfundir árganga þar sem umsjónarkennarar kynna starf vetrarins fyrir foreldrum, skipaðir eru bekkjafulltrúar o.fl. Innan skamms verða núgildandi viðmið vegna sóttvarna væntanlega endurskoðuð og þá metum við hvort við boðum foreldra til haustfunda. Ef það þykir ekki æskilegt munum við leita leiða til að miðla upplýsingum á annan hátt.
En annars er semsagt allt ljómandi gott að frétta úr skólanum og við horfum björtum augum til skólaársins framundan!
Bestu kveðjur!
Ágúst skólastjóri
Haustferð í Guðmundarlund
Miðvikudaginn 2. september verður farin árleg ferð nemenda skólans í Guðmundarlund. Guðmundarlundur er opið skógræktarsvæði í eigu Skógræktarfélags Kópavogs og er hann staðsettur ofan við Kóra- og Þingahverfi í Kópavogi. Markmið ferðarinnar er að hrista saman hópinn okkar, njóta síðsumarsins, kynnast skóginum, íslenskri náttúru og efla sjálfstæði barnanna í útiumhverfi.
Skóladagurinn er eins og aðrir dagar, byrjar klukkan 8:30 og lýkur klukkan 14:00/14:20. Börnin byrja daginn á að mæta í sínar heimastofur. Farið verður með rútum í tveimur hópum. Fyrsti hópurinn leggur af stað klukkan 9:00 og síðari hópurinn kl. 9:45.
Nemendur í 4-5 ára deild verða í skólanum þennan dag en fara í haustferð síðar í mánuðinum.
Við komuna í Guðmundarlund verður byrjað á að borða nesti sem börnin hafa meðferðis (t.d. grænmeti, ávexti, brauð og safa - sætt kex og sælgæti tökum við ekki með). Vinsamlega setjið nesti barnanna og aukaföt í litla bakpoka eða töskur þar sem óhentugt er að rogast með stórar skólatöskur í ferðina. Að loknu nesti verður farið í leiki og gönguferðir um nágrennið sem kennarar barnanna skipuleggja. Í hádeginu verða svo grillaðar pylsur fyrir alla. Eftir hádegið verður síðan farið heim og verða allir komnir í skólann fyrir klukkan 14:00. Tómstundaheimilið tekur síðan við að lokinni ferð fyrir þá sem þar eru skráðir.
Að lokum minnum við á viðeigandi klæðnað en við verðum úti nánast allan daginn. Ekki er þörf á að taka með sér skólatöskur þennan dag – aðeins litla bakpoka eða töskur undir nesti.
Tilmæli vegna Covid-19
Við minnum á tilmæli frá almannavörnum um að til að draga úr smithættu, þá komi foreldrar, (eða aðrir fullorðnir) ekki inn í skóla barna sinna nema þeir séu boðaðir þangað sérstaklega og þá sé smitgát viðhöfð.
Samræmd próf í 4. og 7. bekk
Það er venjulegur skólatími hjá nemendum þessa daga og þau mæta því að venju kl. 8:30 í sínar heimastofur. Prófin hefjast svo um kl. 9 og að þeim loknum eru nemendur í skólanum þar til venjulegum skólatíma lýkur.
Mikilvægt er að muna að um könnunarpróf er að ræða og því er ekki ætlast til að nemendur séu undirbúnir sérstaklega undir þau að öðru leyti en að kennarar kynna fyrir þeim próftökuferlið og tækjabúnaðinn sem notaður er en prófin eru rafræn eins og undanfarin ár. Foreldrar nemenda í 4. og 7. bekk munu fá sendar nánari upplýsingar varðandi prófin og framkvæmd þeirra á næstu dögum.
Opnunartími skrifstofu - skráningar fjarvista
Skrifstofa skólans er opin:
Mánudaga – fimmtudaga frá kl: 7:45 – 15:00.
Föstudaga frá kl. 7:45-14:30
Mælst er til að foreldrar/aðstandendur skrái veikindi nemenda á Fjölskylduvef Mentor.is eða með Mentor appinu.
Auk þess er hægt að tilkynna forföll á skrifstofu skólans með tölvupósti á netfangið flataskoli@flataskoli.is eða í síma 513 3500. Vakin er athygli á að ef veikindi vara lengur en einn dag skal tilkynna daglega.
Leyfisbeiðnir fyrir nemendur
Nemendum er veitt leyfi til að sinna nauðsynlegum erindum. Mælst er til að leyfisbeiðnum sé haldið í lágmarki og jafnframt eru foreldrar/forráðamenn beðnir um að fara fram á þær með góðum fyrirvara sé þess nokkur kostur. Foreldrar eru beðnir um að sækja um leyfi hjá skólastjóra eða aðstoðarskólastjóra ef óskað er eftir leyfi meira en tvo daga, (umsókn um leyfi) annars nægir að fá leyfi hjá umsjónarkennara.
Í 8. grein grunnskólalaga er kveðið á um slík leyfi: ,,Sæki forráðamaður skólaskylds barns um tímabundna undanþágu þess frá skólasókn er skólastjóra heimilt að veita slíka undanþágu í samráði við umsjónarkennara telji hann til þess gildar ástæður. Forráðamaður skal þá sjá til þess að nemandinn vinni upp það sem hann kann að missa úr námi meðan á undanþágu stendur.”
Að koma skilaboðum áleiðis til kennara
Foreldrum er velkomið að senda kennurum skilaboð með tölvupósti. Þeir geta hins vegar ekki vænst þess að fá svar fyrr en í lok dags eða næsta dag. Ef um áríðandi skilaboð til kennara er að ræða er best að senda nemandann með miða sem hann afhendir kennaranum. Hægt er að hafa samband við skólaritara í síma eða með tölvupósti sem kemur skilaboðum til kennara. Símtöl eru ekki gefin inn í kennslustundir.
Ófullnægjandi skólasókn - verkferlar
· Í grunnskólum Garðabæjar fer mánaðarlega fram greining á forföllum allra nemenda öðrum en langtímaveikindum.
· Þegar grunur vaknar um skólasóknarvanda/skólaforðun nemanda skal bregðast við með viðeigandi hætti og með það að leiðarljósi að veita stuðning.
ÓSAMFELLDAR FJARVISTIR
2-7 fjarvistir
Umsjónarkennari ræðir við nemanda og aðstandendur hans.
8-14 fjarvistir
Fundur með umsjónarkennara, nemanda, aðstandendum og skólastjórnanda ef ástæða þykir til.
15-20 fjarvistir
Málinu er vísað til umræðu í nemendaverndarráði.
21 eða fleiri fjarvistir
Tilkynning send til barnaverndar sem boðar til fundar með viðeigandi aðilum.
VEIKINDI/LEYFI
10 dagar eða fleiri
Umsjónarkennari hefur samband við aðstandendur. Áætlun um námsframvindu unnin í sameiningu.
15 dagar eða fleiri
Umsjónarkennari upplýsir skólastjórnendur um stöðu mála, hefur samband við aðstandendur og gerir áætlun um námsframvindu.
20 dagar eða fleiri
Skólastjórnandi boðar aðstandendur til fundar og vísar málinu til umfjöllunar í nemendaverndarráði.
Engin breyting til batnaðar á skólasókn
Tilkynning send til barnaverndar sem boðar til fundar með viðeigandi aðilum.
Skólum er heimilt að óska eftir vottorði læknis vegna veikinda hvenær sem er í ferlinu.
Helstu viðburðir framundan:
- 2. sept. - ferð í Guðmundarlund
- 10.-18. sept - haustfundir árganga (ef aðstæður leyfa v/ covid - nánar auglýst síðar)
- 16. sept - Skipulagsdagur leik- og grunnskóla. Kennsla fellur niður og 4.-5. ára deild lokuð
- 24.-25. sept - samræmd próf í 7. bekk
- 30. sept - 1. okt - samræmd próf í 4. bekk
- Forvarnarvika í Garðabæ 7.-14. október
- 22. okt. Samtalsdagur - nemendur og foreldrar koma til viðtals við umsjónarkennara
- 23. okt. - Skipulagsdagur - kennsla fellur niður
Flataskóli Garðabæ
Email: flataskoli@flataskoli.is
Website: flataskoli.is
Location: Flataskóli, Gardabaer, Iceland
Phone: 513 3500