Fréttabréf Síðuskóla
10. bréf - júní- skólaárið 2023-2024
Kæru foreldrar, nemendur og starfsfólk!
Núna eru síðustu skóladagarnir framundan og styttist í sumarfrí nemenda. Í morgun var rýmingaræfing í skólanum, sú fyrsta eftir að brunakerfi var sett upp. Hún gekk að mestu leyti vel en markmið með æfingum sem þessari er að koma auga á það sem betur má fara og verður það gert í kjölfarið. Að venju verðum við með umhverfisdaga og skipulag þeirra er að finna hér neðar í bréfinu. Gott er að skoða það skipulag vel. Þessa daga munum við fara um okkar nærumhverfi, læra og leika okkur. Síðasta skóladaginn munum við svo enda á grilli í útigarðinum. Það er öllum boðið í grillið, líka þeim sem eru ekki í mataráskrift. Skólaslit verða 4. júní og tímasetningar má sjá hér neðar í bréfinu.
Við þökkum kærlega fyrir samstarfið á þessu skólaári og bjóðum tilvonandi nemendur velkomna í skólann en þetta fréttabréf er sent á verðandi foreldra í 1. bekk. Í haust munu 34 nemendur munu hefja skólagöngu í Síðuskóla. Í ár útskrifast 26 nemendur og mun því fjölga lítillega í skólanum frá og með hausti. Við óskum útskriftarnemendum alls hins besta og þökkum þeim kærlega fyrir samstarfið sl. 10 ár. Skólasetning næsta skólaárs er 22. ágúst og verða sendar nánari upplýsingar í ágúst auk þess sem þær verða settar á heimasíðuna. Í haust verður Síðuskóli 40 ára og áformað er að halda afmælishátíð fimmtudaginn 5. september. Við erum farin að huga að skipulagi afmælisins og munum senda ykkur það þegar nær dregur.
Búið er að ráða skólahjúkrunarfræðing fyrir næsta skólaár, það er Lára Baldvinsdóttir og tekur hún til starfa í ágúst.
Megið þið eiga ljúfa og góða daga í sumarleyfinu!
Bestu kveðjur úr skólanum!
Ólöf, Malli og Helga
Símafrí í grunnskólum Akureyrarbæjar
Sáttmáli um símafrí í grunnskólum Akureyrarbæjar mun taka í gildi í ágúst 2024. Í sáttmálanum felst eftirfarandi:
- Í grunnskólum Akureyrarbæjar skulu nemendur ekki nota síma á skólatíma, hvorki í skólanum eða á skólalóð. Leið milli skóla og íþróttamannvirkja telst til skólalóðar.
- Þetta á einnig við önnur snjalltæki sem trufla kennslu og einbeitingu (t.d. snjallúr)
- Á föstudögum er nemendum á unglingastigi heimilt að nota síma í frímínútum á skilgreindum svæðum.
- Símar og önnur snjalltæki eru ávallt á ábyrgð eigenda sinna.
- Komi nemendur með síma í skólann, þá skulu nemendur í 8. – 10. bekk geyma símana í læstum skápum og yngri nemendur geyma símana í töskum. Símar skulu ekki geymdir í fatnaði nemenda eða á borðum.
Undantekningar
- Símafrí nær ekki til skólaferðalags nemenda við lok 10. bekkjar. Hver skóli ber ábyrgð á því hvernig þeim reglum skuli hagað í samráði við áfangastað.
- Nemendur sem þurfa á síma að halda v. heilsufarslegra ástæðna (t.d. vegna sykursýkismælinga) er leyfilegt að hafa síma á sér, en aðeins til notkunar í þeim tilgangi.
Viðbrögð við notkun síma í leyfisleysi
Sé reglum um símafrí ekki fylgt eftir fær nemandi áminningu/samtal við kennara og tækifæri til setja símann á viðeigandi stað. Við endurtekið brot er nemanda boðið að velja á milli þess að:
A. afhenda símann sem verður geymdur á skrifstofu skólastjórnanda til loka skóladags nemanda.
B. fara á skrifstofu skólastjórnanda og bíða þar uns foreldri hefur komið í skólann til að ljúka afgreiðslu málsins.
Við Ítrekuð brot á símafríi er boðað til fundar með nemanda og foreldrum og skráning gerð í Mentor.
Í símalausu skólastarfi notar starfsfólk ekki síma sína á svæðum nemenda nema með einstökum undantekningum og þá vegna starfsins.
Óskilamunir
Mikið er af óskilamunum í skólanum og biðjum við foreldra að koma við hjá okkur þessa síðustu daga og athuga hvort eitthvað hefur orðið eftir.
Litla upplestrarkeppnin í 4. bekk
Þann 5. maí sl. var lokahátíð Litlu upplestrarkeppninnnar haldin í 4. bekk. Nemendur lásu upp texta og ljóð og sýndu hvað þeir hafa lært í vetur í framsögn og tjáningu. Í lokin sungu nemendur lag við undirleik Heimis Ingimarssonar eins og sjá má á myndinni sem fylgir með. Allir stóðu sig með sóma og skiluðu sínu vel.
Umsjónarkennarar 2024-2025
1. bekkur - Gréta Björk Halldórsdóttir og Sigríður Jóna Ingólfsdóttir
2. bekkur - Lilja Þorkelsdóttir, Matthildur Stefánsdóttir og Þórunn Hafsteinsdóttir
3. bekkur - Guðný Viktoría Másdóttir og Petrea Ósk Sigurðardóttir
4. bekkur - Fríða Rún Guðjónsdóttir og Magnea Guðrún Gróa Karlsdóttir
5. bekkur - Arna Valgerður Erlingsdóttir og Rannveig Heimisdóttir
6. bekkur - Hafdís María Tryggvadóttir og Kolbrún Sveinsdóttir
7. bekkur - Gunnar Símonarson - á eftir að ráða
8. bekkur - Heiða Björg Guðjónsdóttir og Ólafur Haukur Tómasson
9. bekkur - Hjördís Ragna Friðbjarnardóttir, Sigríður Jóhannsdóttir og Þröstur Már Pálmason
10. bekkur - Hulda Guðný Jónsdóttir og Katrín María Hjartardóttir
Skólaslit Síðuskóla vorið 2024
Skólaslit Síðuskóla verða þriðjudaginn 4. júní.
Árgangar mæta í heimastofur, farið saman í sal. Skólastjórinn kveður fyrir hönd skólans á sal, síðan fara nemendur í sínar heimastofur þar sem hópurinn er kvaddur. Foreldrar að sjálfsögðu velkomnir með sínum börnum. Við miðum við að skólinn sé í eina klukkustund.
- Klukkan 9:00 1.-5. bekkur
- Klukkan 10:00 6.-9. bekkur
Útskrift 10. bekkjar kl. 15:00 í Glerárkirkju og kaffi í skólanum á eftir fyrir nemendur og fjölskyldur þeirra og starfsfólk.
UNICEF hlaupið
Þann 24. maí verður góðgerðahlaup UNICEF haldið í Síðuskóla en hlaupið er fræðslu- og fjáröflunarverkefni þar sem íslenskum börnum gefst tækifæri á að fræðast um aðstæður jafnaldra sinna víða um heim og með hollri hreyfingu safna fé fyrir starfi í þágu barna í fátækari ríkjum heims. Þemað í ár er loftslagsmál.
Á döfinni
24. maí
UNICEF góðgerðarhlaup
28.-30. maí
Skólaferðalag 10. bekk
31. maí og 3. júní
Umhverfisdagar