

Tæknótíðindi
4. febrúar 2025
Dagsetningar framundan
- 7. febrúar - Námsmat - skóli lokaður
- 7. febrúar - Miðspannarmat birt í Innu
- 10. febrúar - Opnað fyrir kennslumat
- 15. febrúar - Forritunarkeppni grunnskólanna
Skólinn lokaður 7. febrúar og miðspannarmat birt
Við vekjum athygli á því að Tækniskólinn verður lokaður föstudaginn 7. febrúar.
Kennarar vinna að undirbúningi kennslu og námsmati þennan dag og verður miðspannarmat birt nemendum í Innu kl. 12:00.
Nemendur geta nýtt daginn til að vinna að námi sínu.
Söngkeppnin og sigurvegari
Brynja Gísladóttir, 18 ára nemandi í málaraiðn, er sigurvegari Átótjúnsins 2025.
Keppnin í ár var einstaklega glæsileg enda hvert atriðið á fætur öðru í háum gæðaflokki. Alls tóku 10 nemendur þátt í keppninni og þökkum við þeim kærlega fyrir sitt framlag. Dómnefnd kvöldsins fékk það krefjandi verkefni að velja þrjú efstu lögin.
Í þriðja sæti keppninnar var María Verónica Martínez Rodríguez sem söng lagið Goddess. Og annað sætið hreppti Daniel Magni Thorunnarson Moss með lagið You need me I don’t need you. Það var svo Brynja Gísladóttir sem söng sig inn í fyrsta sæti keppninnar með laginu Strange.
Við óskum Brynju innilega til hamingju með sigurinn og hvetjum ykkur til að lesa stutt viðtal við hana sem birtist á Facebook síðu Tækniskólans.
Miðspannarmat/miðannarmat
Í miðspannarmati/miðannarmati gefa kennarar nemendum vitnisburð um stöðu þeirra í hverjum áfanga fyrir sig. Vitnisburðurinn byggir fyrst og fremst á því námsmati sem þegar hefur farið fram.
Matskvarðinn er fjórskiptur:
A = Ágætt. Nemanda gengur mjög vel.
B = Í lagi. Nemandi hefur tök á efninu en má ekki slá slöku við.
C = Ábótavant. Nemandi þarf að taka sig á til að ná áfanganum.
X = Ekki forsendur til að gefa vitnisburð.
Við hvetjum nemendur og forsjáraðila að fara yfir miðspannarmatið/miðannarmatið saman og skipuleggja framhald námsins í ljósi þess. Námsráðgjafar skólans eru til viðtals og geta bent á leiðir fyrir nemendur sem þurfa að bæta stöðu sína.
Kennslumat
Mánudaginn 10. febrúar hefst kennslumat í Innu. Í kennslumati svara nemendur spurningum um kennsluna í einstökum áföngum.
Kennslumatið er liður í sjálfsmati skólans og er góð þátttaka nemenda mjög mikilvæg. Athugið að ekki er hægt að rekja svör til einstakra nemenda. Þátttaka tekur ekki nema nokkrar mínútur.
Þrátt fyrir að eingöngu hluti áfanga sé í kennslumati hverju sinni geta nemendur alltaf komið á framfæri ábendingum, kvörtunum og hrósi í gegnum ábendingakerfið á vefsíðu skólans.
Frítt námskeið í forritun
Tækniskólinn býður nemendum í 9. og 10. bekk á forritunarnámskeið fyrir byrjendur og um leið að taka þátt í Forritunarkeppni grunnskólanna laugardaginn 15. febrúar.
Tölvubraut Tækniskólans stendur fyrir keppninni og er markmið hennar að kynna forritun fyrir grunnskólanemendum og skapa vettvang þar sem þeir geta komið saman og leyst skemmtileg verkefni.
Skráning er hafin og stendur til og með 12. febrúar. Þið megið endilega láta vini og ættingja í 9. og 10. bekk vita!
Hægt er að smella á hlekkinn hér að neðan fyrir nánari upplýsingar um viðburðinn.
Morðingi gengur laus
Það styttist í frumsýningu á leiksýningunni Klú sem er byggð á morðgátuspilinu Clue.
Hvetjum þau sem vilja leysa morðgátuna að fylgja leikfélaginu Mars á Instagram.
Aukatímar
Upplýsingar um aukatíma og jafningjafræðslu má finna á vefsíðu Tækniskólans, í viðburðadagatali og á skjáum í skólahúsum
Við hvetjum nemendur til þess að nýta sér þessa góðu þjónustu.