
Fréttabréf Grenivíkurskóla
1. tbl. 1. árg. - september 2020
Velkomin í skólann!
Nú höldum við enn á ný inn í nýtt skólaár. Starfsfólk skólans hefur verið í óða önn að undirbúa starfið í vetur og það var gaman að fá nemendur til leiks og starfa á nýjan leik að loknu góðu sumarfríi.
Einhverjar breytingar hafa orðið á starfsliði skólans. Ásta Flosadóttir verður í námsleyfi í vetur og undirritaður mun leysa hana af. Þá hefur Símon Birgir ákveðið að hefja nám í Reykjavík og kveður okkur því í bili. Tveir nýir kennarar hafa bæst í hópinn, þær Sigríður Diljá Vagnsdóttir og Svala Fanney Njálsdóttir, en einnig mun Rannvá Olsen koma frá Tónlistarskóla Eyjafjarðar og sinna tónmenntakennslu í 1.-4. bekk. Við bjóðum þær hjartanlega velkomnar til starfa og hlökkum til að vinna með þeim.
Nemendur skólans eru 53 við skólabyrjun og verður kennt í 5 námshópum.
1. og 2. bekkur er saman í námshóp, Heiða Björk Pétursdóttir er umsjónarkennari þeirra.
3. og 4. bekkur er saman í námshóp, Kolbrún Hlín Stefánsdóttir er umsjónarkennari þeirra.
5. og 6. bekkur er saman í námshóp, Hólmfríður Björnsdóttir er umsjónarkennari þeirra.
7. og 8. bekkur er saman í námshóp, Sigríður Diljá Vagnsdóttir er umsjónarkennari þeirra.
9. og 10. bekkur er saman í námshóp, Inga María Sigurbjörnsdóttir er umsjónarkennari þeirra.
Aðstæður í þjóðfélaginu eru áfram með sérsöku móti vegna Covid-19 faraldursins og litaði það skólabyrjunina nokkuð að þessu sinni. Að öðru leyti erum við vongóð um að geta haldið uppi skólastarfi með eðlilegum hætti í vetur.
Við óskum eftir góðu samstarfi við heimilin hér eftir sem hingað til, enda er það lykillinn að velferð, vellíðan og árangri nemenda skólans. Óhjákvæmilegt er þó að eitthvað komi upp á í dagsins önn og viljum við hvetja foreldra og forráðamenn til að hafa samband við skólann ef upp koma atvik eða spurningar vakna varðandi skólastarfið.
Megi gleði og góð samvinna einkenna skólastarfið í vetur!
Þorgeir Rúnar Finnsson
skólastjóri Grenivíkurskóla
Skólasetning Grenivíkurskóla
Hreyfivika og Göngum í skólann
Þessa viku munum við hefja hvern einasta skóladag á því að ganga, skokka eða hlaupa eina mílu (ríflega 1,6 km) og halda svo í heimastofur í rólega lestrarstund þar til klukkan slær 9:00. Að því loknu fáum við okkur ávexti og einnig verður boðið upp á hafragraut fyrir þá sem það vilja.
Rannsóknir hafa sýnt fram á mikinn ávinning fyrir alla með þessari einföldu leið. Má þar nefna betri líðan, aukið sjálfstraust, betri samskipti, minni streitu og kvíða og aukna þrautseigju.
Þetta er ekki keppni, bara félagsskapur og gleði, og allir fara á sínum forsendum. Gaman verður að sjá hvernig til tekst hjá okkur í þessari tilraunaviku.
Næstu tvær vikur eftir "Mílu á dag" verkefnið, vikurnar 7.-11. september og 14.-18. september tökum við svo þátt í verkefninu Göngum í skólann, en þá eru nemendur og starfsfólk hvattir til þess að nota virkan ferðamáta á leið í og úr skólanum.
Covid-19
Að sjálfsögðu verður þrifum og sótthreinsun í skólanum sinnt vel hér eftir sem hingað til.
Umferðaröryggi
Nú þegar skóli hefst á ný er tilvalið að fara vel yfir ýmis atriði er varða umferðaröryggi. Við munum fara yfir þessi mál með nemendum hér í skólanum, en hvetjum ykkur einnig til þess að ræða þessi mál heima við.
Útiskóli í september
- 5.-6. bekkur: Norðurstrandarleið og ferðaþjónusta í heimabyggð
- 1.-4. bekkur: Berjamór, jurtasöfnun, sultugerð o.fl.
Á döfinni í september
- 31. ágúst - 4. september: Míla á dag
- 7.-11. og 14.-18. september: Göngum í skólann
- 8. september: Dagur læsis
- 16. september: Dagur íslenskrar náttúru
- 24. september: Samræmt próf í íslensku - 7. bekkur
- 25. september: Samræmt próf í stærðfræði - 7. bekkur
- 30. september: Samræmt próf í íslensku - 4. bekkur
- 1. október: Samræmt próf í stærðfræði - 4. bekkur
Grenivíkurskóli
Ábyrgðarmaður: Skólastjóri Grenivíkurskóla
Email: grenivikurskoli@grenivikurskoli.is
Website: http://www.grenivikurskoli.is
Location: Grenivík
Phone: 414-5413
Facebook: https://www.facebook.com/search/top?q=greniv%C3%ADkursk%C3%B3li