Fréttabréf Grenivíkurskóla
7. tbl. 3. árg. - september 2022
Kæra skólasamfélag
Þá höldum við spræk inn í nýtt skólaár eftir heldur dapurt sumar, a.m.k. veðurfarslega séð. Vonandi leikur veðrið við okkur í haust og svo tekur við mildur vetur - við hljótum að eiga það inni!
Eins og þið mörg vitið hefur gengið illa að ráða í stöðu skólaliða og þá urðu breytingar á haustdögum þess valdandi að enn vantar kennara til starfa við skólann. Elsa María er sem sagt hætt störfum við skólann og hefur hafið störf við myndmenntakennslu á Akureyri.
Það er því afar gaman að geta sagt frá því að þessi mál eru öll við það að leysast. Nýr skólaliði tekur til starfa þann 1. september, en hún heitir Alicja Karkowska. Þá snýr Sigríður Diljá Vagnsdóttir aftur og hefur störf við skólann að nýju þann 1. október nk. (mögulega fyrr). Við hlökkum til að fá þær stöllur til starfa og væntum góðs samstarfs í vetur.
Framundan er spennandi vetur þar sem við ætlum að halda áfram að þróa teymiskennsluna okkar, sem og vinna áfram með aðrar breytingar sem við lögðumst í á síðasta skólaári. Markmiðið er, sem fyrr, að gera gott skólastarf enn betra.
1.-4. bekkur er saman í námshóp. Í kennarateymi þessa hóps eru Heiða Björk Pétursdóttir, Steinunn Adolfsdóttir og Svala Fanney Njálsdóttir. Steinunn og Svala eru umsjónarkennarar.
5.-7. bekkur er saman í námshóp. Í kennarateymi þessa hóps eru Guðrún Árnadóttir, Hólmfríður Björnsdóttir, Inga María Sigurbjörnsdóttir og Inga Rakel Ísaksdóttir. Inga María er umsjónarkennari.
8.-10. bekkur er saman í námshóp. Í kennarateymi þessa hóps eru Edda Björnsdóttir og Jónína Margrét Guðbjartsdóttir og þá mun Sigríður Diljá Vagnsdóttir koma inn í þetta teymi þegar hún kemur til starfa. Jónína Margrét er umsjónarkennari.
Kolbrún Hlín Stefánsdóttir sér svo um alla hand- og myndmenntarkennslu ásamt heimilisfræði á miðstigi.
Þótt hóparnir séu í grunninn til með þessum hætti er ekki þar með sagt að tiltekinn hópur sé allur saman í kennslustundum. Nemendum er skipt í smærri hópa í t.d. sundi og list- og verkgreinum sem og íþróttum á yngsta stigi. Þá hefur hvert kennarateymi sveigjanleika til að skipuleggja hópaskiptingu í bóklegum greinum eftir þörfum nemenda og viðfangsefnum hverju sinni. Áfram verður áhersla á einstaklingsmiðað nám og er það trú okkar að teymiskennslan hjálpi okkur þar með auknum sveigjanleika og sameiginlegri ábyrgð á nemendum.
Skipulag skóladagsins verður með svipuðum hætti og á síðasta skólaári. Við hefjum flesta daga á lestri og hreyfistund og höldum svo í morgunmat kl. 9:00. Við taka kennslulotur til kl. 14:00, en þá lýkur skóla hjá öllum nemendum, alla daga.
Við óskum hér eftir sem hingað til eftir góðu samstarfi við heimili nemenda, enda er það lykillinn að velferð, vellíðan og árangri nemenda skólans. Óhjákvæmilegt er þó að stundum komi eitthvað upp á í dagsins önn og viljum við hvetja foreldra og forráðamenn til að hafa samband við skólann ef upp koma atvik eða ef spurningar vakna varðandi skólastarfið.
Megi gleði, þrautseigja, sköpunarkraftur og góð samvinna einkenna skólastarfið í vetur!
Með kveðju úr skólanum,
Þorgeir Rúnar Finnsson
skólastjóri Grenivíkurskóla
Skólatöskugjafir
Líkt og undanfarin ár færir Grýtubakkahreppur nemendum í 1. bekk skólatösku að gjöf við upphaf skólagöngu þeirra. Í ár hefja fjórir drengir í 1. bekk skólagöngu sína, þeir Elvar Þór, Kári Eyfjörð, Reynir Þór og Þórir Hafstein. Við óskum þeim velfarnaðar í leik og starfi í skólanum á næstu árum og vonum að skólatöskurnar sem þeir völdu sér komi til með að reynast þeim vel.
Opnunartími skólans
Ný forstofa og salerni
Útivistartími og umferðaröryggi
Þann 1. september breytast reglur um útivistartíma barna og unglinga. 12 ára börn og yngri mega lengst vera úti til kl. 20:00, en 13-16 ára börn mega vera úti til kl. 22:00. Mikilvægt er að foreldrar og forráðamenn standi saman um að virða útivistarreglurnar.
Þá er tilvalið, nú þegar skóli er hafinn á nýjan leik, að fara vel yfir ýmis atriði er varða umferðaröryggi, t.d. á leið í og úr skóla. Við munum fara yfir þessi mál með nemendum hér í skólanum, en hvetjum ykkur einnig til þess að ræða þessi mál heima við. Ýmsar upplýsingar og góð ráð varðandi umferðaröryggi er að finna á þessari síðu.
Heilsueflandi skóli
Í september tekur Grenivíkurskóli þátt í verkefninu Göngum í skólann. Frá 7.-20. september eru nemendur og starfsfólk skólans hvött til að ganga, skokka, hjóla eða nota annan virkan ferðamáta til að komast til og frá skóla. Markmið verkefnisins eru meðal annars að hvetja til aukinnar hreyfingar, stuðla að heilbrigðum lífsstíl, draga úr umferð og stuðla að vitundarvakningu um ferðamáta og umhverfismál. Frekari upplýsingar um verkefnið má finna hér.
Þá stefnum við einnig á að taka þátt í Ólympíuhlaupi ÍSÍ, en dagsetning hefur ekki enn verið ákveðin.
Dagatal Velvirk fyrir síðasta mánuð bar yfirskriftina "Alsæl í ágúst". Dagatal september var ekki komið þegar fréttabréfið fór í loftið. Á dagatalinu má finna ýmsar tillögur sem eru í anda þess sem rannsóknir hafa sýnt að geti hjálpað fólki að lifa hamingjuríkara lífi svo sem að gefa af sér, tengjast öðrum, finna tilgang, leika sér og njóta augnabliksins.
Smellið hér til að sjá útprentanlegt pdf-skjal með dagatalinu.
Grænfáninn
Grænfánanefnd skólans vill að þessu sinni minna á strandhreinsunarverkefni Landverndar og Bláa hersins sem ber heitið Hreinsum Ísland, en verkefnið hlaut tilnefningu til Umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs árið 2018. Markmiðið með verkefninu er að fræða almenning um skaðsemi plasts á hafið og lífríkið og virkja almenning, framleiðendur og fyrirtæki til að leggja sitt af mörkum í baráttunni gegn plastmengun með því að endurhugsa neyslu sína og velja fjölnota kosti fram yfir einnota.
Myndir úr skólastarfinu - ágúst
Á döfinni í september
- 2. september: 5. og 6. bekkur fer í siglingu með Húna II.
- 7. september: Göngum í skólann hefst.
- 8. september: Dagur læsis. Danskennsla hefst.
- 16. september: Dagur íslenskrar náttúru.
- 23. september: Starfsdagur. Frí hjá nemendum.
- 26. september: Evrópski tungumáladagurinn.
- 27. september: Allir nemendur fá fræðslu frá Samtökunum '78.
- 28. september: Samskóladagur fyrir 5.-7. bekk í Þelamerkurskóla.
- 30. september: Grunnskólamót á Laugum fyrir 7.-10. bekk.
Grenivíkurskóli
Ábyrgðarmaður: Skólastjóri Grenivíkurskóla
Email: grenivikurskoli@grenivikurskoli.is
Website: http://www.grenivikurskoli.is
Location: Grenivík
Phone: 414-5413
Facebook: https://www.facebook.com/search/top?q=greniv%C3%ADkursk%C3%B3li