Fréttabréf Síðuskóla
9. bréf - maí- skólaárið 2023-2024
Kæru foreldrar, nemendur og starfsfólk!
Við óskum ykkur gleðilegs sumars og þökkum kærlega fyrir veturinn!
Það styttist í skólaárinu og aðeins rétt rúmar fjórar vikur í skólalok. Síðasti kennsludagur er 3. júní og skólaslit þann 4. júní. Þau verða hér í skólanum fyrir 1.-9. bekk en 10. bekkur verður útskrifaður að venju úr Glerárkirkju. Nánara skipulag verður sent út þegar nær dregur. Eins og alltaf verða einhverjar breytingar á starfsmannahópnum á næsta skólaári en aðeins fleiri nemendur verða í skólanum þar sem 26 nemendur útskrifast en 34 nemendur eru innritaðir í 1. bekk. Þessa dagana erum við að skipuleggja næsta skólaár og erum að raða niður umsjónarkennurum. Við munum senda þessar upplýsingar til ykkar þegar þær liggja fyrir.
Nú eru margir búnir að taka hjólin í notkun og viljum við í þvi samhengi ítreka að allir nemendur á grunnskólaaldri eiga að nota hjálma.
Við vonum að allir séu klárir í síðustu vikur skólaársins.
Bestu kveðjur úr skólanum!
Ólöf, Malli og Helga
Samverustund leikskólanna í hverfinu og 1. bekkjar Síðuskóla
Ein af þeim skemmtilegu hefðum sem skapast hafa hjá okkur í starfinu í skólanum er samstarf við leikskólana í hverfinu. Á síðasta ári var bryddað upp á þeirri nýjung að hafa sameiginlega samveru á sal Síðuskóla þar sem nemendur hittast, syngja saman og sýna atriði. Myndin hér til hliðar sýnir frá síðustu samverustund núna í apríl þegar nemendur 1. bekkjar og leikskólanna syngja saman við undirleik Jóns Ágústs, kennara á Hulduheimum.
Markús Orri Óskarsson nemandi í 9. bekk er Íslandsmeistari í skólaskák
Um helgina fór fram Landsmót í skólaskák hér á Akureyri. Öruggur sigurvegari á yngsta stigi var Karma Halldórsson frá Ísafirði og jafnöruggur á miðstigi Birkir Hallmundarson úr Kópavogi (Lindaskóla), báðir með fullt hús vinninga. Aðeins jafnara á elsta stigi þar sem Þeir Markús Orri Óskarsson frá Akureyri (Síðuskóla) og Kópavogsbúinn Mikael Bjarki Heiðarsson (Vatnsendaskóla), urðu efstir og jafnir með 10 vinninga af 11. Þá tók við úrslitaeinvígi. Markús vann fyrstu skákina (5-3), með svörtu (sjá upphaf hennar hér í mynd), en Mikael náði að jafna. Þá var tíminn styttur (3-2) og þeirri skák lauk með jafntefli, (Markús stýrði hvítu mönnunum). Þá var aftur dregið um lit og enn fékk Markús hvítt. Þessa fjórðu skák einvígisins vann hann og bætist því í fríðan flokk akureyrskra skákmanna sem hafa orðið Íslandsmeistarar í skólaskák. Mikael Bjarki missti af titlinum á sjónarmun en stóð sig auðvitað með mikilli prýði.
Öll úrslit má sjá á https://chess-results.com/tnr934986.aspx?lan=1&art=4
(Mynd og upplýsingar fengnar hjá Áskeli Kárasyni)
UNICEF hlaupið
Þann 24. maí verður góðgerðahlaup UNICEF haldið í Síðuskóla en hlaupið er fræðslu- og fjáröflunarverkefni þar sem íslenskum börnum gefst tækifæri á að fræðast um aðstæður jafnaldra sinna víða um heim og með hollri hreyfingu safna fé fyrir starfi í þágu barna í fátækari ríkjum heims. Þemað í ár er loftslagsmál. Nánari upplýsingar um fyrirkomulag hlaupsins verða sendar heim þegar nær dregur.
Fiðringur
Á myndinni hér fyrir neðan má sjá þátttakendur frá Síðuskóla, við óskum þeim góðs gengis í Hofi!
Við bendum áhugasömum á að miðasala fer fram á tix.is
Síðuskóli tók þátt í Skólahreysti
Reiðhjól og hjálmar
- Nemandi sem kemur hjólandi í skólann gerir það á ábyrgð foreldra/forráðamanna sem meta færni barnsins og aðstæður á hjólaleiðinni. Skv. 44. grein umferðarlaga mega börn yngri en níu ára ekki hjóla á akbraut án leiðsagnar og eftirlits aðila sem hefur náð 15 ára aldri. Þar af leiðandi getur skólinn ekki mælt með að þeir nemendur komi á hjóli í skólann nema í fylgd fullorðinna.
- Samkvæmt umferðarlögum er börnum yngri en 16 ára skylt að nota reiðhjólahjálm.
Ákvörðun er foreldra og á ábyrgð þeirra.
Á döfinni
8. maí
Fiðringur, lokahátið í Hofi kl. 20
Starfskynning hjá 10. bekk
9. maí
Uppstigningardagur, frídagur
10. maí
Litla upplestrarkeppnin í 4. bekk
13. maí
7. bekkur - Grunnskólamót í frjálsum
14. maí
6. bekkur - Grunnskólamót í frjálsum
15. maí
5. bekkur - Grunnskólamót í frjálsum
16. maí
4. bekkur - Grunnskólamót í frjálsum
Sjúk ást, fræðsla í 8. bekk kl. 8.10-8.50
21. maí
Skipulagsdagur, enginn skóli opið í Frístund
23. maí
Nikótínfræðsla í 7. bekk
24. maí
UNICEF góðgerðarhlaup
28.-30. maí
Skólaferðalag 10. bekk
31. maí og 3. júní
Umhverfisdagar