Fréttabréf Naustaskóla
9.tbl. 10.árg. 1. nóv 2018
Kæra skólasamfélag
Októbermánuður var viðburðarríkur eins og oft vill verða í skólastarfinu. Í síðustu viku voru með okkur tvær konur á vegum menntamálastofnunarinnar að gera úttekt á kennsluháttum, líðan nemenda og annari starfsemi innan skólans. Einnig voru foreldrar, starfsmenn og nemendur boðaðir í rýnihópa. Við bíðum nú eftir skýrslu frá þeim en hún mun verða væntanlega í byrjun næsta árs. Niðurstöður skýrslunnar munum við nýta til að bæta skólastarfið en skýrslan verður birt á heimasíðu skólans þegar hún er tilbúin.
Við erum sérstaklega stolt af árangri nemenda í Naustaskóla í lesfiminni eins og sjá má á mynd hér í fréttabréfinu eru nemendur að standa sig vel á landsvísu. Árangurinn þökkum við m.a. góðri samvinnu heimilis og skóla, markvissri og fjölbreyttri vinnu með læsi innan skólans. Ég fer í veikindaleyfi í 4 -6 vikur frá 1. nóvember – ég þarf að fara í mjaðmaliðskipti og mun vonandi snúa til baka í desember óhölt og hress. Í fjarveru minni mun Aðalheiður Skúladóttir vera staðgengill skólastjóra og stýra skólanum ásamt Heimi Árnasyni deildarstjóra. Framundun eru viðburðir í skólastarfinu eins og kosning til nemendaráðs, nemendadagurinn og dagur íslenskrar tungu 16. nóvember – og svo auðvitað aðventan með tilheyrandi skemmtun og uppákomum.
Bestu kveðjur Bryndís skólastjóri
Fuglagjöf
Öryggi í umferðinni
Naustaskóli dreginn út:)
Íþróttakennarar voru í skýjunum með þessi verðlaun og munu kaupa flotta hluti fyrir þessa inneign.
Rithöfundar í heimsókn
Á döfinni í nóvember
8.nóv - Dagur eineltis
16.nóv - Dagur íslenskrar tungu
19.-21.nóv - Söngvaflóð (sjá nánar í frétt fyrir neðan)
20.nóv - Gunnar Helgason upplestur
22.nóv - Ævar vísindamaður upplestur
23.nóv - Nemendadagurinn - frjálst nesti (ekki gos og nammi)
30.nóv - Skreytingardagur
Söngvaflóð í nóvember
Nemendur í Naustakóla munu fara í Hof og syngja nokkur frábær lög!
Mánudagurinn 19. Nóv
Kl. 9:30-10:10 1. bekkur
Kl. 10:40-11:20 2. Bekkur
Þriðjudagur 20. Nóv
Kl. 9:30-10:10 3. Bekkur
Kl. 10:40-11:20 4. Bekkur
Miðvikudagur 21. Nóv
Kl. 9:30-10:10 5. og 6. Bekkur
Kl. 10:40-11:20 7. Og 8. Bekkur
Lesfimi íslenskra skólabarna eykst
Lesfimi íslenskra skólabarna jókst marktækt milli ára, samkvæmt lesfimiprófi Menntamálastofnunar sem lagt var fyrir nemendur í öllum bekkjum grunnskóla í september sl. Niðurstöðurnar gefa vísbendingar um að aðgerðir til að auka lestrarfærni og áhuga barna skili árangri.
Haustið 2015 gerðu mennta- og menningarmálaráðuneytið og sveitarfélög í landinu með sér svokallaðan Þjóðarsáttmála um læsi. Markmið sáttmálans var að tryggja að öll börn gætu við lok grunnskóla lesið sér til gagns enda þykir sannreynt að lífsgæði og læsi haldist í hendur. Með skipulögðu mati á lesfimi barna á grunnskólaaldri má fylgjast með stöðu og framförum hvers barns, og grípa inn í þar sem þurfa þykir til að styrkja námsstöðu barnsins.
Skólaárið 2018-´19 er þriðja skólaárið sem lesfimipróf eru lögð fyrir en það er gert þrisvar á hverju skólaári – í september, janúar og maí – til að fylgjast með námsframvindu hvers nemanda. Fyrsta skólaárið var þátttaka lítil en hún hefur aukist mikið milli ára og fyrir vikið er samanburður orðinn framkvæmanlegur.
Samkvæmt niðurstöðum prófanna sem lögð voru fyrir í síðasta mánuði er breytingin mest hjá nemendum í 8. bekk, sem að meðaltali lásu þremur orðum meira á mínútu en haustið 2017. Nemendur í 2., 3., 5., 6., 7. og 10. bekk lásu einu til tveimur orðum meira að meðaltali en fyrir ári en nemendur í 1., 4. og 9. bekk lásu jafnmörg orð að meðaltali og haustið 2017. Í öllum tilvikum var árangurinn því jafn góður eða betri en í sömu bekkjum í fyrra.
Lesfimiprófin mæla lestrarnákvæmni og lestrarhraða barna en hvorki lesskilning, orðaforða né ritun. Menntamálastofnun vill árétta, að við heildarmat á læsi og lestrarfærni barna þarf að horfa til allra framangreindra þátta. Stofnunin vinnur nú að gerð lesskilnings-, orðaforða-, ritunar- og stafsetningarprófa sem kennarar geta nýtt í sínu starfi, kjósi þeir svo.
Niðurstöður lesfimiprófanna eru aðgengilegar fyrir kennara og skólastjórnendur í Skólagátt, rafrænu mælaborði Menntamálastofnunar, þar sem kennari getur fylgst með námsframvindu sinna nemenda á einfaldan og myndrænan hátt.
Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar:
„Þessar niðurstöður eru afar ánægjulegar. Þær benda til að með samstarfi allra lykilaðila – yfirvalda, skólastjórnenda, kennara og foreldra – náist góður árangur, þótt enn eigi eftir að koma í ljós hvort tekist hafi að snúa við þróun undanfarinna ára. Þessar jákvæðu niðurstöður eru í takt við okkar væntingar, enda skynjum við aukinn metnað og kraft hjá skólum, kennurum, foreldrum og fleirum gagnvart læsi. Þá virðist mér sumarlestur barna hafa verið meiri á liðnu sumri en oftast áður. Starfsfólk bókasafna talaði t.d. um að aðsókn barna á bókasöfn hefði aukist í sumar, þúsund börn tóku þátt í söguboltanum og margir nýttu sumarlæsisdagatalið sem Menntamálastofnun útbjó sl. vor. Það eru gömul sannindi og ný, að aukinn lestur heima fyrir skilar sér nær undantekningalaust í auknum árangri nemenda.“
Góð niðurstaða úr lesfimiprófum er til marks um markvissa vinnu skóla, kennara, foreldra og ekki síst nemendanna sjálfra. Sú jákvæðni og samhugur sem einkennt hefur lestrarkennslu í skólum landsins er mikilvægt skref á þeirri löngu vegferð, að auka lestraráhuga og læsi til lengri tíma.
Lesfimi í Naustaskóla
Minnum á mentor appið!
Nýtt app fyrir nemendur og aðstandendur
Nú kynnum við nýtt app fyrir nemendur og aðstandendur sem gefur þeim kost á að fá allar nýjar skráningar frá skólanum beint í símann sinn. Tilkynning kemur þegar skránig hefur farið fram og hægt er að smella á hana til að skoða hana frekar í Mentor.
Auðveldara aðgengi að nýjum upplýsingum fyrir nemendur og aðstandendur
Þetta er app sem margir hafa beðið eftir en með því geta bæði nemendur og foreldrar fengið upplýsingar um leið og ákveðnar skráningar hafa farið fram hjá skólanum. Þá er einnig hægt að velja að fá yfirlit yfir allar skráningar dagsins í lok hvers dags. Til að skoða skráninguna frekar þarf aðeins að smella á hana og þá er viðkomandi kominn inn á sitt svæði í Mentor.
Þetta er leiðin sem nemendur og aðstandendur þurfa að fara til að setja upp appið
1. Verið með notandanafn og lykilorð við höndina
2. Skráið ykkur inn á Mentor
3. Fylgið leiðbeiningum á skjá