
Fréttamolar úr MS
8. nóvember 2023
Síðustu dagar haustannar
Nú er síðasta vika haustannar hafin og líklega nóg að gera á lokasprettinum. Við skorum á alla nemendur að sinna náminu vel allt til loka og tryggja þannig að sem bestur árangur náist.
Næsta vika er námsmatsvika sem hefst með tveimur matsdögum þar sem nemendur geta verið kallaðir inn í verkefni og próf. Í kjölfarið eru svo einkunnaskil og námsmatssýning fimmtudaginn 16. nóvember.
Kennsla á vetrarönn hefst skv. stundaskrá þriðjudaginn 21. október. Önnin hefst með miklu fjöri, en fyrsta vikan er hin rómaða 85 vika sem nær hámarki með 85 ballinu sem haldið verður í Víkinni fimmtudaginn 23. nóvember.
Dagsetningar framundan
- Fimmtudagur 9. nóvember: Líffræðiráðstefna nemenda í lokaverkefni í líffræði í Andholti
- Mánudagur og þriðjudagur 13.-14. nóvember: Síðustu matsdagar haustannar (dagskrá birtist á heimasíðu skólans á föstudag).
- Miðvikudagur 15. nóvember: Einkunnir birtast í Innu kl. 20
- Fimmtudagur 16. nóvember: Námsmatssýning - í húsi kl. 11-12 eða á Teams kl. 9-12 (nánar auglýst síðar)
- Sunnudagur 19. nóvember: Stundatöflur vetrarannar birtar í Innu (ekki taka mark á stundatöflum sem mögulega sjást fram að því)
- Sunnudagur 19. nóvember: Opnað fyrir töflubreytingar í Innu
- Mánudagur 20. nóvember: Upphafsdagur vetrarannar. Töflubreytingar í Innu loka kl. 15:00
- Þriðjudagur 21. nóvember: Kennsla hefst skv. stundaskrá
- 21.-24. nóvember: ✨85 vikan✨
- Fimmtudagur 23. nóvember: 85 dansleikur nemenda í Víkinni kl. 22-1.
85 vikan
Við minnum foreldra á mikilvægi foreldrarölts við ballið, skráning í röltið verður send út fljótlega.
Viskusteinn - upplýsingamiðstöð
Viskusteinn er opinn fyrir nemendur til þess að læra og klára allt fyrir annarlok. Hægt er að leita til starfsmanna Viskusteins til að fá aðstoð varðandi ýmislegt, eins og heimildavinnu og uppsetningu verkefna.
Fimmtudaginn 9. nóvember verður opið í Viskusteini til kl. 22:30 fyrir þau sem vilja nýta tímann. Guðný Lilja, félagsmálastjóri og starfsmaður Viskusteins, verður á staðnum og aðstoðar nemendur eftir þörfum.
Samfélagslöggur
Á næstunni munu samfélagslöggurnar heimsækja nemendur í Krossgötum og kynna sín störf. Samfélagslöggur er verkefni hjá lögreglunni sem vinnur að því markmiði að færa lögregluna nær samfélaginu og styrkja tengsl hennar við ungt fólk. Þegar samfélagslöggurnar koma í heimsókn í skólann munu þær nýta tækifærið og ræða við nemendur í matsalnum og á göngum skólans.
Kennslukannanir
Þessa dagana er opið fyrir kennslukannanir í Innu í nokkrum námsgreinum. Góð þátttaka nemenda er mikilvæg svo hægt sé að mæla gæði skólastarfs og við kunnum að meta að heyra raddir nemenda. Könnunin er nafnlaus og er hún opin til og með föstudeginum 10. nóvember. Við hvetjum nemendur til að taka þátt og segja sína skoðun!
Kennslukannanir eru á forsíðu Innu undir Kannanir.
Frá tölvuumsjón
Þó nokkuð hefur verið um að stór tölvufyrirtæki, eins og til dæmis Apple og Cisco, hafa verið að senda út öryggisuppfærslur. Þessar uppfærslur eru mikilvægar og til þess að þær virki þarf að uppfæra og endurræsa tölvur. Slíkt leysir oft ýmis vandamál í tölvunum. Hægt er að leita til tölvuumsjónar í Viskusteini ef nemendur þurfa aðstoð.