

Fréttabréf Flóaskóla
janúar 2025
Kæra skólasamfélag
Nýliðin aðventa var góður tími í skólanum. Áhersla var lögð á að skapa notalegt og rólegt andrúmsloft í aðdraganda jóla en halda samt í nokkrar góðar hefðir í skólastarfinu.
Um áramót er við hæfi að líta yfir farinn veg. Haustönnin í Flóaskóla var að venju viðburðarrík og fengust nemendur við fjölmörg ólík viðfangsefni undir handleiðslu starfsfólks. Auk hefðbundinna verkefna voru unnin þrjú þemaverkefni þvert yfir skólann út frá grunnþáttunum heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi og sköpun. Við fengum heimsókn samstarfsskóla frá Danmörku og unnum í smiðjum í samtarfi við grunnskólana í uppsveitum Árnessýslu. Farið var í haustferðir. Jón Pétur leiddi danskennslu. Olympíuhlaup og Flóamót voru á vísum stað. Elsta stig skólans sýndi leikrit um Stellu í orlofi og nemendur í 1.-7. bekk sýndu jólasýningu. Allt voru þetta mjög vel heppnaðar sýningar sem voru nemendum og hlutaðeigandi starfsfólki til mikils sóma.
Langspilssveitin okkar tók þátt í jólasýningu Sinfóníuhljómsveitar Íslands og spilaði á fernum tónleikum í Eldborgarsal Hörpu fyrir fullu húsi. Tónleikarnir voru svo sýndir í sjónvarpinu á jóladag. Þetta var krefjandi og lærdómsríkt verkefni en afar skemmtilegt og skilaði Langspilssveitin því með miklum sóma.
Þrátt fyrir nauðsyn þess að hafa fjölbreytt uppbrot í skólastarfinu er hinn hefðbundni skóladagur ekki síður mikilvægur og er í raun sá grunnur sem allt annað nám byggir á. Í öllu okkar starfi leggjum við áherslu á traust og virðingu í samskiptum, samkennd og umburðarlyndi og erum afar stolt af skólanum okkar og starfinu þar.
Nýtt ár hefst með þemaverkefni út frá læsi sem er einn af sex grunnþáttum menntunar. Verkefninu er ætlað að gera nemendur meðvitaðri um læsi í víðum skilningi og að þeir tileinki sér ólíka þætti læsis. Nemendur á yngsta stigi vinna með upplýsinga- og tæknilæsi í gegnum STEAM (Science, Technology, Engineering, Art og Mathematic). Miðstigið vinnur með auglýsingar og fjölmiðlalæsi og á elsta stigi verður áherslan á fjármálalæsi. Í janúar ætlum við svo að halda upp á afmæli skólans. Árið 2024 varð Flóaskóli 20 ára og ætlunin er að halda afmælisfögnuð af því tilefni miðvikudaginn 22. janúar næstkomandi. Vonandi ná sem flest ykkar að koma á þann viðburð.
Við horfum með tilhlökkun til komandi árs
megi árið 2025 færa okkur öllum gæfu og góðar stundir
bestu kveðjur úr Flóaskóla
Þórunn Jónasdóttir
20 ára afmæli Flóaskóla
Skólanum hafa borist veglegar gjafir í tilefni af afmæli skólans. Nú rétt fyrir áramót færði Flóahreppur skólanum 5 milljónir að gjöf sem ætlaðar eru til kaupa á leiktækjum og búnaði á skólalóðina. Við þökkum kærlega fyrir þessa höfðinglegu gjöf og þann velvilja til skólans sem hún sýnir. Kvenfélag Villingaholtshrepps hafði fyrr á árinu gefið skólanum 800 þúsund í þetta sama verkefni. Þessar góðu gjafir eiga eftir að nýtast okkur einstaklega vel því þær gera okkur kleift að setja upp veglega klifurgrind og aðra afþreyingu sem bætir mjög aðstöðuna á skólalóðinni.
Jólasýningar í 1.-7. bekk
Helgileikur nemenda á yngsta stigi
Jól um allan heim, sýning miðstigs