Fréttabréf forseta
Maí 2021
Landssambandsþingið
Framkvæmdaráð hefur samþykkt tillögu stjórnar að skipulagi landssambandsþings.
Fyrri hluti þingsins fer fram á Zoom föstudaginn 7. maí frá kl. 20-22.30. Þá verða aðalfundarstörf samkvæmt þeirri dagskrá, sem tilkynnt var mánuði fyrir tilsettan dag og kemur fram á vefnum okkar www.dkg.is.
Seinni hluti þingsins mun fara fram í Reykjanesbæ þann 4. september næstkomandi. Lögð verður áhersla á að halda dagskránni að mestu leyti óbreyttri. Um er að ræða mjög áhugaverða dagskrá, sem verður gaman að geta haldið með nærveru allra, hópumræðum, veitingum, hátíðarkvöldverði og þeirri gleði sem jafnan fylgir því þegar DKG konur koma saman.
Það er stefnt að því að halda árlegan framkvæmdaráðsfund daginn á undan eða 3. september.
Miðað við það sem kynnt hefur verið um sóttvarnir og bólusetningar eigum við að vera öruggar um að þessi dagsetning gangi upp eða eins öruggar og hægt er að vera á þessum skrítnu tímum. Bólusetningar verða það langt komnar að við verðum væntanlega búin að ná hjarðónæmi. Það gefur góða von.
Þessa helgi er Ljósahátíð í Reykjanesbæ. Við getum vonandi glaðst með íbúum svæðisins með því að taka þátt í einhverjum viðburðum. Mikið verður gaman að vera laus úr böndum sóttvarna og geta glaðst saman.
Þátttaka í landssambandsþingi er mikilvæg
Mikilvægt er að framkvæmdaráð taki þátt í aðalfundi, en einnig er mikilvægt að hvetja sem flestar félagskonur til að sækja þingið. Skráning á þingið fer fram með því að senda tölvupóst til ieg@internet.is. Nafn, deild og tölvupóstfang komi fram í póstinum. Á föstudaginn verður sendur tengill á Zoom til allra þeirra sem hafa skráð sig á fundinn. Einnig munum við birta tengil á lokaðri forsíðu samtakanna á dkg.is samdægurs.
Ég hvet formenn til að sjá til þess að minnst 3-5 konur komi frá hverri deild á aðalfundinn á föstudagskvöldið.
Gögn fyrir þingið liggja frammi
Öll áskilin gögn liggja frammi á vefsíðu samtakanna dkg.is. Það væri gott að sem flestar félagskonur kynntu sér gögnin fyrir fundinn, það flýtir fyrir afgreiðslu mála. Sjá hlekk á gögnin hér:
https://www.dkg.is/is/thing-og-namskeid/landssambandsthing/lands-thing-2021
Skýrslur um starfsemina 2019-2021
Samkvæmt reglugerð samtakanna ber formönnum deilda og nefnda að skila skýrslum um starfsemina á starfstímabili stjórnar landssambandsins mánuði fyrir landssambandsþing. Sá tími er að vísu löngu liðinn, en ég minni formenn á að skila skýrslum sem allra fyrst, svo hægt sé að setja þær á vefinn okkar fyrir aðalfundinn.
Innheimta árgjalda fyrir 30. júní
Félagsárinu var breytt fyrir skömmu og er það nú frá 1. júlí til 30. júní. Félagskonum ber að greiða árleg félagsgjöld í síðasta lagi 30. júní vegna næsta starfsárs. Skv. 2. Gr. B reglugerðar samtakanna bera formenn ábyrgð á innheimtu árgjalda ásamt gjaldkerum.
Tillaga liggur fyrir aðalfundi um að árgjöld verði óbreytt á næsta starfstímabili stjórnar landssambands. Deildir hafa heimild til að leggja gjöld vegna verkefna sinna ofan á þessa upphæð. Innheimtu árgjalda lýkur 30. júní. Mikilvægt er að formenn fylgist með innheimtu og hafi samband við þær konur sem ekki greiða í tíma til að hvetja þær til að greiða árgjaldið. Félagskonur sem ekki greiða gjaldið falla af félagalista 1. október. Það er hins vegar ekki hægt að greiða árgjaldið fram til þess tíma, því skilum til alþjóðasambandsins lýkur mun fyrr.