Fréttabréf Engidalsskóla ágúst 2023
Ábyrgð - Virðing - Vellíðan
Fréttabréf Engidalsskóla
Kæru foreldrar/forsjáraðilar.
Nú styttist í skólabyrjun 2023. Við hefjum skólastarfið á samráðsfundum foreldra, nemenda og kennara þar sem farið er yfir væntingar til skólaársins og nemendur setja sér markmið í takt við aldur og þroska hvers og eins.
Fyrir nýja foreldra þá er vert að nefna að stjórnendur nýta þennan vettvang til þess að segja frá skólastarfinu, viðburðum, koma upplýsingum á framfæri er varða foreldra ásamt því að lauma að ykkur hagnýtum ráðum, leiðbeiningum og fróðleik.
Heimasíða skólans engidalsskoli.is er komin til ára sinna en ný og endurbætt heimasíða mun líta dagsins ljós á skólaárinu. Heimasíðan geymir þó mikið af hagnýtum upplýsingum og verður farið vel yfir hana á fundi með foreldrum eftir að skólastarfið byrjar.
Ekki hefur alltaf verið hægt að bjóða foreldra velkomna í skólann að hausti og erum við farin að sakna þessa. Við ætlum því að leggja frekari áherslu á foreldrasamstarf á þessu hausti með því að boða fljótlega til fundar eftir að skóli hefst þar sem farið verður yfir ýmislegt sem lítur að skólastarfinu. Einnig verður sérstök áhersla lögð á líðan nemenda þar sem fundafyrirkomulagið er eftir ákveðinni fyrirmynd sem vel hefur reynst í öðrum skólum.
Hagnýtar upplýsingar til foreldra:
Mikilvægt er að upplýsa skólann um forföll nemenda en hægt er að skrá veikindi beint inn á mentor.is auk þess sem hægt er að hringja í skólann í síma 5554433. Foreldrar geta ekki gefið leyfi í einstaka tímum og því þarf alltaf að hringja á skrifstofu skólans til þess að tilkynna leyfi.
Gæsla er í skólanum frá kl. 8:00 og kennsla hefst 8:10. Nemendur geta mætt 7:45 og fengið hafragraut að kostnaðarlausu. Grauturinn er í boði til kl. 8:05.
Þá er mikilvægt að minna á Skólamat en hægt er að kaupa bæði ávexti að morgni og hádegismat hjá þeim. Skráning fer fram í gegnum skolamat.is , en þar er líka hægt að sjá matseðil næstu viku. Sé barn með ofnæmi, óþol eða einhverjar sérþarfir varðandi mat er mikilvægt að láta vita af því, þar sem Skólamatur reynir eftir fremsta megni að koma til móts við þarfir hvers og eins. Við leggjum sérstaka áherslu á að þau börn sem ekki verða í mataráskrift komi með hollt og næringarríkt nesti sem laust er við hnetur (sjá leiðbeiningar um nesti hér neðar í fréttabréfinu).
Engidalsskóli er heilsueflandi skóli og það birtist meðal annars í meiri hreyfingu, lengri útivist, aukinni geðrækt og áherslum á hollt og gott nesti. Við hvetjum foreldra til að passa upp á að nemendur fái nægan svefn og hvetjum starfsfólk, nemendur og foreldra til þess að ganga eða hjóla í skólann ef kostur er.
Við hlökkum til þess að sjá skólagangana fyllast af lífi og vonumst til ánægjulegs og farsæls samstarfs við ykkur foreldra/forsjáraðila.
Með bestu kveðju,
Skólastjórnendur Engidalsskóla.
Uppeldi til ábyrgðar, Skýru mörkin
Haustið 2021 hóf Engidalsskóli innleiðingu á uppeldisstefnunni Uppeldi til ábyrgðar. Innleiðingin hefur gengið vel og munum við halda henni áfram á þessu skólaári. Lykil spurning stefnunnar er hvernig manneskja viltu vera? Gengið er út frá því að þú sért við stjórnvölinn á eigin hegðun og þó við gerum öll mistök er mikilvægt að læra af þeim. Við forðumst ásakanir, afsakanir, skammir, tuð og uppgjöf og segjum JÁ eins oft og við getum. Það er alltaf hægt að segja já en stundum þarf þó að setja skilyrði í framhaldi, já þegar við erum búin að þessu eða þegar þú ert orðinn x gamall og svo framvegis. Reynsla okkar af síðasta vetri var góð og við hlökkum til að fara aftur yfir hlutverk hvers og eins með nemendum, skilgreina þarfir okkar og gera bekkjarsáttmála. Nánar má lesa um stefnuna á uppbygging.is
Við erum ekki með eiginlegar skólareglur en fari nemendur yfir skilgreind skýr mörk er gripið inn í og nemendum er þá vísað til skólastjórnanda sem ákveður næstu skref. Foreldrar eru boðaðir til fundar með nemendum og áætlun gerð um það sem betur má fara. Mikilvægt er að allir séu meðvitaðir um þetta.
Í Engidalsskóla viljum við:
Ekkert ofbeldi hvorki líkamlegt né andlegt
Engin barefli né önnur vopn
Engin ávana- eða fíkniefni þar með talið áfengi, tóbak og rafrettur
Engar alvarlegar ögranir eða hótanir
Engin skemmdarverk
Enga áhættuhegðun
Engan þjófnað
Holt og gott nesti fyrir hrausta og kraftmikla krakka
Engidalsskóli
Email: engidalsskoli@engidalsskoli.is
Website: https://www.engidalsskoli.is
Location: Breiðvangur 42, Hafnarfjordur, Iceland
Phone: 555 4433