Fréttabréf Flóaskóla
september 2024
Kæra skólasamfélag
Skólasetning var í Flóaskóla 23. ágúst og hófst þar með 21. starfsár hans. Skólinn er því 20 ára á árinu og stefnt er að því að halda upp á tímamótin á skólaárinu, væntanlega í janúar.
Nú þegar fyrstu vikur eru liðnar af skólastarfinu má með sanni segja að starfið fer afar vel af stað.
Í vetur verður lögð áhersla á að innleiða enn frekar teymiskennslu og leiðsagnarnám. Þá verða grunnþættir menntunar; heilbrigði og velferð, sköpun, lýðræði og mannréttindi, læsi, jafnrétti og sjálfbærni okkar leiðarljós í viðamiklum þemaverkefnum sem allur skólinn vinnur að, hvert stig með sínar áherslur og viðfangsefni. Fyrsta þemað er unnið út frá heilbrigði og velferð og nefnist: Hver er ég? Allir nemendur skólans vinna verkefni út frá þeirri nálgun og afrakstur þeirrar vinnu verður svo kynntur foreldrum í nemendastýrðum viðtölum 7. október.
Við erum að hefja að nýju samstarf við skólana í Uppsveitunum þar sem nemendur í 5.-10.bekk eru í sameiginlegum smiðjum fjórum sinnum yfir veturinn. Í þessu starfi býðst nemendum ýmiskonar fjölbreytt val sem ekki væri endilega hægt að mæta í fámennari nemendahópi. Auk þess gefst nemendum kostur á að kynnast og starfa með jafnöldrum úr nærliggjandi sveitum, hægt er að kynna sér þessa vinnu nánar með því að skoða glærurnar hér fyrir neðan.
Eins og áður hefur komið fram hafa miklar framkvæmdir staðið yfir í skólanum og á lóð hans í sumar. Það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með samstilltu átaki þeirra sem að þeim verkum hafa komið að skila öllu sem haganlegast af sér og vanda til allra verka í hvívetna. Það er dýrmætt fyrir okkur sem störfum í skólanum að finna fyrir slíkum metnaði og velvilja í garð skólans og þess starfs sem þar fer fram.
bestu kveðjur úr Flóaskóla
Þórunn Jónasdóttir skólastjóri
12.-18.september, heimsókn danskra nemenda.
13.september, Olympíuhlaup ÍSÍ
19.-20.septmber, smiðjur 8.-10. bekkja.
20.september, smiðjur 5.-7.bekkja.
23.september fara nemendur 4. bekkjar á tónleika með Sinfóníuhljómsveit Suðurlands í Stekkjaskóla á Selfossi.
26.september er skertur dagur þá fara nemendur heim með skólabílum kl 12:00.
27.september er svo starfsdagur í skólanum en frístund er opin fyrir þá nemendur sem eru skráðir í frístund.
1.október verður fræðsla fyrir 8.-10.bekk, frá Samtökunum '78 um hinseginleikann.
3.október er fyrsta samvera leik og grunnskólabarna í samstarfsverkefninu Gullin í grenndinni þá hittast 1. bekkur og elstu nemendur leikskólans í Skagási. Nemendur 1. bekkjar hafa þegar farið í eina heimsókn í leikskólann.
Smiðjur með skólunum í Uppsveitum Árnessýslu
Smiðjur á esta og miðstigi með skólunum í Uppsveitum Árnessýslu hefjast í næstu viku. Sú breyting varð á skipulagi frá útgefnu skóladagatali að smiðjur miðstigs voru færðar á föstudaga. Nemendur velja í þessari viku um fyrsta, annað og þriðja val. Reynt er að koma til móts við óskir nemenda þannig að allir fái eitthvað af því sem þeir velja. Hér fyrir neðan eru kynningar á smiðjunum.
Ruslagámar skólans við Þjórsárver
Hluti af endurskipulag skólalóðarinnar var að fá stóra ruslagáma við Þjórsárver fyrir alla starfsemi skólans, í stað þess að vera með tunnur bæði við Þjórsárver og á planinu við skólann. Okkur langar að benda á að þessir ruslagámar eru eingöngu til afnota fyrir skólann.
Bókun sveitarstjórnar Flóahrepps, frá 3.9.2024, vegna breytinga á gjaldskrá
,,Gjaldskrár í leikskóla og vegna frístundar við Flóaskóla
Fyrir liggur að hækkanir skv. vísitölu tóku gildi á gjaldskrám vegna leikskólagjalda, fæðis í leikskóla og gjalds vegna frístundar við Flóaskóla skv. útgefinni gjaldskrá. Gjaldskrár voru ekki hækkaðar 1. febrúar skv. ákvörðun sveitarstjórnar þann 9. janúar 2024.
Sveitarstjórn Flóahrepps samþykkir að hækka gjaldskrár vegna leikskólagjalda, fæðis í leikskóla og gjalds vegna frístundar við Flóaskóla um 3,5% frá 1. ágúst 2024 í stað 6,3% sem væri hækkunin ef farið væri eftir vísitölu. Er þetta í samræmi við fyrri bókanir sveitarstjórnar um áskorun til sveitarfélaga í tengslum við kjarasamninga 2024 og yfirlýsingu um stuðning ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga því tengdu. Útgefnir reikningar fyrir ágúst verða leiðréttir skv. ákvörðun sveitarstjórnar.
Samþykkt með 5 atkvæðum.“
Skólaakstur
Okkur langar að árétta svona í upphafi skóla mikilvægi þess að foreldrar láti skólabílstjóra vita ef einhverjar breytingar eru, þ.e. ef barnið fer heim með einhverjum öðrum, er sótt eða slíkt. Eins þarf alltaf að vera í sambandi við bílstjóra til ganga úr skugga um að pláss sé hjá þeim ef barnið ætlar að fara sem aukafarþegi heim með einhverjum. Svo er mikilvægt að láta bílstjóra vita af forföllum, veikindum og leyfum eins fljótt og hægt er.
Annað sem vert er að minnast á varðandi skólaaksturinn er rými heima á hlöðum hjá ykkur. Stundum er þröngt fyrir skólabílana að athafna sig og þá er mikilvægt að huga að því að skapa nægilegt rými fyrir þessa stóru bíla til að snúa við á hlaðinu.
Í tilefni af alþjóðlegum degi læsis, þann 8. september, hefur Félag læsisfræðinga á Íslandi tekið saman upplýsingar á tveimur einblöðungum með ráðleggingum um mikilvægi heimalestrar og hvernig nýta má gagnvirkan lestur til að efla lesskilning. Við vekjum athygli á að einblöðungurinn um heimalesturinn inniheldur marga hlekki á gagnlegar upplýsingasíður. Kynnið ykkur endilega PDF skjölin hér fyrir neðan.
Flóamót 2024
Hið árlega Flóamót var haldið síðasta föstudag. Þátttaka á mótinu var mjög góð og mótið í heild mjög vel heppnað. Þetta er skemmtilegt samstarfsverkefni skólans og ungmennafélagsins.
Nordplus samstarf, danskir nemendur í heimsókn 12.-18. september
12. september koma til okkar ríflega 20 nemendur frá Gudenoskulen í Danmörku. Þeir eru í samstarfi við 10. bekkingana okkar. Yfirskrift samstarfsverkefnisins þetta skólaár er Vatnið í nærumhverfi okkar.
Haustferðir nemenda
Venja er að nemendur fari í haustferðir í skólabyrjun. Ferðirnar eru liður í að kynna fyrir nemendum landið og náttúruna í þeirra nánast umhverfi auk þess sem þeim er ætlað að efla félagsfærni og félagstengsl í hópunum. 9. og 10.bekkur fór í afar vel heppnaða ferð í Þórsmörk. 8.bekkur fór í ferð með öllum áttundubekkingum í Uppsveitaskólunum. Þau byrjuðu á Úlfljótsvatni í leikjum, fóru svo í sund í Þorlákshöfn, gistu í Félagslundi og skruppu svo á Draugasetrið og enduðu ferðina í Stokkseyrarfjöru. Ferð 5.-7. bekkjar var á Flúðir. Yngsta stigið stefnir á ferð hér innan Flóahrepps en ekki hefur enn viðrað til þeirrar ferðar á þeim dögum sem lausir hafa verið til ferða. En vonir standa til að úr því rætist fljótlega.