
Fréttabréf Engidalsskóla mars 2025
Ábyrgð - Virðing - Vellíðan
Kæru foreldrar/forsjáraðilar.
Það er alltaf nóg að gera í Engidalsskóla og þó að nú sé vor í lofti er stutt síðan við fórum með miðstigið í velheppnaða skíðaferð í Bláfjöll. Nokkrir árgangar hafa farið á tónleika, í leikhús eða á leið í leikhús. Töluverður tími hefur farið í að æfa og taka þátt í litlu og stóru upplestrarkeppninni og svo eru allir farnir að undirbúa árshátíðina okkar. Árshátíð skólans verður haldin 10. og 11. apríl. Fyrri daginn bjóða nemendur yngsta stigs foreldrum og forsjáraðilum að koma á sýningu og þann 11. apríl bjóða nemendur miðstigs sínum gestum. Þessir dagar eru skertir dagar og lýkur skólastarfinu kl. 12 báða þessa dag. Frístund opnar um leið og skóla lýkur þessa daga.
Við höfum verið í tilraun með að sýna ykkur meira frá skólastarfinu í gegnum sögu (e. story) á bæði Facebook og Instagram og bara fengið góð viðbrögð við því. Þetta er einn af þeim umbótaþáttum sem við erum að vinna að til að auka upplýsingaflæðið um skólastarfið. Vonandi sjáið þið ykkur fært að fylgja okkur á þessum miðlum.
Í fyrri fréttabréfum hefur verið komið inn á innra- og ytra mat skólans. Einn þáttur í ytramati er vinnustaðargreining sem starfsmenn svara, sú nýjasta var gerð nú í janúar og febrúar og kom hún mjög vel út hjá okkur. Skólapúlsinn er annað tæki sem mælir gæði starfsins og að þessu sinni var það foreldrakönnun sem við höfum verið að kryfja. Foreldrar eru almennt ánægðir með agann í skólanum, þá þætti sem snúa að velferð nemenda og foreldrasamstarfið. Þessir þættir hafa allir verið á uppleið hjá okkur og eru langflestir komnir vel yfir landsmeðaltal. Einelti hefur minnkað mikið og er langt undir landsmeðaltali, einungis einn aðili merkir við að barnið hafi orðið fyrir einelti. Þrátt fyrir þetta koma athugasemdir við eineltisáætlun skólans og hraða við úrvinnslu mála. Þetta verður eitt af því sem við skoðum betur fyrir næsta skólaár og eru þegar komnar hugmyndir að úrbótum sem myndu auðvelda foreldrum að gera athugasemd við samskiptavanda og okkur í skólanum að vinna mál hraðar. Opnu svörin gefa okkur líka mikið af upplýsingum og þannig tækifæri til að gera betur. Einhverjir vilja fá kennslubækur oftar heim, talað var um að mæta þurfi bráðgerum börnum betur og auka fagmennsku í Álfakoti svo eitthvað sé nefnt. Við viljum þakka þeim sem sáu sér fært að svara Skólapúlsinum, það er mikilvægt fyrir okkur að fá góða svörun.
Lestur er eina heimanámið í Engidalsskóla og við hvetjum ykkur til að sinna því vel. Stundum koma erfið tímabil en þá er það þrautseigjan sem blífur, á endanum er það barnið sem græðir og stendur upp sem sigurvegarinn. Við vitum að foreldrar eru að deila með sér hugmyndum sem hafa nýst þeim við hvatningu heimalestursins á Facebook síðum bekkjanna. Flott framtak sem vonandi nýtist vel. Við hér í skólanum erum alltaf boðin og búin að leiðbeina ef eitthvað er. Hér fyrir neðan eru leiðbeiningar sem gætu nýst einhverjum. Verið óhrædd við að leita ráða, við erum í þessu saman.
Foreldrar barna í 6. bekk standa fyrir páskabingói miðvikudaginn 2. apríl kl. 18:00 og hvetjum við alla til að taka þátt í þessum skemmtilega viðburði sem er orðinn að hefð við skólann.
Páskaleyfi hefst í lok dags 11. apríl og hefst kennsla aftur samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 22. apríl.
Með bestu kveðju,
Skólastjórnendur Engidalsskóla.
Fréttir úr Álfakoti og Dalnum
Kæru foreldrar og forsjáraðilar,
Undanfarnar vikur hafa einkennst af miklu fjöri hjá okkur í Álfakoti og mikilli útiveru þar sem það hafa komið margir góðir dagar.
Í mánuðinum hefur hver árgangur farið í íþróttasal og bókasafn einu sinni til tvisvar í viku. Við höfum náð að halda uppi einhverju klúbbastarfi í febrúar og í mars þrátt fyrir manneklu og hafa börnin meðal annars verið að föndra og í armbandagerð.
Mig langar svo að hvetja foreldra til að senda póst fyrir hádegi ef barn á að fara heim á öðrum tíma en er skráð til þess að minnka álagið á símanum á meðan Álfakot er í fullu fjöri.
Nóg hefur líka verið um að vera í Dalnum þar sem að ball var haldið fyrir miðstigið sem gekk vonum framar. Einnig hafa þau verið meðal annars að fara í göngutúr í ísbúð og í kósý spilakvöld.
Að lokum langar mig að minna á skráninguna fyrir páskafrístund en hún verður opin til miðnættis 1.apríl. Ekki verður tekið við skráningum eftir þann tíma svo það er um að gera að sækja um ef þið ætlið að nýta ykkur þjónustuna. Það verður opið 08:00-16:30 14. ,15. og 16.apríl 2025.
Kær kveðja,
Arnheiður og starfsfólk Álfakots
Uppeldi til ábyrgðar - Skýr mörk Engidalsskóla
Haustið 2021 hóf Engidalsskóli innleiðingu á uppeldisstefnunni Uppeldi til ábyrgðar. Innleiðingin hefur gengið vel og munum við halda henni áfram á þessu skólaári. Lykil spurning stefnunnar er hvernig manneskja viltu vera? Gengið er út frá því að þú sért við stjórnvölinn á eigin hegðun og þó við gerum öll mistök er mikilvægt að læra af þeim. Við forðumst ásakanir, afsakanir, skammir, tuð og uppgjöf og segjum JÁ eins oft og við getum. Það er alltaf hægt að segja já en stundum þarf þó að setja skilyrði í framhaldi, já þegar við erum búin að þessu eða þegar þú ert orðinn x gamall og svo framvegis. Við förum yfir hlutverk hvers og eins með nemendum, skilgreinum þarfir okkar og gerum bekkjarsáttmála. Nánar má lesa um stefnuna á uppbygging.is
Í Engidalsskóla eru ekki skólareglur en fari nemendur yfir skilgreind skýr mörk er gripið inn í og nemendum er þá vísað til skólastjórnanda sem ákveður næstu skref. Foreldrar eru boðaðir til fundar með nemendum og áætlun gerð um það sem betur má fara. Mikilvægt er að allir séu meðvitaðir um þetta. Minniháttar atvik leysum við á svokölluðu sáttarborði.
Í Engidalsskóla viljum við:
Ekkert ofbeldi hvorki líkamlegt né andlegt
Engin barefli né önnur vopn
Engin ávanabindandi efni eða fíkniefni þar með talið áfengi, tóbak og rafrettur
Engar alvarlegar ögranir eða hótanir
Engin skemmdarverk
Enga áhættuhegðun
Engan þjófnað
Verkefni nemenda úr smiðjum
Eins og fram kom í síðasta fréttabréfi höfum við flutt myndir af verkefnum nemenda meira yfir á Instagram og Facebook, vonandi fylgið þið okkuur þar.
Holt og gott nesti fyrir hrausta og kraftmikla krakka
Engidalsskóli
Email: engidalsskoli@engidalsskoli.is
Website: https://www.engidalsskoli.is
Location: Breiðvangur 42, Hafnarfjordur, Iceland
Phone: 555 4433