

Tæknótíðindi
18. febrúar 2025
Dagsetningar framundan
- 21. febrúar - Frumsýning á leikritinu Klú
- 26. febrúar - Árshátíð TÆKNÓ og MH
- 28. febrúar - Lokar fyrir kennslumat
Árshátíð TÆKNÓ og MH
Tækniskólinn og Menntaskólinn við Hamrahlíð halda árshátíð á Hvalasafninu miðvikudaginn 26. febrúar í anda The Great Gatsby.
DJ Kollz x Viktoria Storm, Inspector Spacetime, Birnir, BlazRoca og Issi sjá um tónlistina.
Miðaverð er 4.990 kr. fyrir nemendur Tækniskólans en 5.990 kr. fyrir gesti. Nælið ykkur í miða á árshátíð!
Árshátíðarmatur Tækniskólans verður á Fosshótel Reykjavík. Ef þig langar að koma í matinn þarftu að skrá þig fyrir 12:00 miðvikudaginn 19. febrúar.
Maturinn kostar 4.000 kr. en borðhald byrjar kl. 19:00 og stendur til kl. 21:00. Hér getur þú skráð þig í árshátíðarmatinn.
Morðingi gengur laus!
Úti er snjóbylur, ekkert skyggni og mikil ókyrrð. Frú Páfugl, herra Sinnep, frú Rauð, prófessor Plóma, herra Grænn og frú Hvít eru stödd á sveitahóteli. Á hótelinu hefur verið framið morð. En hver er morðinginn?
Leikfélagið MARS frumsýnir leikrit skólaársins föstudaginn 21. febrúar. Leikritið heitir Klú og er byggt á morðgátuspilinu Clue. Leikritið gerist á sveitahóteli árið 1954 þar sem gestir og starfsfólk lenda í óvæntri atburðarás. Leiksýningarnar fara fram í hátíðarsal skólans á Háteigsvegi (Sjómannaskólahúsi).
Miðasala:
- Föstudagurinn 21. febrúar kl. 20:00 – Miðasala hér
- Laugardagurinn 22. febrúar kl. 20:00 – Miðasala hér
- Sunnudagurinn 23. febrúar kl. 19:00 – Miðasala hér
Sjúkt spjall
SJÚKÁST er forvarnarátak á vegum Stígamóta um ofbeldi í nánum samböndum ungmenna. Markmið átaksins er að ungmenni þekki lykilhugtök á borð við mörk og samþykki og geti greint muninn á heilbrigðum, óheilbrigðum og ofbeldisfullum samböndum.
Sjúktspjall
Sjúktspjall er nafnlaust netspjall fyrir ungmenni yngri en 20 ára til að ræða áhyggjur af samböndunum sínum, samskiptum eða ofbeldi.
Hvernig virkar Sjúktspjall?
Á spjallinu talar þú við Sjúkást ráðgjafa sem eru þjálfaðir af Stígamótum. Þú kemur inn á spjallið á eigin forsendum og þarft ekki að gefa upp nafn eða aðrar persónuupplýsingar. Það skiptir ekki máli hvort ofbeldið eða óheilbrigðu samskiptin áttu sér stað nýlega eða fyrir löngu síðan. Markmiðið er að hjálpa þér að skilja hvað gerðist, að þér líði betur og fáir stuðning við að taka næstu skref.
Ert þú með sumarstarf?
Starfastræti Tækniskólans hefur þann tilgang að tengja saman nemendur og fyrirtæki þegar kemur að atvinnuleit og starfsnámi.
Á síðunni má finna starfsauglýsingar frá fyrirtækjum sem eru að leita að einstaklingum í sumarstörf eða önnur störf tengd faggreinum skólans.
Nemendur sem eru að ljúka fyrsta ári í rafiðnum, byggingagreinum og málmiðnum eru sérstaklega hvattir til að huga að sumarstörfum sem tengjast náminu.
Loftlagssjóður ungs fólks
Reykjavíkurborg hefur opnað fyrir umsóknir í loftslagssjóð ungs fólks fyrir árið 2025 þar sem markmiðið er að virkja ungt fólk í leit að lausnum á loftslagsvandanum.
Skilyrðin fyrir því að fá styrk eru:
- að verkefnin séu hönnuð og unnin af ungu fólki á aldrinum 15–24 ára.
- að þau vísi á einhvern hátt í loftslagsáætlun Reykjavíkur.
Endilega kannið málið!
Forritunarkeppni grunnskólanna
Við þökkum öllum þeim frábæru þátttakendum sem heimsóttu Tækniskólann laugardaginn 15. febrúar og tóku þátt í Forritunarkeppni grunnskólanna og forritunarnámskeiði.
Alls mættu um 40 nemendur úr 9. og 10. bekkjum grunnskóla og var þetta virkilega flottur hópur sem á framtíðina fyrir sér.
Veitt voru verðlaun fyrir fyrstu þrjú sætin í keppninni og voru úrslit sem hér segir:
- 1. sæti – Gunnsteinn Þór Ólason
- 2. sæti – Magnús Kári Kristbjarnarson Bergs
- 3. sæti – Magnús Andri Maronsson
Til hamingju kæru nemendur og takk fyrir komuna!