
Fréttabréf Flóaskóla
nóvember 2024
Kæra skólasamfélag
Októbermánuður hófst með nemendaviðtölum þar sem nemendur fóru yfir afrakstur fyrsta þema vetrarins. Síðan tók við nýtt þema þar sem unnið er út frá grunnþættinum sköpun. Nemendur í yngsta stigi eru að kynna sér himingeiminn, geimfara og sögu geimferða. Þau munu ljúka sinni vinnu um miðjan nóvember með vasaljósaferð í Kolsholt. Á miðstigi er viðfangsefnið Afmælisveislan mín – grænu skrefin, eins og nafnið gefur til kynna þá eru nemendur að vinna að ýmiskonar verkefnum tengdum afmælisundirbúningi og eru með umhverfisvæn sjónarmið að leiðarljósi. Þeirra verkefni lýkur með kynningu fyrir samnemendur. Verkefni nemenda á elsta stigi er leiksýning og eru þau í óða önn að undirbúa leiksýninguna Stellu í orlofi. Sýningar verða þriðjudag og miðvikudag í síðustu viku nóvember.
Nemendur í 5. bekk eru þessa daga að líma saman langspilin sín. Um miðjan nóvember fara þau svo að læra að spila á hljóðfærin og taka þátt í langspilssveit skólans..
Föstudaginn 8.11. Er baráttudagur gegn einelti, þann dag eru samkvæmt venju haldnir Vinaleikar í Flóaskóla, þá hittast vinabekkir og verja saman tíma við nám og leik þar sem áherslan er lögð samvinnu og góð samskipti. Skipulag vinabekkjanna er þannig að 1. og 6. bekkur vinna saman og helst sú samvinna alveg þar til bekkirnir eru í 5. og 10. bekk.
20. nóvember eigum við von á fulltrúum Landverndar því komið er að því að afhenda okkur nýjan grænfána.
Elsta stigið lýkur svo nóvembermánuði í Menningarferð í Reykjavík með skólunum í Uppsveitum Árnessýslu. Lagt verður upp á fimmtudagsmorgni og komið heim um miðjan dag á föstudegi. Nánari upplýsingar verða sendar heim til unglinganna þegar nær dregur. Miðstigið fer í Flúðaskóla, á skólatíma, föstudaginn 29. nóvember í smiðjur.
Kvenfélag Villingaholtshrepps hefur tilkynnt okkur að félagið ætli að færa skólanum veglega gjöf í tilefni 20 ára afmælisins. Gjöfin er 800.000 kr og er hugmyndin að hún gangi upp í kostnað við að kaupa klifurgrind á lóðina þar sem kastalinn var. En hann var rifinn í sumar enda orðinn lúinn og laskaður. Klifurgrindin er hugsuð til að efla alla okkar nemendur í hreyfifærni og undirbúa framtíðar skólahreystikappa af öllum kynjum. Upphæðin nær að greiða fyrir um það bil 1/3 áætlaðs kostnaðar. Við þökkum kvenfélaginu kærlega fyrir þessa rausnarlegu gjöf.
bestu kveðjur úr Flóaskóla
Þórunn Jónasdóttir
skólastjóri
Danskennsla
Dansinn hefur dunað í Þjórsárveri síðustu daga. Jón Pétur danskennari er búinn að vera í sinni árlegu heimsókn hjá okkur og hefur hann stýrt nemendum í rokk og ræl af stakri snilli. Uppskeruhátíð dansins var svo eftir hádegið 31.10. þar sem foreldrum og aðstandendum bauðst að koma og fylgjast með dansinum.
Jólatónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands
Í desember taka langspilsnemendur í 5.-10. bekk þátt í metnaðarfullu verkefni með Sinfóníuhljómsveit Íslands. En þá taka þau þátt í jólatónleikum Sinfóníunnar í Hörpu. Fernir tónleikar verða haldnir helgina 14.-15. desember og hægt er að panta miða á tix.is, https://www.sinfonia.is/tonleikar-og-midasala/2024/12/15 Það er mikill heiður fyrir langspilshópinn okkar að fá tækifæri til að taka þátt í þessum tónleikum en þeir eru einhver stærsti viðburður Sinfóníuhljómsveitarinnar ár hvert og er miklu tjaldað til.
Íslenska æskulýðsrannsóknin í Flóaskóla
Á síðustu vorönn var Íslenska æskulýðsrannsóknin (ÍÆ) lögð fyrir nemendur í 4.─10. bekk. Menntavísindastofnun Háskóla Íslands framkvæmdi rannsóknina fyrir Mennta- og barnamálaráðuneytið á grundvelli æskulýðslaga nr. 70/2007. Niðurstöður rannsóknarinnar eru mikilvægar upplýsingar um farsæld barna á Íslandi.
Markmið rannsóknarinnar er að auka þekkingu og skilning á heilsu, líðan, viðhorfum og aðstæðum grunnskólabarna á Íslandi. Spurt var um ýmsa þætti sem snúa að þeirra eigin velferð, sýn á eigin skólagöngu, félagstengsl, íþrótta og tómstundaiðkun, eigið heilbrigði og samfélags- og efnahagslega stöðu. Í eldri bekkjum grunnskóla er jafnframt spurt um þætti sem snúa að áhættuhegðun og ofbeldi.
Nú liggja fyrir niðurstöður rannsóknarinnar og fylgja helstu niður stöður fyrir Flóaskóla hér með í PDF skjali. Þar eru niðurstöður nemenda í Flóaskóla bornar saman við jafnaldra á landsvísu. Almennt eru niðurstöður frekar jákvæðar og benda til að nemendum líði vel. Þeir virðast flestir geta leitað til fullorðinna bæði í skóla og heima og geta fengið stuðning á báðum stöðum. En ég hvet ykkur til að skoða helstu niðurstöður í skjalinu hér fyrir neðan.