
Fréttabréf Grenivíkurskóla
6. tbl. 6. árg. - júní 2025
Kæra skólasamfélag
Þá er skólaárinu lokið og langþráð sumarfrí tekið við, sem verður vonandi sólríkt og skemmtilegt, þótt ekki viðri sérlega skemmtilega akkúrat þegar þetta er skrifað!
Síðasti mánuður skólaársins var að vanda fjörugur og skemmtilegur. Runólfur, kveðjuhátíð 10. bekkjar, var á sínum stað, við vorum með fjölmenningarviku, nemendur fóru í hjólatúra, skemmtu sér á útivistardögum og ótal margt fleira. Grenivíkurskóla var svo slitið föstudaginn 30. maí sl. Um eitthvað af þessu má lesa nánar hér að neðan, en einnig má finna myndir úr skólastarfinu neðst í fréttabréfinu.
Skóli hefst á nýjan leik að loknu sumarfríi þann 25. ágúst næstkomandi. Hér má skoða skóladagatal komandi skólaárs.
Fyrir hönd starfsfólks skólans þakka ég ykkur fyrir liðið skólaár og óska ykkur gleðilegs sumars!
Með kveðju úr skólanum,
Þorgeir Rúnar Finnsson
skólastjóri Grenivíkurskóla
Skólaslit og útskrift nemenda í 10. bekk
Skólaslit Grenivíkurskóla fóru fram þann 30. maí síðastliðinn. Athöfnin var skemmtileg, nemendur fluttu tónlistaratriði og fulltrúi útskriftarnemenda, Hilmar Mikael, flutti skemmtilega ræðu. Við lok skólaslitanna fluttu nemendur og starfsfólk skólans svo lagið "Þannig týnist tíminn", en þau Aníta, Móeiður Alma, Katla Eyfjörð, Björg Guðrún og Ari Logi skipuðu hljómsveit sem spilaði undir.
Átta nemendur útskrifuðust úr 10. bekk að þessu sinni og verður eftirsjá að þeim flotta hópi. Við óskum útskriftarnemendum og fjölskyldum þeirra til hamingju með tímamótin og hlökkum til að fylgjast með þeim í framtíðinni.
Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar
Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í 7. bekk var haldin í Laugarborg í Eyjafjarðarsveit þann 7. maí, en þangað mættu lesarar frá Grenivíkurskóla, Þelamerkurskóla, Hrafnagilsskóla, Dalvíkurskóla og Grunnskóla Fjallabyggðar. Keppendur stóðu sig allir með mikilli prýði og svo fór að fulltrúar Grenivíkurskóla, Ari Logi og Angantýr Magni, röðuðu sér í tvö efstu sætin. Angantýr varð í öðru sæti og Ari Logi stóð uppi sem sigurvegari. Við óskum þeim, og Hóbbu kennara, til hamingju með frábæran árangur!
Fjölmenningarvika
Dagana 12.-16. maí var haldin fjölmenningarvika í Grenivíkurskóla. Þá var nemendum skólans skipt í hópa, þvert á bekki, og hver og einn hópur vann verkefni um eitt land sem hefur tengingu við skólann. Löndin sem fjallað var um voru Ísland, Danmörk, Svíþjóð, Nýja-Sjáland, Þýskaland, Bandaríkin, Pólland og Sri Lanka. Nemendur stóðu sig vel í verkefnavinnunni og hóparnir kynntu svo afrakstur vinnunnar í samverustundum.
Þá fengum við einnig að gæða okkur á mat frá annars vegar Póllandi og hins vegar Sri Lanka, en þær Alicja, Emilia og Sujani komu og töfruðu fram kræsingar frá Póllandi og Sri Lanka. Smakkaðist maturinn afar vel og vakti mikla lukku og færum við þeim bestu þakkir fyrir að elda fyrir okkur!
Runólfur
Runólfur, kveðjuhátið 10. bekkjar, var haldin þann 27. maí síðastliðinn. Runólfur á sér langa sögu, en á þessari hátíð eru nemendur 10. bekkjar í sviðsljósinu og eru það samnemendur þeirra á unglingastigi, ásamt kennurum, sem sjá um að undirbúa daginn. Hátíðin var hin besta skemmtun, farið var í leiki, sagðar sögur og ljúffengar veitingar voru á boðstólum.
Grænfáninn
Í grænfánadálki fréttabréfsins í vetur verður sjónum meðal annars beint að hinum ýmsu hugtökum sem varða umhverfisnefnd.
Hugtak júnímánaðar er válisti. Válisti er skrá yfir lífverur sem eiga undir högg að sækja eða eru í útrýmingarhættu. Á Íslandi hafa verið gefnir út válistar fyrir plöntur, fugla og spendýr.
Heilsueflandi skóli
Dagatal Velvirk fyrir þennan mánuð ber yfirskriftina "gleðiríki júní". Á dagatalinu má finna ýmsar tillögur sem eru í anda þess sem rannsóknir hafa sýnt að geti hjálpað fólki að lifa hamingjuríkara lífi, svo sem að gefa af sér, tengjast öðrum, finna tilgang, leika sér og njóta augnabliksins.
Smellið hér til að sjá útprentanlegt pdf-skjal með dagatalinu.
Myndir úr skólastarfinu
Á döfinni í ágúst
- Skólasetning bla bla.
Útgefandi: Grenivíkurskóli
Ábyrgðarmaður: Skólastjóri Grenivíkurskóla
Tölvupóstur: grenivikurskoli@grenivikurskoli.is
Heimasíða: http://www.grenivikurskoli.is
Sími: 414-5413
Facebook: Grenivíkurskóli