
Fréttabréf Grenivíkurskóla
2. tbl. 6. árg. - febrúar 2025
Kæra skólasamfélag
Þá er fyrsti mánuður ársins liðinn og birtustundunum fer fjölgandi með hverjum deginum sem líður. Framundan er febrúar, stysti mánuður ársins, en þó er nóg um að vera í skólanum að vanda.
Til að mynda verða nemendastýrð viðtöl um miðjan mánuðinn, nánar tiltekið miðvikudaginn 12. febrúar og fimmtudaginn 13. febrúar. Að þessu sinni breytum við aðeins til og eru viðtalsdagarnir tveir. Nemendum verður skipt í tvo hópa og kemur annar hópurinn í viðtal hvorn daginn, en hinn daginn mætir hópurinn í stöðvavinnu, fær hádegismat og fer heim að honum loknum. Farið verður betur yfir skipulag þessara daga þegar nær dregur.
Þá er ágætt að minna strax á að fyrstu vikuna í mars er vetrarfrí í skólanum. Mánudaginn 3. mars og þriðjudaginn 4. mars eru starfsdagar, en vetrarfríið sjálft er svo frá 5.-7. mars. Nemendur eru því í fríi alla þessu viku, en starfsfólk skólans nýtir tímann í námsferð til Frakklands þar sem við munum heimsækja skóla og fá fjölbreytta og skemmtilega fræðslu.
Að lokum minni ég á að alltaf er hægt að hafa samband við skólastjóra eða umsjónarkennara ef spurningar vakna um nám, líðan og velferð nemenda, og hvetjum við ykkur til að vera í sambandi ef einhverjar áhyggjur vakna þar að lútandi. Enn fremur er hægt að hafa samband við tengilið farsældar, Guðrúnu Árnadóttur, en nánar er vikið að því hér neðar í fréttabréfinu.
Með kveðju úr skólanum,
Þorgeir Rúnar Finnsson
skólastjóri Grenivíkurskóla
Þorrablót
Nemendur og starfsfólk Grenivíkurskóla tóku forskot á sæluna fimmtudaginn 23. janúar sl. og slógu upp þorrablóti í skólanum. Það er skemmst frá því að segja að þorrablótið var einkar vel heppnað. Nemendur á unglingastigi fluttu pistil, þar sem farið var yfir það helsta sem gerðist á árinu 2024 með spaugilegum hætti, miðstigið bauð í bingó með veglegum vinningum, og yngsta stig hafði sett saman mjög skemmtilegt kennaragrín.
Kennarar settu svo lítinn leikþátt á svið og að sjálfsögðu var hefðbundinn þorramatur á boðstólum. Að lokum var slegið upp balli í íþróttasalnum þar sem við dönsuðum saman Kokkinn, Fugladansinn og fleiri skemmtilega dansa, sem höfðu einmitt verið æfðir í sameiginlegum hreyfistundum í janúar.
Vel heppnaður dagur og verður gaman að endurtaka leikinn að ári!
Farsæld barna
Eins og mörg ykkar hafa líklega tekið eftir að þá hefur undanfarið verið í gangi auglýsingaherferð sem ætlað er að vekja athygli á farsældarlögunum, eða lögum um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna, eins og þau heita fullu nafni. Lögin eiga að tryggja skipulag og samfellu og hafa það markmið að skapa heildarsýn og ramma um þau þjónustukerfi sem skipta mestu máli fyrir farsæld barna. Allar upplýsingar um farsældarlögin má sjá á heimasíðunni Farsæld barna.
Eitt af aðalatriðunum í farsældarlögunum er það að öll börn - og foreldrar - hafa aðgang að tengilið farsældar. Hér í Grenivíkurskóla er Guðrún Árnadóttir tengiliður farsældar og foreldrum ávallt velkomið að hafa samband við hana, eða skólastjóra, til að fá upplýsingar um farsældarlögin og þá þjónustu og þau úrræði sem í boði eru. Við hvetjum ykkur til þess að hafa ávallt samband ef og þegar áhyggjur kvikna varðandi ykkar barn, því saman getum við leitað leiða til að bæta þar úr.
Einnig stendur til að kynna hlutverk tengiliðar skólans betur fyrir nemendum sjálfum og munum við gera það á næstu dögum og vikum.
Grænfáninn
Í grænfánadálki fréttabréfsins í vetur verður sjónum meðal annars beint að hinum ýmsu hugtökum sem varða umhverfisnefnd.
Hugtak febrúarmánaðar er ofnýting auðlinda. Mannkynið er háð því að nýta sér náttúruauðlindir til að lifa af. Þegar við nýtum þessar auðlindir hins vegar hraðar og meira en náttúran getur endurnýjað þær erum við að ofnýta náttúruauðlindir. Eftir iðnbyltinguna, sem hófst síðla á 18. öld, varð gríðarleg fólksfjölgun og aukin framleiðsla. Það hafði sérstaklega mikið áhrif á það að maðurinn fór að taka of mikið, veiða of mikið og nýta of mikið. Þessi ofveiði og ósjálfbæra nýting mannsins á auðlindum hefur víða haft afgerandi slæm áhrif á náttúru og vistkerfin, líka á Íslandi. Ofveiði á sér stað þegar við veiðum of mikið af ákveðinni tegund eða stofni á ákveðnu svæði þannig að stofnin getur ekki viðhaldi sinni stærð heldur minnkar sífellt meira.
Ofveiði og ofnýting auðlinda er ein af fimm helstu ógnum í heiminum við lífbreytileika og er ásamt notkun jarðefnaeldsneytis rót vandans varðandi loftslagsbreytingar.
Heilsueflandi skóli
Dagatal Velvirk fyrir þennan mánuð ber yfirskriftina "vinalegur febrúar". Á dagatalinu má finna ýmsar tillögur sem eru í anda þess sem rannsóknir hafa sýnt að geti hjálpað fólki að lifa hamingjuríkara lífi, svo sem að gefa af sér, tengjast öðrum, finna tilgang, leika sér og njóta augnabliksins.
Smellið hér til að sjá útprentanlegt pdf-skjal með dagatalinu.
Myndir úr skólastarfinu
Á döfinni í febrúar
- 3.-7. febrúar: Opin vika í Tónlistarskóla Eyjafjarðar.
- 6. febrúar: Leiksýning nemenda í leiklistarvali. Dagur leikskólans.
- 7. febrúar: Dagur tónlistarskólans.
- 11. febrúar: Dagur íslenska táknmálsins.
- 12. febrúar: Viðtalsdagur / uppbrotsdagur.
- 13. febrúar: Viðtalsdagur / uppbrotsdagur.
- 14. febrúar: Þorgrímur Þráinsson kemur með fræðslu og fyrirlestra fyrir miðstig og unglingastig.
- 23. febrúar: Konudagur - upphaf Góu.
Matseðill
Útgefandi: Grenivíkurskóli
Ábyrgðarmaður: Skólastjóri Grenivíkurskóla
Tölvupóstur: grenivikurskoli@grenivikurskoli.is
Heimasíða: http://www.grenivikurskoli.is
Sími: 414-5413
Facebook: Grenivíkurskóli