DJÚPAVOGSSKÓLI
FRÉTTIR ÚR SKÓLASTARFI
FEBRÚAR 2022
24.febrúar - Vetrarfrí
25.febrúar - Vetrarfrí
28.febrúar - Bolludagur og foreldrafundur þar sem allir geta komið saman.
MARS 2022
Margir viðburðir og margt að gerast hjá okkur í mars.
- 1.mars - Sprengidagur, nemendur í 7.bekk í Djúpavogsskóla keppa í upplestri.
- 2.mars - Öskudagur - húllumhæ og búningadagur.
(8.-10.mars eru samræmdpróf í 9.bekk á skóladagatali, allt skipulag í kringum samræmdpróf hefur verið í endurskoðun og erfitt að fá skýr svör frá Menntamálastofnum hver staðan er. Við verðum bara að bíða róleg og sjá hvað verður).
- 11.mars - Starfsfólk Grunnskóla Hornafjarðar kemur í skólaheimsókn til okkar.
- 14.mars - Dagur stærðfræðinnar.
- 15.mars - Kvikmyndasmiðja á vegum bókasafna í Múlaþingi (nánar auglýst síðar).
- 16.mars - Stóra upplestrarkeppnin haldin í Grunnskóla Hornafjarðar.
- 22.mars - 1.-4.bekkur sýnir árshátíðar verkið sitt (Lion king).
- 23.mars - Árshátíðar undirbúningur hjá 5.-10.bekk.
- 24.mars - 5.-10.bekkur sýnir árshátíðar verkið sitt (Lion king).
- 25.mars - Árshátíðar frágangur.
Fyrir utan þetta fáum við ýmsa sérfræðinga í hús s.s. kennsluráðgjafa frá Skólaskrifstofu Múlaþings, kennsluráðgjafi verður kennurum og starfsfólki til ráðgjafar með það að markmiði að efla faglega kennslu. Austurlandsteymið aðstoðar okkur eins og áður og kennarar og starfsfólk sinna endurmenntun undir leiðsögn Háskólans á Akureyri.
Auk þess verður Pisakönnun lögð fyrir nemendur í 10.bekk.
Svo förum við bara að huga að páskafríinu okkar :)
NÆSTA VIKA
Mánudagur 21.febrúar
- Eftir hefðbundinn kennsludag sinna kennarar endurmenntun og skólaþróun.
Þriðjudagur 22.febrúar
- Teymin skipuleggja kennslu og Austurlandsteymið kemur í heimsókn.
Miðvikudagur 23.febrúar
- Förum hress og kát inn í gott vetrarfrí.
Fimmtudagur 24.febrúar - VETRARFRÍ
Föstudagur 25.febrúar - VETRARFRÍ
Mánudagur 28.febrúar - Bolludagur og fundur með foreldrum
- Mætum hress eftir gott vetrarfrí, tilbúin í bolludaginn, fiskibollur í matinn og rjómabollur í nesti.
- Foreldrafundur kl. 19:30 í grunnskólanum.
MATSEÐILL ÚT FEBRÚAR
FUNDUR MEÐ FORELDRUM 28.FEBRÚAR Í SKÓLANUM
Mánudaginn 28.febrúar kl. 19:30 - 21:00.
Upplagt að enda bolludaginn á góðu spjalli og ræða skólamál :)
BREYTINGAR Í UNGLINGADEILD
Í teymiskennslu gengur allt út á samvinnu. Kennarar og starfsfólk undirbýr kennsluna saman á teymisfundum og í sínum undirbúningstíma. Allir hjálpast að við að láta forföll og annað daglegt skipulag ganga upp.
Í hverju teymi eru svo 2-3 umsjónarkennarar sem sjá um heildar skipulag nemenda í hverju teymi.
Á unglingastigi hafa Lilja og Karen séð um umsjón, í dag er síðasti dagurinn hjá henni Karen í bili en hún er á leið í fæðingarorlof. Frá og með mánudeginum ætlar Hafrún að stíga inn fyrir Karen og það verða því Lilja og Hafrún sem sjá um umsjón í unglingadeild fram á vor.
STÓRA UPPLESTRARKEPPNIN
Nú hafa orðið breytingar á heildarskipulagi keppninar, nýir aðilar hafa tekið við keppninni og á sama tíma erum við sameinuð Múlaþingi og því í ýmiskonar samstarfi við grunnskólana þar.
Eftir að hafa rætt málið við þá sem að því koma var ákveðið að Djúpavogsskóli heldur áfram samstarfinu sínu við Grunnskóla Hornafjarðar, enda frábært samstaf sem komin er löng hefð á, fyrirkomulag keppninnar í ár, verður því með svipuðum hætti og áður.
Nemendur í 7.bekk Djúpavogsskóla keppa sín á milli, María Dögg umsjónarkennari þeirra sér um það skipulag. Þeir nemendur sem komast áfram hjá okkur keppa svo við nemendur í Grunnskóla Hornafjarðar.
Fyrir ári síðan var keppnin haldin hjá okkur og við unnum :) nú er komið að hornfirðingum að halda keppnina og við förum því til þeirra með okkar fylgdarlið þann 16.mars n.k....spennandi keppni og frábært að sjá og heyra hvað nemendur eru spenntir fyrir verkefninu.
SKÓLAÞRÓUN
LEIÐSAGNARNÁM - LYKILL AÐ ÁRANGRI
Djúpavogsskóli tekur þátt í mjög áhugaverðu verkefni sem er í samstarfi við grunnskóla Múlaþings og Miðstöð skólaþróunnar háskólans á Akureyri.
Markmið með þróunarverkefninu er að styðja skólastjórnendur og kennara í skólum Múlaþings við þróun náms- og kennsluhátta þar sem lögð er áhersla á leiðsagnarnám í daglegu skólastarfi.
Verkefnið skiptist í sex annir þar sem eitt viðfangsefni verður í brennidepli á hverri önn. Áhersla verður lögð á tækifæri til ígrundunar og samræðna og að stuðningur frá ráðgjöfum MSHA miðist við stöðu og þarfir hvers skóla eða kennarateymis.
ÁLFUR
Núna er ERASMUS+ verkefnið ELF, eða Álfur eins og við köllum það, komið á fulla ferð. Verið er að hanna app sem nemendur nota utandyra í náttúruvísindum. Hugmyndin er að appið muni virka þannig að nemendur fara á milli staðsetningarpunkta í umhverfi Djúpavogs og á hverjum stað birtist álfur sem gefur þeim upplýsingar um náttúruvísindi sem tengjast staðnum. Einnig verður hægt að svara spuringum, fara í leiki og safna stigum svo eitthvað sé nefnt.
Sérstök áhersla verður lögð á að tengja námsefnið, leiki og fleira við Cittáslow námskrá skólans. Hugmyndin er að flétta inn í námsefnið menningarsögu og hæglætisæfingum.
Þrír kennarar Djúpavogsskóla taka formlega þátt í þróuninni, þetta eru Íris Birgisdóttir sem heldur utan um staðsetningarpunktana og textann sem fylgir þeim, Hildur og Marta sjá svo um að leiðbeina nemendum með listrænu hliðina. Fleiri munu koma að verkefninu þegar á líður.
Nemendur í Djúpavogsskóla taka þátt í þróun appsins með því að hanna útlit álfa og koma með tillögur að einkennismerki appsins. Frá og með næsta hausti munu nemendur líka taka þátt í að prófa appið og koma með tillögur um hvernig megi bæta það.
Þegar appið verður tilbúið fá nemendur og kennarar námskeið í að nota appið til að búa til sína eigin slóð, leiki og verkefni í appinu.
Verkefninu líkur í nóvember á þessu ári.
Samstarfsaðilar Djúpavogsskóla í verkefninu eru Signý Óskarsdóttir frá Creatrix og Eero Elenerum frá YSBF í Eistlandi.
Við munum reglulega senda ykkur upplýsingar um framvindu verkefnisins hér í gegnum vikufréttir.
Signý
Þessar flottu stelpur, Eyrún og Karólína eru búnar með peningabuddurnar sínar í textíltímum hjá Hildi og allt unnið með sjálfbærni að leiðarljósi :)
Vel gert hjá þeim.
Bestu kveðjur og góða helgi.
Starfsfólk Djúpavogsskóla