Fréttabréf Engidalsskóla feb 2024
Ábyrgð - Virðing - Vellíðan
Fréttabréf Engidalsskóla
Kæru foreldrar/forsjáraðilar.
Febrúar hefur flogið áfram og þó hann telji fæsta daga allra mánaða voru margir uppbrots- og frídagar í honum svo sem öskudagur, skíðaferð 4. bekkjar, vetrarfrí, starfsdagur og foreldrasamráð. Í febrúar tókum við líka þátt í Lífshlaupinu í fyrsta sinn með nemendum og var árangurinn ágætur eða 5. sæti í flokki skóla með 90-299 nemendur. Við lærðum heilmikið á þessu og vitum hvað við þurfum að gera betur til að ná enn betri árangri.
Í janúar könnuðum við hug foreldra til skólabyrjunar að morgni, skólasetningar, foreldrasamráðs og haustfundar. Áttatíu og einn aðili svaraði könnuninni og þó við hefðum viljað fá betri svörun erum við að taka mið af þessum niðurstöðum varðandi skipulagið næsta vetur. Örlítill meirihluti vill seinka skólabyrjun á morgnanna og erum við að skoða það. Foreldrasamráðsdögum verður fækkað um einn og samtalið að vori verður fellt niður á næsta skólaári. Skólasetning verður áfram rafræn og nemendur hitta umsjónarkennara með foreldrum/forsjáraðilum daginn sem skólinn verður settur. Þá virðist hafa verið ánægja með líðanfundina og munum við endurtaka þá næsta vetur.
Foreldrar eru alltaf velkomnir í heimsókn í skólann en því miður geta þeir ekki gengið að því vísu að kennarar geti talað við þá þegar þeir mæta. Kennslan gengur fyrir öllu og truflar það kennslu þegar foreldrar koma og vilja ræða við þá þegar kennslustund er byrjuð og biðjum við ykkur að virða það. Best er að gera vart við sig á skrifstofu skólans og starfsmaður kemur til aðstoðar. Ekki eru skipulagðir fundartímar kennara en alltaf hægt að hringja og biðja fyrir skilaboð og/eða senda tölvupóst og kennarar hafa samband síðar. Ef koma þarf dóti til nemenda er best að setja sig í samband við skrifstofu sem sér um að koma því áfram.
Við viljum vekja athygli foreldrar/forsjáraðila á að skólanámskrá Engidalsskóla er mjög aðgengileg á heimasíðu skólans. Mikið af gagnlegu efni um skólastarfið er að finn í henni og til að auðvelda uppflettingu er henni skipt í þrjá hluta, almennan hluta 1 og 2 og svo niður á námsgreinar hvers og eins árgangs.
Mars er handan við hornið og byrjum við hann á skíðaferð miðstigs strax 1. mars. Foreldrar hafa fengið sendar upplýsingar um hana frá íþróttakennara.
Í næstu viku mun Stella B Kristinsdóttir, fagstjóri forvarna- og frístundastarfs í Hafnarfirði kynna niðurstöður rannsóknarinnar Krakkarnir í hverfinu, hagir og líðan nemenda í 5.-7. bekk.
Þriðjudaginn 5. mars fyrir foreldra/forsjáraðila 5. bekkjar (sennilega í bekkjarstofu 6. bekkjar númer 24)
Miðvikudaginn 6. mars fyrir foreldra/forsjáraðila 6. bekkjar í stofu 6. bekkjar
Fimmtudaginn 7. mars fyrir foreldra 7. bekkjar í stofu 7. bekkjar númer 6-8
Við vonum að sem flestir sjái sér fært að mæta. Gert er ráð fyrir um 30 mín kynningu og einhverjum tíma fyrir spurningar og spjall.
Skólakeppni Stóru upplestrarkeppnninar verður í skólanum miðvikudaginn 6. mars en þangað er foreldrum þeirra átta nemenda sem komust áfram upp úr undankeppninni boðið til að hlýða á.
Síðasti dagur fyrir páskafrí er svo 22. mars.
Með bestu kveðju,
Skólastjórnendur Engidalsskóla.
Skíðaferð 4. bekkjar
4. bekkur skellti sér á skíði í febrúar - innanbæjar í Grafarvogs brekkuna.
Stemningin var frábær og mikil gleði í hópnum með ferðina.
Heitt kakó í lokin vakti mikla lukku og gott fyrir kalda kroppa.
Skíði, snjóbretti og sleðar komu með í rútuna og gilti engu hvort krakkarnir voru vanir eða ekki, allir spreyttu sig og nutu samverunnar og útivistar
Árangur skólans á lesfimiprófi í janúar
Fréttir úr Álfakoti
Febrúar var aldeilis fjölbreytilegur hjá okkur þetta árið! Við vorum með tvær lengdar viðverur og svo auðvitað öskudaginn þar sem börnin komu til okkar eftir hádegismat.
Við reyndum að hafa dagskrána fjölbreytta í lengdu viðverunum, með mismunandi stöðvavinnu og vali. Á öskudaginn buðum við uppá ratleik um skólann og öskudagsball í íþróttasal og ég held að flest, ef ekki öll börnin, hafi skemmt sér konunglega hjá okkur.
Við höfum einnig komið á klúbbastarfi á föstudögum sem hefur gengið misvel á milli árganga en við erum svona hægt og rólega að finna út úr því hvernig best sé að hafa þetta þannig að það höfði til sem flestra.
Álfakot verður opið í dymbilvikunni dagana 25., 26. og 27.mars og mun ég opna fyrir skráningu fljótlega eftir mánaðarmót.
Kær kveðja, Magnea
Fréttir úr Dalnum
Það hefur verið svolítil starfsmannavelta hjá okkur í Dalnum í febrúar en fer vonandi að komast í fastar skorður. Febrúar var mjög skemmtilegur hjá okkur í félagsmiðstöðinni. Við vorum t.d. með keppni um versta nammið og komu krakkarnir með ýmislegt miskræsilegt eins og rommkúlur og steiktar engisprettur svo eitthvað sé nefnt. Á öskudaginn var búningakeppni og voru þó nokkrir sem mættu í skemmtilegum múnderingum.
Þann 15. mars næstkomandi, verður skákmót fyrir miðstig allra skóla í Hafnarfirði. Hver skóli sendir frá sér skáksveit með 6 nemendum ásamt liðsstjóra, sem keppa fyrir hönd skólans. Við ætlum að halda innanhús mót fyrir miðstigið í Dalnum, þriðjudaginn 5. mars þannig að við hvetjum öll sem hafa áhuga, á að mæta og taka þátt. Það er auðvitað líka í boði að mæta bara til að fylgjast með.
Annað sem mig langar að koma á framfæri, nemendur eru mjög mikið að hanga í símanum í Dalnum. Engidalsskóli er símalaus skóli og ég spurðist fyrir um hvernig þetta væri hjá hinum símalausu skólunum í Hafnarfirði og þar eru símar almennt ekki leyfðir í félagsmiðstöðinni hjá miðstigi í samræmi við reglur skólans. Það er spurning hvort við starfsfólkið, í sameiningu við ykkur foreldra og nemendur tökum ekki höndum saman í þessu máli. Nemendur hafa einnig verið að kvarta yfir því að það sé ekkert gaman að koma því allir séu bara í símanum.
Annars þökkum við fyrir góðan febrúarmánuð og hlökkum til þess næsta!
Kær kveðja, Magnea og starfsfólk Dalsins.
Skýr mörk Egidalsskóla
Í Engidalsskóla eru ekki skólareglur en fari nemendur yfir skilgreind skýr mörk er gripið inn í og nemendum er þá vísað til skólastjórnanda sem ákveður næstu skref. Foreldrar eru boðaðir til fundar með nemendum og áætlun gerð um það sem betur má fara. Mikilvægt er að allir séu meðvitaðir um þetta. Minniháttar atvik leysum við á svokölluðu sáttarborði.
Í Engidalsskóla viljum við:
Ekkert ofbeldi hvorki líkamlegt né andlegt
Engin barefli né önnur vopn
Engin ávana- eða fíkniefni þar með talið áfengi, tóbak og rafrettur
Engar alvarlegar ögranir eða hótanir
Engin skemmdarverk
Enga áhættuhegðun
Engan þjófnað
Öskudagur í Engidalsskóla
Verkefni nemenda úr smiðjum
Holt og gott nesti fyrir hrausta og kraftmikla krakka
Engidalsskóli
Email: engidalsskoli@engidalsskoli.is
Website: https://www.engidalsskoli.is
Location: Breiðvangur 42, Hafnarfjordur, Iceland
Phone: 555 4433