
Fréttabréf Grenivíkurskóla
2. tbl. 1. árg. - október 2020
Kæra skólasamfélag
Kórónaveirufaraldurinn heldur áfram að hrella heimsbyggðina og fyrirséð að þannig verði það næstu vikur og mánuði. Eins og fram hefur komið pössum við vel upp á þrif og sóttvarnir hér í skólanum og hvetjum nemendur og starfsfólk til að huga vel að persónubundnum smitvörnum. Áfram verðum við að óska eftir því að foreldrar og forráðamenn komi ekki í skólann nema nauðsyn krefji, en bendum á að ávallt er hægt að hafa samband í síma eða í gegnum tölvupóst.
Framundan í október er t.d. danskennsla sem lýkur með danssýningu þann 30. október (ef aðstæður leyfa), fræðsla um Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna og ýmislegt fleira.
Með kveðju úr skólanum,
Þorgeir Rúnar Finnsson
skólastjóri Grenivíkurskóla
Danskennsla hafin
Dansinn dunar í Grenivíkurskóla þessar vikurnar, en Elín Halldórsdóttir, danskennari, kemur til okkar einu sinni í viku og kennir nemendum hina ýmsu dansa. Stefnt er að því að danskennslunni ljúki með danssýningu þann 30. október næskomandi, en það fer þó líkt og annað eftir því hvernig aðstæður í samfélaginu verða.
Grenivíkurskóli var á iði í september!
Við ætlum svo að taka aðra tilraunaviku í verkefninu "Míla á dag", dagana 5.-9. október nk.
10 húsráð gegn matarsóun
Á heimsvísu er talið að um þriðjungur af framleiddum mat til manneldis eyðileggist eða sé sóað, það er um 1.3 milljarður tonna. Á Norðurlöndunum er um 3.5 milljónum tonna af mat sóað árlega!
Matvæli, sem fara til spillis, hefðu mögulega getað brauðfætt milljónir manna og minnkað þá hungursneyð sem steðjar að víðs vegar um heiminn. Þar að auki hefur framleiðsla matar oft talsverð neikvæð umhverfisáhrif sem þjóna þá engum tilgangi ef maturinn er ekki nýttur og eykur verulega við magn úrgangs sem þarf að urða.
Hér er einnig um sóun á fjármunum að ræða þar sem heimili og stóreldhús kaupa í rauninni oft allt of mikið af mat. Því fæst töluverður samfélagslegur, umhverfislegur og fjárhagslegur ávinningur af því að minnka matarsóun.
Þótt málið sé flókið og margir aðilar komi að því geta nokkrar einfaldar breytingar á venjum okkar og rekstri fyrirtækja haft veruleg áhrif. Á myndinni hér til hliðar má sjá 10 húsráð gegn matarsóun og ættu allir að geta tileinkað sér a.m.k. einhver þeirra strax í dag!
Ólympíuhlaup íSí
Nemendur Grenivíkurskóla tóku þátt í Ólympíuhlaupi ÍSÍ föstudaginn 18. september. Hægt var að velja um að hlaupa 2.5, 5 eða 10 km og 11 nemendur völdu lengstu vegalengdina. Ekki fór fram nákvæm mæling á vegalengdum fyrir hlaupið og þegar uppi var staðið höfðu þeir nemendur sem völdu að hlaupa lengst hlaupið ríflega 12 km! Í heildina hlupu nemendur skólans 200 km þennan dag.
Barnamenningarhátíð
Grenivíkurskóli á sína fulltrúa á hátíðinni, en 11 nemendur í 6. og 7. bekk Grenivíkurskóla tóku þátt í samstarfsverkefni með skólum á Akureyri. Útkoman er listasýningin "Barn sem nýtur réttinda sinna" sem sett verður upp í Hofi. Sýningin opnar formlega kl. 13:00 laugardaginn 3. október og stendur til 26. október. Við hvetjum alla til þess að kíkja á þessa sýningu og fleiri áhugaverða viðburði á Barnamenningarhátíð.
Útivistartími barna og unglinga
12 ára börn og yngri mega lengst vera úti til kl. 20:00, en 13-16 ára börn mega vera úti til kl. 22:00. Mikilvægt er að foreldrar og forráðamenn standi saman um að virða útivistarreglurnar.
Útiskóli í október
- 5.-6. bekkur: Söfnun birkifræja og verkefni úr heimabyggð.
- 1.-4. bekkur: Sultugerð, form og rýmisgreind.
Á döfinni í október
- 1. október: Samræmt próf hjá 4.b. í stærðfræði
- 5.-9. október: "Míla á dag".
- 6. október: Íþróttadagur í Valsárskóla - 5.-6. bekkur - frestað
- 8. október: Samskóladagur í Þelamerkurskóla - 7.-10. bekkur - frestað
- 12. október: Allir námshópar fá fræðslu um réttindi barna og Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna
- 12. október: Tónleikar hjá nemendum í Tónlistarskóla Eyjafjarðar í græna salnum kl. 10:00
- 23. október: Starfsdagur - frí hjá nemendum
- 1., 7., 15., 22., 29. og 30. okt: Danskennsla
- 30. október: Danssýning kl. 13:00
Grenivíkurskóli
Ábyrgðarmaður: Skólastjóri Grenivíkurskóla
Email: grenivikurskoli@grenivikurskoli.is
Website: http://www.grenivikurskoli.is
Location: Grenivík
Phone: 414-5413
Facebook: https://www.facebook.com/search/top?q=greniv%C3%ADkursk%C3%B3li