Fréttabréf desember 2023
8. tbl. 15 árg desember 2023
Kæra skólasamfélag
Nú er að fara í hönd árstíð ljóss og friðar með allri þeirri gleði og tilhlökkun sem ríkir, bæði hjá börnum og fullorðnum. Á þessum tímamótum er einnig mikilsvert að ræða við börnin um að vanda sig í samskiptum við aðra bæði skólasystkini sín og starfsfólk skólans. Allt of oft nota börnin ljótt og niðurlægjandi orðbrag sín á milli og við starfsfólk. Börnin þurfa að læra að orðum fylgir ábyrgð og þegar látin eru ljót orð falla særa þau og lítilsvirða þann sem þeim eru ætluð. Sum orð sem við heyrum eru mjög ljót og meiðandi og það ætti ekkert barn að hafa þau í sínum orðaforða. Samstarf heimilis og skóla er mikilvægt þegar við leitumst við að stöðva þá ómenningu sem fylgir svona neikvæðum talsmáta í samskiptum. Skólastarfið næstu daga mun einkennast af öllu því lífi og fjöri sem fylgir aðventunni. Þessi tími getur verið viðkvæmur hjá mörgum bæði börnum og fullorðnum og því mikilvægt að fylgjast með og sýna umhyggju.
Við óskum ykkur gleðilegrar aðventu og jóla.
Stjórnendur Naustaskóla.
Jólaþemadagur
Jólaþemadagurinn verður 13.desember og ætlum við að gera við okkur glaðan dag þar sem nemendur fá að fara á milli stöðva þar í sem boði verða fjölbreytt viðfangsefni. Þeir sem það vilja eru hvattir til að koma í jólapeysu eða öðru sem minnir á jólin. Kennslu líkur kl.13:00 þennan dag.
Nemendur skreyta skólann sinn
Þann 30.nóvember skreyttu nemendur skólann og "klæddu" hann í jólabúning og var ekki annað að sjá en að glatt hafi verið á hjalla.
Litlu jól
20.desember.
1.-7. bekkur: Mæting í stofur kl.08:10 -10:10.
4.bekkur sýnir helgileikinn á sal skólans, dansað verður í kringum jólatré og síðan eru stofujól með kennurum.
19.desember.
8.-10.bekkur: hefðbundinn skóladagur og litlu jól kl.18:00 - 20:00
Fréttabréf nemenda og kennara í unglingadeild.
Ákveðið hefur verið að í stað hefðbundinna vikupósta munu unglingarnir sjálfir ásamt kennurum sínum skrifa fréttabréf sem verður sent heim í lok hvers mánðar. Þar verður farið yfir viðfangsefni nemenda og helstu fréttir úr þeirra skólalífi. Við vonum að þessi nýbreytni falli í góðan jarðveg. Áfram munu þó kennarar vera í góðu sambandi við heimilin og senda upplýsingar til foreldra þegar þörf er á, foreldrar eru jafnframt hvattir til að heyra í kennurum ef eitthvað er eða eitthvað er óljóst.
Okkar dimmasti árstími, verum sýnileg.
Endurskinsmerkin eiga að vera sýnileg og er best að hafa þau á eftirfarandi stöðum:
Fremst á ermum
Hangandi meðfram hliðum
Á skóm eða neðarlega á buxnaskálmum
Þá virkar endurskin eins og blikkljós þegar ljós skín á þau. Því fyrr og betur sem ökumenn greina óvarða vegfarendur þeim mun minni líkur eru á að slys verði.
Jákvæður agi - verkfærakistan
Nokkur verkfæri sem styðja við árangursrík samskipti, góðvild, ást og festu.
- Gefðu börnunum ákveðið hlutverk á heimilinu; þau finna að þau eru mikilvægur hluti af fjölskyldunni og þau skipta máli. Þetta kennir ábyrgð og eflir samkennd.
- Hlustaðu af athygli á barnið þitt, láttu það finna að þú virðir sjónarmið þess. Börn og unglingar hlusta best ef þau skynja að það sé hlustað á þau.
- Notaðu húmor, ekki gleyma að hlæja, fíflast svolítið og hafa gaman.
- Takið frá sérstakan tíma bara fyrir þig og barnið þitt og gerið eitthvað saman.
- Hvetjið börnin til að tala við ykkur með því að venja ykkur á að verja tíma með þeim án þess að þvinga þau til samræðna.
Þemu í ensku
Allir bekkir unglingastigs eru að hvíla hefðbundnar kennslubækur í ensku. Í staðinn er vetrinum skipt upp í sex lotur og hver lota hefur sitt þema. Þemun eru hugsuð á þann hátt að þau höfða í einhverju formi til allra nemenda, ýta undir sköpunarkraft og raunfærni.
Á döfinni í desember
30.nóvember - skreytingadagur, jólapeysu, sokka og eða húfudagur.
1. desember - Fullveldisdagur Íslands.
7.desember smiðjuskil 10.bekkur.
8. desember smiðjuskil 4.-5.bekkur.
12. desember Smiðjuskil 8.-9.bekkur.
13. desember jólaþemadagur. Við hvetjum nemendur til að mæta í jólapeysu, sokkum og eða jólahúfu. Sætabrauðsnesti er leyfilegt þennan dag.
20. desember, litlu jólin. Frístund er opin fyrir þau börn sem eru skráð í frístund frá 10:10.
2024
2. janúar - frí í skólanum. Frístund lokuð.
3. janúar - starfsdagur. Frístund opin.
4. janúar - fyrsti skóladagur eftir jólafrí hefst kl.08:10
Nemendadagurinn
Og hér má sjá fleiri myndir frá nemendadeginum í nóvember.
Máttur góðvildar í eigin garð og annarra
Sjálfsvinsemd: Að vera styðjandi og skilningsríkur gagnvart sjálfum sér frekar en að dæma eða gagnrýna sig. Sjálfsvinsemd þýðir að við viðurkennum að enginn er fullkominn og að öll gerum við mistök.
Sammannleg reynsla: Að skilja að allir ganga í gegnum erfiðleika í lífinu og að við séum ekki ein í baráttunni. Að viðurkenna að þjáning er sammannleg reynsla getur hjálpað okkur við að finna fyrir meiri tengingu við aðra.
Góðverk
Góðverk er hegðun sem gagnast öðrum og kostar mig eitthvað (fyrirhöfn, tíma, …) og ekki er beðið um neitt í staðinn. Góðverk felst í hegðun/gjörðum af hálfu einhvers sem gagnast öðrum á góðan hátt. Að gera góðverk getur ýtt undir vellíðan og hamingju. Góðverk geta m.a. alið af sér örlæti í garð annarra og samfélagsins, aukið samvinnu og gagnkvæm tengsl og meðvitund um eigin gæfu og velgengni. Þeir sem gera góðverk hafa tækifæri til að öðlast meira sjálfstraust og upplifa að þeir séu fórnfúsir, hjálplegir og hafi stjórn á aðstæðum.
Góðverk geta einnig haft keðjuverkandi áhrif, það er eitt góðverk getur leitt til annars.
Gleðilega hátíð
Kæru nemendur og foreldrar
Við sendum ykkur hátíðarkveðjur og þökkum fyrir árið sem er að líða.
Starfsfólk Naustaskóla