Flataskólafréttir
Skólaárið 2022-2023 - 1. mars 2023
Kæra skólasamfélag!
Skólastarfið að loknu vetrarfríi hefur farið ágætlega af stað þrátt fyrir töluvert breyttar aðstæður og nokkur þrengsli hjá okkur. Það verður að segjast eins og er að margt er heldur bráðabirgðalegt hjá okkur þessa dagana. Tveir 7. bekkir hafa húsnæði á Garðatorgi, hinir 7. bekkirnir eru í færanlegum kennslustofum á skólalóðinni, 6. bekkur er dreifður á bókasafn og í list- og verkgreinastofur skólans og sumir árgangar búa heldur þröngt enn um sinn. List- og verkgreinakennsla fer fram í bekkjastofum og er með öðrum brag en venjulega, fjölval fellur niður í bili og svo nýtum við gangana áfram til að matast á. Þetta gengur þó allt saman furðu vel enda kallar starfsmanna- og nemendahópurinn okkar ekki allt ömmu sína, þröngt mega sáttir sitja og allt það. Á yfirlitsmyndunum hér fyrir neðan má sjá þá niðurröðun árganga sem nú er í gildi hjá okkur en eins og sjá má er stór hluti skólahúsnæðisins ennþá lokaður.
Nú er unnið að uppsetningu tveggja kennslustofa til viðbótar á skólalóðinni og mun þeirri vinnu ljúka innan fárra daga. Þá munu 7. bekkirnir sem nú eru á Garðatorgi "koma heim" og nýta þær stofur. Jafnframt er unnið að viðgerðum í kennslustofum í vesturálmu og ættu þær fyrstu að geta komist í notkun áður en langt um líður. Þá munu 6. bekkirnir okkar komast á það svæði og jafnframt byrjar þá að rýmkast aðeins um listgreinakennsluna.
Það er ljóst að það er mikið verk framundan við endurbætur á húsnæðinu og að nýta þarf næstu mánuði vel til að staðan verði ásættanleg að loknu sumarfríi. Það er lán í óláni að frekar er útlit fyrir fækkun nemenda milli ára þar sem við erum væntanlega að útskrifa mun fleiri nemendur úr 7. bekk en munu koma inn í 1. bekk í haust. Þannig ættum við að geta komist af án suðurálmunnar næsta vetur en þær skemmdir sem þar fundust virðast vera umfangsmestar.
Öðru hvoru berast til mín ábendingar frá foreldrum og starfsfólki um einkenni sem hugsanlega má rekja til myglu. Við tökum slíkum ábendingum alvarlega, komum þeim áfram og þær eru teknar til skoðunar. Jafnframt verður innan skamms farið í sýnatökur til að kanna hvort viðgerðir og þrif hafi skilað tilskildum árangri. Enn fremur eru lofthreinsitæki í gangi víðs vegar um skólann og við vinnum að því að fjölga þeim.
En burtséð frá húsnæðismálunum þá heldur skólastarfið auðvitað áfram og í marsmánuði stefnum við að föstum liðum eins og skíðaferðum, upplestrarkeppni og árshátíð 7. bekkjar og undirbúningi Flatóvisjónkeppninnar svo eitthvað sé nefnt. Nú er reyndar vor í lofti þessa dagana og verður spennandi að sjá hvort viðrar til skíðaferða um miðjan mánuðinn. En við krossum fingur og vonum það besta!
Kærar kveðjur úr skólanum,
Ágúst skólastjóri
Innritun í grunnskóla Garðabæjar fyrir skólaárið 2023-2024
Innritun nemenda í 1. bekk (f. 2017) og 8. bekk (f. 2010) fer fram dagana 1. - 10. mars. Innritað er á þjónustugátt Garðabæjar.
Athugið að nauðsynlegt er að innrita þá nemendur í 8. bekk sem skipta um skóla - það gildir t.d. um núverandi nemendur 7. bekkjar í Flataskóla.
Sömu daga fer fram skráning vegna nemenda í 2.-9. bekk sem óska eftir að flytjast á milli skóla. Áríðandi er að foreldrar tilkynni óskir um flutning milli skóla fyrir 10. mars nk. Innritun þeirra barna sem óska eftir dvöl á frístundaheimilum á næsta ári fer einnig fram þessa sömu daga. Hún er einnig á þjónustugátt Garðabæjar. Sama gildir fyrir sérstakt frístundaúrræði Garðahraun sem er fyrir nemendur í 5.-10. bekk Mikilvægt er að sótt sé sem fyrst um dvöl á frístundaheimilum. Ef umsóknir fyrir næsta skólaár berast fyrir 15. júní fær barnið pláss á umbeðnu frístundaheimili. Umsóknir sem berast eftir þann tíma eru afgreiddar með tilliti til starfsmannahalds hverju sinni.
Upplýsingar um kynningar hjá grunnskólum í Garðabæ í mars fyrir forráðamenn nýnema.
Athygli er vakin á að umsóknarfrestur um heimild til að stunda nám í grunnskólum annarra sveitarfélaga og sjálfstætt reknum grunnskólum skólaárið 2023-2024 er til 1. apríl og skulu umsóknir
berast skóladeild Garðabæjar. Vakin er athygli á að umsókn fyrir nemanda sem stundar nám í grunnskóla utan lögheimilissveitarfélags þarf að endurnýja fyrir hvert skólaár.
Helstu viðburðir á næstunni
- 1.-10. mars - Innritun í grunnskóla fyrir 2023-2024
- 10. mars - Leiklistarfjölval sýnir Grease
- 13. mars - Skíðaferð 1./3./7.b (ef veður og færð leyfir)
- 14. mars - Skíðaferð 2./4./5.b (ef veður og færð leyfir)
- 14.-15. mars - Skíðaferð / gisting hjá 6.b
- 28. mars - Stóra upplestrarkeppni 7. bekkjar
- 30. mars - Árshátíð 7. bekkjar
- 1.-10. apríl - Páskaleyfi grunnskóla
Varðandi mötuneytisgjald í febrúar
Foreldrakönnun Skólapúlsins
Vinningshafi í teiknisamkeppni 4. bekkinga
Rúmlega 1.200 myndir bárust í keppnina frá 60 skólum um land allt og að lokum voru tíu verðlaunamyndir valdar úr þessum mikla fjölda. Verðlaunahöfum eru veittar viðurkenningar fyrir teikningar sínar og til viðbótar er hver mynd verðlaunuð með 40.000 kr. peningagjöf frá MS, sem rennur óskipt í bekkjarsjóð viðkomandi, og geta nemendur þannig nýtt upphæðina til að gera sér smá dagamun í samvinnu og samráði við umsjónakennara. Nánari upplýsingar um keppnina og úrslit hennar má finna hér.
Félagsmiðstöð - opnanir fyrir 7. bekk í marsmánuði
Foreldrar í 4. og 6. bekk athugið - Íslenska æskulýðsrannsóknin
Nú á vormánuðum verður Íslenska æskulýðsrannsóknin lögð fyrir skólabörn í 4.─10. bekk í langflestum grunnskólum landsins. Í Flataskóla er könnunin lögð fyrir nemendur í 4. og 6. bekk. Hér má finna upplýsingablað um könnunina á ýmsum tungumálum.
Niðurstöður rannsóknarinnar eru mikilvægar upplýsingar um farsæld barna á Íslandi. Mennta- og barnamálaráðuneytið mun jafnframt nýta niðurstöðurnar í mælaborð ráðuneytisins sem byggir á endurskoðun á félagslegri umgjörð barna á Íslandi. Þátttaka sem flestra barna er því afar mikilvæg til að ná sem áreiðanlegustum niðurstöðum um velferð barna á Íslandi.
Spurningalistinn er staðlaður eftir aldri, þar sem meðal annars er spurt um líðan, viðhorf til skólans, líðan í skóla, næringu, svefn, hreyfingu, tómstundir, slys, félagsleg tengsl og ýmsa áhættuhegðun.
Könnunin er ópersónugreinanleg og verður lögð fyrir á rafrænu formi á skólatíma. Siðanefnd háskólanna um vísindarannsóknir hefur fjallað um efni og framkvæmd rannsóknarinnar og gerir ekki athugasemdir.
Þátttaka nemenda er valkvæð og foreldrar/forsjáraðilar þeirra geta hafnað þátttöku. Viljir þú ekki að barn þitt taki þátt í könnuninni getur þú sent tilkynningu um það á tengilið könnunarinnar innan skólans, helgame@flataskoli.is
Tímasetning fyrirlagnar spurningalistans fer eftir samkomulagi við stjórnendur hvers skóla. Tengiliður innan skólanna mun upplýsa nemendur um að könnunin sé ópersónugreinanleg og að nemendum sé ekki skylt að taka þátt eða svara spurningum sem þeir vilja sleppa. Einnig er nemendum heimilt að hætta þátttöku hvenær sem er.
Uppbrotsdagar og öskudagur
Endurskinsmerki
Mentor - handbók fyrir aðstandendur
Opnunartími skrifstofu
Hægt er að senda skólanum tölvupóst á netfangið flataskoli@flataskoli.is
Mælst er til að foreldrar/aðstandendur skrái veikindi nemenda á Fjölskylduvef Mentor.is eða með Mentor appinu.
Auk þess er hægt að tilkynna forföll á skrifstofu skólans með tölvupósti eða í síma 513 3500. Vakin er athygli á að ef veikindi vara lengur en einn dag skal tilkynna daglega.
Flataskóli Garðabæ
Email: flataskoli@flataskoli.is
Website: flataskoli.is
Location: Flataskóli, Gardabaer, Iceland
Phone: 513 3500