Fréttabréf Engidalsskóla jan 2024
Ábyrgð - Virðing - Vellíðan
Fréttabréf Engidalsskóla
Kæru foreldrar/forsjáraðilar.
Janúar hefur flogið áfram og gefið okkur nóg af snjó til að leika í. Mest gaman er að renna í brekkunni en snjókastið er líka vinsælt. Það verða reglulega árekstrar í snjókastinu og því er það bara leift á afmörkuðu svæði á skólalóðinni, A velli. Það er farið reglulega yfir þetta með nemendum en gott er ef þið gætuð gert það líka.
Engidalsskóli er heilsueflandi skóli og við leggjum mikla áherslu á útiveru og hreyfingu og trúum að það skili betri líðan nemenda. Skíðaferð miðdeildar í Bláfjöll er á dagskrá 1. mars og fáið þið nánari upplýsingar um það síðar en gott er að fara að athuga hvort nemendur eigi búnað sem passar og/eða geti fengið lánað hjá einhverjum. Í ár ætlum við líka að reyna að fara með 4. bekk á skíði í einhverja af skíðabrekkunum sem eru innan Reykjavíkur en meira um það síðar.
Á flestum líðan fundum í haust var rætt um börn og samfélagsmiðla og hvernig þeir geta og hafa sett tilveruna algjörlega á hvolf hjá börnum. Elstu nemendur Engidalsskóla eru eitt af öðru að detta inn á þann aldur að meiga nýta sér þá. Við hvetjum foreldra til þess að fylgjast vel með börnunum sínum á samfélagsmiðlum, hvað þau eru að gera, hvernig þau nota þá og ræða það sem þar fer fram. Hér fyrir neðan er slóð á ágætis fræðslu, Börn og miðlanotkun.
Nýlega fengum við niðustöður úr könnun á högum og líðan nemenda á miðstigi, könnun sem nemendur svöruðu í haust. Það sem vekur sérstaka athygli okkar er að 27% nemenda eyða meira en 3 klukkutímum á dag á samfélagsmiðlum og 26% nemenda eyða meira en 3 klukkutímum á dag í að spila tölvuleiki. Enginn kannast við að stríða öðrum og mun færri virðast lenda í stríðni en niðurstöður skólapúlsins gáfu vísbendingar um í haust. Við sjáum að alltof margir lesa lítið eða ekki neitt og að úr hópi þeirra sem mikið eru í tölvuleikjum er minnst lesið. Strákar í 5. og 6. bekk lesa minna en stelpur á sama aldri en í 7. bekk lesa strákarnir meira en stelpurnar. Við hvetjum foreldra/forsjáraðila auðvitað til að aðstoða sín börn við að þjálfa lestrafærni sína því í þessu eins og öllu öðru er það æfingin sem skapar meistarann.
Áhugasvið nemenda á miðstigi er alltaf vinsælt en þá fá nemendur að velja verkefni út frá áhugasviði sínu. Að þessu sinni kom það ekki á óvart að MJÖG margir völdu handbolta. Árinu er skipt upp í fjögur tímabil og að þessu sinni er boðið upp á: handbolta, fótbolta, mósaík gerð, bakstur, smíði leikfanga, leiki og spil, Legó, spila í hljómsveit og gerð Macram veggskrauts. Á næsta tímabili bætast svo við krakkafréttir (gerð fréttabréfs), fatasaumur, hekla eða prjóna trefla, krakka Crossfit, suduko og krossgátur. Í þessum tímum næst að vinna með mörg markmið sem öll falla á einhvern hátt undir grunnþætti menntunar sem eru: Læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun.
Vel hefur gengið á nýju ári að hafa fjölbreytta leiki og samvertustundir í Stundarfriði miðstigs. Í haust gaf foreldrafélagið peninga til Engidalsskóla til þess að kaupa eitthvað fyrir félagsmiðstöðina og er verið að vinna í því að gera hana huggulegri. Búið er að kaupa myndir, púða, ljósa vélmenni, karokítæki, leikjatölvu og allskyns leiki sem margir geta spilað saman. Þá er til skoðunar að skipta einhverjum sófum út en þetta verður allt gert í samráði við nemendur. Í janúar tók Magnea Dís við starfi deildarstjóra frístundastarfs í fjarveru Arnheiðar en Magnea hefur verið aðstoðar deildarstjóri. Magneu til aðstoðar er nú Julia Nowak sem er öllum hnútum kunnug bæði í Álfakoti og Dalnum.
Hæfileikakeppni miðstigs verður haldin í skólanum föstudaginn 2. febrúar og er þetta í annað sinn sem þessi keppni er haldin í skólanum. Í fyrra komu mörg og fjölbreytt atriði frá nemendum og eigum við von á að það verði ekki síðra í ár.
Hafin er vinna við skóladagatal næsta skólaárs og er vitað að skólasetning verður 23. ágúst og vetrafrí 24.-25. október og 24.-25. febrúar. Nánari upplýsingar um skóladagatalið kemur síðar.
Hér fyrir neðan er að finna stutta könnun til foreldra/forsjáraðila sem við biðjum þá sem ekki hafa þegar svarað að gera það fyrir okkur.
Með bestu kveðju,
Skólastjórnendur Engidalsskóla.
Könnun meðal foreldra
Þátttaka foreldra varðandi skipulag á skólastarfinu er mikilvæg. Við óskum því eftir því að þið svarið þessari stuttu könnun varðandi skipulag skólahalds næsta vetur. Könnun þessi var send í tölvupósti en líka er hægt að ná í hana hér. Könnunin verður opin út vikuna til sunnudagsins 4. febrúar.
Fréttir úr Álfakoti
Það hefur verið þó nokkuð um breytingar hjá okkur þennan mánuðinn. Arnheiður sem hefur stýrt lestinni undanfarið ár fór í fæðingarorlof og Magnea aðstoðardeildarstjóri tók við af henni.
Við höfum haldið sömu dagskrá í Álfakoti eins og hefur verið undanfarið, þar sem börnin fara í val eftir síðdegishressinguna. Þar er m.a. boðið uppá lita, perla, kubba, spila, bókasafn og íþróttasal svo eitthvað sé nefnt.
Í febrúar ætlum við að koma á klúbbastarfi fyrir hvern árgang en hver klúbbur er 2 - 4 vikur í senn og verður alltaf á föstudögum. Klúbbarnir byrja núna á föstudaginn 2.febrúar. 1.bekkur byrjar í spila- og föndurklúbbum, 2.bekkur í stjörnumerkja- og sólkerfaklúbbum og 3.-4.bekkur í dansklúbb.
Það er ótrúlega gaman að vinna með börnunum í Álfakoti enda stór hópur af skemmtilegum og hæfileikaríkum krökkum hér á ferð. Við hlökkum mikið til að halda áfram að þróa frístundastarfið hér í Engidalsskóla og ekki hika við að hafa samband ef þið hafið einhverjar spurningar.
Kær kveðja, Magnea og Julia
Heimsókn 6. bekkjar í Nýsköpunarsetrið við lækinn
Í 3D smiðjunni var fjallað um þrívídd, þrívíddarhönnun og þrívíddarprentun frá margskonar sjónarhornum. Rætt var um heilann, stöðvar hans og nemendur fengu síðan 3D prentaðan heila. Fjallað var um góðar og slæmar heimildir og æfðu nemendur sig í að finna heimildir sem væru með villandi upplýsingum. Nemendur unnu í hópum og fékk hver hópur að velja sér eitthvað sem prentað var út í 3D. Nemendur fengu kennslu á Tinkercard í því forriti er hægt að teikna hluti í þvívídd. Nemendahópurinn okkar var fyrsti hópur úr 6. bekk sem þær tóku á mótti og voru þær ánægðar með hvernig til tókst.
Ummæli frá þeim Margréti og Sólveigu
"Við erum í skýjunum með hvernig gekk og hlökkum til að taka á móti þessum frábæra hópi aftur í smiðju við tækifæri!"
Uppeldi til ábyrgðar - T spjöld
Við komumst alltaf lengra og lengra í innleiðingunni á uppeldi til ábyrgðar, agastefnu skólans. Í vetur hafa nemendur og starfsmenn unnið með mitt og þitt hlutverk, gert bekkjarsáttmála, unnið með þarfir okkar, farið yfir skýru mörkin (sem sjá má hér fyrir neðan). Einhverjir bekkir hafa unnið með lífsvagninn og/eða óskaveröldina og þessar vikurnar erum við að leggja áherslu á T- spjöld þar sem unnið er með ákveðin gildi og hegðun. Við erum að taka fyrir gildin ábyrgð og virðing og skoða hvernig ákveðin hegðun endurspeglar þau í samskiptum og umgengni á göngum og í fataklefum. Á myndinni hér til hliðar má sjá einfalda uppsetningu á þessari vinnu. Sú hegðun sem samræmist gildinu er þá vinstra megin en ef hún þarfnast breytinga lendir hún hægra megin.
Nánar má lesa um stefnuna á uppbygging.is
Skýr mörk Egidalsskóla
Í Engidalsskóla eru ekki skólareglur en fari nemendur yfir skilgreind skýr mörk er gripið inn í og nemendum er þá vísað til skólastjórnanda sem ákveður næstu skref. Foreldrar eru boðaðir til fundar með nemendum og áætlun gerð um það sem betur má fara. Mikilvægt er að allir séu meðvitaðir um þetta. Minniháttar atvik leysum við á svokölluðu sáttarborði.
Í Engidalsskóla viljum við:
Ekkert ofbeldi hvorki líkamlegt né andlegt
Engin barefli né önnur vopn
Engin ávana- eða fíkniefni þar með talið áfengi, tóbak og rafrettur
Engar alvarlegar ögranir eða hótanir
Engin skemmdarverk
Enga áhættuhegðun
Engan þjófnað
Verkefni nemenda úr smiðjum
3. bekkur, kaldir og heitir litir
1. bekkur, sjálfsmyndir
3. bekkur, draumahús
3. bekkur, sjálfsmyndir
3. bekkur, selir
Áhugasvið verkefni hjá 5. - 7. bekk
Nýtt áhugasvið hjá 5. - 7. bekk hófst í dag
Holt og gott nesti fyrir hrausta og kraftmikla krakka
Engidalsskóli
Email: engidalsskoli@engidalsskoli.is
Website: https://www.engidalsskoli.is
Location: Breiðvangur 42, Hafnarfjordur, Iceland
Phone: 555 4433