
Fréttabréf Garðaskóla
Október 2021 - 45. árgangur - 1. tölublað
Í þessu fréttabréfi:
1. Kveðja frá skólastjóra
2. Jafnréttisfræðsla í 8. bekk
3. Uppbygging sjálfsaga
4. Upphýfingar
5. Vel tekið á móti nýnemum í Garðaskóla
6. Er þetta krúttlegasta valfag allra tíma?
7. Samráðsfundir heimila og skóla
8. Forvarnardagskrá í október
Kveðja frá skólastjóra
Nú er skólastarfið komið á fullt skrið eftir gott sumarfrí. Síðustu misseri hafa litast af ýmsum höftum vegna COVID-19 en sem betur fer horfum við nú fram á bjartari tíma. Félagsmiðstöðin Garðalundur mun t.d. halda sitt fyrsta alvöru ball í langan tíma þann 15. október og við stefnum að samráðsfundi heimila og skóla þann 21. október hér í Garðaskóla.
Í vetur stunda um 580 nemendur nám í Garðaskóla sem er töluverð fjölgun frá fyrri árum. Á næsta ári er svo gert ráð fyrir enn frekari fjölgun í skólanum og má áætla að nemendafjöldi fari vel yfir 600. Barnið vex en brókin ekki segir gamall málsháttur og á hann vel við um Garðaskóla því þrátt fyrir mikla fjölgun nemenda er skólahúsnæðið enn hið sama. Í vetur búum við því við nokkur þrengsli sem skilar sér m.a. í fleiri eyðum í stundatöflum nemenda ásamt því að anddyri og matsalur eru að verða of lítil. Ljóst er að ef ekki verður gripið til aðgerða fyrir næsta skólaár, t.d. með viðbyggingu eða fleiri lausum kennslustofum, stefnir í óefni í húsnæðismálum skólans.
Í u.þ.b. 650 manna samfélagi, eins og Garðaskóli er, koma reglulega upp atvik sem þarf að leysa. Í slíkum tilvikum er samstarf heimila og skóla nauðsynlegt og við treystum áfram á gott samstarf í slíkum málum. Ég teysti einnig á að bæði nemendur og forráðafólk láti stjórnendur skólans vita ef eitthvað bjátar á því við viljum alltaf gera betur. Með því að benda okkur á vandann aukast líkurnar nefnilega töluvert á því að vandinn verði leystur. Þó svo að starfsfólk skólans sé einstaklega fært á sínu sviði þá getur það því miður ekki lesið hugsanir.
En þrátt fyrir ýmsa hnökra og endalaus tækifæri til að gera betur benda allar samræmdar mælingar sem við höfum hins vegar til þess að Garðaskóli sé góður skóli. Ég vona að þið séuð öll stolt af því að tilheyra skólasamfélaginu okkar, því ég er það sannarlega.
Með samstarfskveðju;
Jóhann Skagfjörð, skólastjóri.
Jafnréttisfræðsla í 8. bekk
Sú nýbreytni á sér stað í vetur að nú er jafnréttisfræði orðið skyldufag fyrir nemendur í 8. bekk. Kennslan er í höndum Erlu Karlsdóttur sem undanfarin ár hefur kennt dönsku við Garðaskóla, en hefur nú snúið sér alfarið að jafnréttis- og heimspekikennslu en Erla er einmitt menntaður heimspekikennari.
Í jafnréttisfræði læra nemendur m.a. um sjálfsmynd, kynjafræði, staðalmyndir, hinsegin, fordóma og kynlíf - svo fátt eitt sé nefnt. Allt eru þetta viðfangsefni sem hafa verið ofarlega á baugi í samfélagsumræðunni undanfarin misseri.
Áhugasamir geta kynnt sér námsáætlun vetrarins hér.
Uppbygging sjálfsaga
Á skipulagsdaginn þann 15. september síðastliðinn sótti allt starfsfólk grunnnámskeið í uppeldisstefnunni Uppbygging sjálfsaga. Stefnan var innleidd í Garðaskóla fyrir margt löngu og hefur verið unnið í anda hennar síðustu ár, en í kjölfar breytinga á stjórnendateymi skólans og fjölda nýs starfsfólks síðustu ár þótti rétt að hefja endurinnleiðingu á stefnunni.
Uppbygging sjálfsaga, áður þekkt sem Uppbyggingarstefnan og Uppeldi til ábyrgðar, felst í því að byggja upp sjálfsaga og ábyrgð hjá einstaklingum með samræðum um lífsgildi og eigið sjálf. Í Garðaskóla eru agamál unnin á þann hátt að allir aðilar komi sem sterkastir frá samskiptum, reiðubúnir að líta í eigin barm og ná betri stjórn á eigin hegðun. Við viðurkennum að allir geta gert mistök og veitum nemendum tækifæri til að leiðrétta þau og hjálpum þeim að koma í veg fyrir að mistökin endurtaki sig.
Fyrir þá sem vilja kynna sér Uppbyggingu sjálfsaga nánar má benda á eftirfarandi vefslóðir:
Upphífingar
Í haust hafa verið settar upp tvær upphífingarstangir í skólanum og munu þrjár til viðbótar bætast við fljótlega. Hugmyndin að þessu kom frá skólasálfræðingi Garðaskóla sem fannst vanta leiðir fyrir nemendur til að fá útrás á skólatíma.
Þegar fleiri stangir verða komnar upp munu þær vera markvisst nýttar til þess að brjóta upp kennslustundir hjá nemendum sem eiga erfitt með að beisla athygli sína og orku í fullar 55 mínútur. Það gerir nefnilega kraftaverk að skjótast úr tíma eftir 25 mínútur, taka 10 upphífingar og koma svo til baka og klára tímann með stæl!
Vel tekið á móti nýnemum í Garðaskóla
Við vitum að því geta fylgt alls konar tilfinningar að byrja í nýjum skóla þar sem t.d. kvíði og tilhlökkun blandast saman í einn hrærigraut. Í Garðaskóla búum við einmitt við þann veruleika að um þriðjungur nemenda okkar er að byrja í nýjum skóla hvert haust; allir nemendur í 8. bekk og svo eru alltaf nokkrir nýnemar í 9. og 10. bekk. Vegna þessa hefur Garðaskóli og Garðalundur markvisst leitað leiða til að taka vel á móti nýnemum með það að markmiði að gera skólaskiptin auðveldari.
Aðgerðir til að styðja við nýnema eru eftirfarandi:
- Nemendur í 8. bekk eru einir í skólanum á skólasetningardag, þar sem nemendur í 9. og 10. bekk mæta aðeins í eina klukkustund til umsjónarkennara. 8. bekkingar fá því tækifæri til að kynnast nýjum bekkjar- og skólafélögum, nýjum kennurum og nýju skólahúsnæði í ró og næði.
- Félagsmiðstöðin Garðalundur hóf vetraropnun sína á því að bjóða upp á bekkjarkvöld fyrir hvern og einn 8. bekk. Þar fengu nemendur kynningu á starfi Garðalundur og öllu því sem félagsmiðstöðin hefur upp á að bjóða og tækifæri til að kynnast nýjum bekkjarfélögum enn betur. Bekkjarkvöldin gengu mjög vel og var mæting framar björtustu vonum.
- Í samráði við nemendaráð síðasta skólaárs var tekin sú ákvörðun að breyta stundatöflu nemenda á þann veg að skipta hádegishléinu eftir árgöngum. Líkt og áður eru tveir matartímar en nú er sú breyting að allir 8. bekkirnir eru saman í fyrri mat og allir 9. og 10. bekkirnir saman í seinni mat. Með þessu teljum við að nemendum í 8. bekk líði betur en einnig styrkjum við vinatengls nemenda sem eru í sama árgangi.
- Nýir nemendur í 9. og 10. bekk hafa allir fengið samtal við námsráðgjafa nú í upphafi skólaárs. Farið er yfir skólabyrjunina, líðan og félagslega stöðu og þeim nemendum sem það vilja er boðið upp á áframhaldandi stuðning. Fjölmargir nemendur í 8. bekk sem voru ekki í grunnskóla í Garðabæ í 7. bekk hafa einnig fengið sams konar viðtöl.
Við erum stolt af því að taka vel á móti nýjum nemendum en viljum að sjálfsögðu alltaf gera betur. Ef þú ert með góða hugmynd til þess máttu endilega senda línu á Jóhann skólastjóra, johannmagn@gardaskoli.is
Er þetta krúttlegasta valfag allra tíma?
Í Garðaskóla reynum við að hafa fjölbreytt og spennandi valnámskeið fyrir nemendur í 9. og 10. bekk. Eitt skemmtilegasta valfag vetrarins að þessu sinni er kennt af Halldóru Lind náttúrufræðikennara og umsjónarkennara 9. bekk og heitir það Hundaatferli og þjálfun. Halldóra er nefnilega ekki bara frábær kennari heldur er hún líka menntaður hundaatferlisfræðingur.
Á námskeiðinu fá nemendur fyrirlestra um hunda, hundaþjálfun og hundaræktun auk þess sem þau fara í verklega tíma, bæði með og án hunda.
Á myndinni má sjá Halldóru ásamt nokkrum nemendum á námskeiðinu með loðna vini með sér á leið í verklega kennslu.
Er þetta ekki krúttlegasta valfag allra tíma?
Samráðsfundir heimila og skóla
Loksins, loksins fáum við að hittast!
Samráðsfundir heimila og skóla verða haldnir í Garðaskóla fimmtudaginn 21. október.
Forráðafólk sér sjálft um að skrá sig á tíma og gerir það í gegnum INNU. Þú getur lesið um hvernig það er gert hérna. Opið verður fyrir skráningar frá mánudeginum 11. okt. til og með föstudagsins 15. okt.
Við hlökkum til að sjá ykkur!
Forvarnardagskrá í október
Forvarnarvika Garðabæjar stendur frá 13. - 19. október. Af því tilefni höfum við í Garðaskóla og Garðalundi útbúið eftirfarandi dagskrá fyrir nemendur, forráðafólk og starfsfólk.
13. okt.
Mannflóran verður með opnar vinnustofur fyrir nemendur í kvöldopnun Garðalundar. Í hádegishléinu fá nemendur kynningu á vinnustofunum.
14. okt.
Allir nemendur fá fyrirlestur í umsjónartíma frá Heilsulausnum. Um er að ræða samþætta fræðslu um skjánotkun, sjálfsmynd og verndandi þætti gegn vímuefnaneyslu.
18. okt.
Nemendur fá kynningu á Eitt líf og fá afhent bókamerki með QR kóða sem vísar nemendum á vefsíðu þar sem þau geta nálgast allar helstu upplýsingar um hvert þau geta leitað ef þau lenda í ýmiss konar vanda. Bókamerkið er hannað af nemendaráðgjöfum skólans.
Fræðslukvöld fyrir forráðafólk og starfsfólk skólans
Guðrún Björg Ágústsdóttir frá Foreldrahúsi kemur og heldur fræðslukvöld fyrir forráðafólk og starfsfólk Garðaskóla. Yfirskrift kvöldsins er Áhættuhegðun, fikt, neysla og fíkn.
- Af hverju prufa sumir unglingar vímuefni?
- Hver er munurinn á fikti og neyslu vímuefna?
- Hvaða vímuefni eru unglingar mest að nota?
- Hver eru helstu einkenni þess að unglingurinn sé að neyta vímuefna?
- Hvað er til ráða þegar fikt eða neysla er byrjuð?
- Hvert er hægt að leita?
Öllum þessum spurningum og fleirum verður svarað.
Um er að ræða þrjú kvöld þar sem forráðafólki og starfsfólki er skipt eftir árgöngum.
Fyrir forráðafólk og starfsfólk í 8. bekk þriðjudaginn 19. október.
Fyrir forráðafólk og starfsfólk í 9. bekk þriðjudaginn 26. október.
Fyrir forráðafólk og starfsfólk í 10. bekk fimmtudaginn 28. október.
Fyrirlesturinn hefst kl. 20:00 öll kvöldin og má áætla að hann taki um 90 mínútur.
Við gerum ráð fyrir a.m.k. einum fullorðnum frá hverjum nemanda.