
Fréttabréf Garðaskóla
September 2020 - 44. árgangur - 2. tölublað
Brot úr skólasetningarræðu skólastjóra
Þetta ár, árið 2020, hefur verið frekar sérstakt hingað til. Við höfum upplifað heimsfaraldur sem hefur haft áhrif á okkur öll – og heldur áfram að hafa áhrif. Á meðan á honum hefur staðið höfum við öll upplifað skert lífsgæði og skerðingu á okkar frelsi. Við höfum ekki mátt gera allt sem við erum vön að gera eða fara hvert sem við viljum. Margir fullorðnir hafa misst vinnuna og þið nemendur upplifðuð líka skerðingu á ykkar vinnu, að mæta í skólann, auk þess sem íþróttir og tómstundir féllu niður á tímabili. Þessi heimsfaraldur hefur með öðrum orðum ekki eingöngu haft áhrif á þá sem verða veikir – heldur allt samfélagið okkar. Allan heiminn.
Breyttar aðstæður á heimilum, óttinn við að veikjast, óttinn við að nákomnir veikjast og skert félagstengsl eru meðal þess sem eitthvert ykkar gæti verið að glíma við. Við ykkur ítreka ég að hér í Garðaskóla er fullt af fagfólki sem er reiðubúið að hlusta á ykkur, tala við ykkur og gefa ykkur ráðleggingar. Námsráðgjafarnir okkar tveir, þær Ásta og Jóhanna, eru ávallt til viðtals. Vigdís skólafélagsráðgjafi líka, stjórnendur skólans, umsjónarkennarar, já og raunar allt starfsfólk skólans er hér ykkur til aðstoðar. Hafið í huga að við sem störfum í Garðaskóla gerum það vegna þess að okkur langar að vinna með, aðstoða, uppfræða og hlúa að unglingum. Við erum hér fyrir ykkur.
Að upplifa skerðingu á frelsi sínu, eins og við höfum gert í ár, fær mann til að hugsa til þess fjölda barna, unglinga og fullorðinna sem búa við skerðingu á frelsi og mannréttindum allt sitt líf. Vissuð þið að það eru 263 milljónir barna í heiminum sem fá ekki að fara í skóla? Vissuð þið að í 32 löndum þurfa konur að fá leyfi eiginmanns síns eða föður til að sækja um vegabréf? Vissuð þið að í yfir 70 löndum í heiminum er samkynhneigð talin vera glæpur? Við getum því miður ekki haft bein áhrif á stöðuna hjá þessu fólki. En við getum það óbeint. Það gerum við með því að koma fram við okkur sjálf og hvort annað af virðingu og nýta þau tækifæri sem við erum svo heppin að fá. Til dæmis að fá að fara í skóla.
Ein leið til að hafa áhrif á samfélagið sitt, og jafnvel allan heiminn, er að breyta því hvernig við tölum. Orð hafa nefnilega árhrif. Raunar er líklega ekkert í heiminum sem er áhrifaríkara en orð. Ég hvet ykkur til að nota ykkar orð til jákvæðra verka, til að ýta undir fólkið í kringum ykkur fremur en að draga það niður, til að einblína á það jákvæða fremur en það neikvæða. Því vil ég taka það fram hér og nú að í Garðaskóla er ekki liðið að nota niðrandi orð um kyn, kynhneigð, kynvitund, litarhaft, trúarskoðanir, móðurmál eða uppruna. Við erum öll jöfn og eigum öll skilið virðingu frá hvert öðru.
Gildi Garðaskóla eru frelsi, ábyrgð, vellíðan og árangur. Þessi fjögur gildi eru leiðarljós bæði fyrir nemendur og starfsfólk og ríma vel það sem ég sem ég var að segja hér áðan. Hvert og eitt okkar á að hafa frelsi til að skapa sjálfan sig og birta sjálfan sig á þann hátt sem viðkomandi hefur þörf fyrir. Á sama tíma ber hver og einn ábyrgð á sjálfum sér, á því sem er sagt og gert. Þegar hver og einn einstaklingur hefur frelsi og sýnir ábyrgð verðu útkoman vellíðan og það að líða vel er frumforsenda þess að ná árangri. Frelsi, ábyrgð, vellíðan og árangur eru leiðarljós okkar í Garðaskóla og ég hvet ykkur til að hafa þessi fjögur orð í huga bæði í skólanum og annars staðar.
Með góðri samstarfskveðju;
Jóhann Skagfjörð, skólastjóri.
Samráðsdagur heimila og skóla
Með heilsu okkar allra í huga höfum við ákveðið að foreldrar muni ekki koma í Garðaskóla á fundina. Í staðinn munum við hittast á Google Meet. Umsjónarkennarar senda foreldrum vefslóð inn á rafrænan fund þegar nær dregur. Athugið að til að komast inn á fundinn þarf að vera skráður inn á einhvern g-mail aðgang. Ef foreldrar eru ekki með g-mail aðgang er vel hægt að nota skólaaðgang nemenda. Við biðjum ykkur um að koma stundvíslega inn á fundinn og virða tímamörk hans, sem eru 15 mínútur. Hægt er að bóka tíma á samráðsfund á INNU fram til miðnættis miðvikudagsins 30. september. Þeir sem verða ekki búnir að bóka þá mun verða úthlutað tíma af umsjónarkennara.
Jafnvel þó að fundurnir séu rafrænir er mikilvægt að nemendur séu líka viðstaddir - enda á samtalið að vera um nemandann og er hans tækifæri til að segja sína skoðun.
Sjáumst (rafrænt) á þriðjudaginn!
Námsáætlanir
Á heimasíðu Garðaskóla má finna námsáætlanir í öllum fögum fyrir hvern árgang. Í námsáætlunum má finna upplýsingar um námsefni og yfirferð þess yfir veturinn. Við hvetjum ykkur til að skoða þær vel og ef þið hafið frekari spurningar megið þið endilega senda faggreinakennara ykkar barns tölvupóst. Athugið að námsáætlanirnar eru lifandi skjal sem geta tekið breytingum eftir því sem líður á veturinn.
Fyrir nemendur sem þurfa leyfi frá skóla í lengri tíma, nú eða þá sem lenda í sóttkví, er upplagt að skoða námsáætlanirnar og ná þannig að fylgja eftir því sem verið er að vinna í skólanum.
Ástundun og skólasókn - samstarf heimila og skóla
Stundvísi og góð ástundun í námi er forsenda þess að árangur náist. Reynslan sýnir að góð ástundun í skóla hefur líka jákvæð tengsl við vellíðan unglinga og félagsleg tengsl. Stuðningur og aðhald aðstandenda á þessu sviði er mikilvægur.
Í Garðaskóla er gengið út frá því að nemendur mæti stundvíslega í allar kennslustundir. Forráðamenn bera ábyrgð á að tilkynna skóla um veikindi og aðra óhjákvæmilega fjarveru með því að skrá beint í Innu. Ef forráðamaður hefur ekki tök á því að skrá í Innu getur hann haft samband við skrifstofu skólans (gardaskoli@gardaskoli.is eða sími 590 2500). Leyfi ber alltaf að sækja um fyrirfram og eru umsóknir sendar í gegnum Innu. Leiðbeiningar fyrir umsóknarferlið má nálgast á heimasíðu Garðaskóla.
Aðstandendur geta skoðað skólasókn sinna barna hvenær sem er í Innu. Auk þess sendir skrifstofa skólans ástundun nemenda í tölvupósti til aðstandenda á hverjum föstudegi.
Í Garðabæ hefur verið unnið samræmt verklag í ástundunarmálum nemenda. Ef alvarlegur misbrestur er á skólasókn ber skólum að tilkynna til barnaverndar. Áður en til þess kemur er þó alltaf rætt vel við börn og aðstandendur og allra leiða leitað til úrbóta.
Nánari upplýsingar um vinnuferla skólans má lesa á vefnum.
Bekkjartenglar óskast
Hlutverk bekkjartengla er hvorki tímafrekt né stórt, en engu að síður afskaplega mikilvægt. Ég hvet ykkur því til að taka vel í erindi umsjónarkennara.
Ég geri ráð fyrir því að bekkjartenglar í 9. og 10. bekk sinni starfi sínu áfram eða finni aðra foreldra í hópnum til að taka við af sér.
Garðaskóli
Email: gardaskoli@gardaskoli.is
Website: www.gardaskoli.is
Location: v. Vífilstaðaveg
Phone: 5902500
Facebook: https://www.facebook.com/Gar%C3%B0ask%C3%B3li-635137559954040