Fréttabréf forseta
Október 2023
Framkvæmdaáætlun 2023-2025
Á fundi framkvæmdaráðs 2. september s.l. var framkvæmdaáætlun 2023-2025 samþykkt samhljóða eftir umræður og hópverkefni um drög stjórnar.
Framkvæmdaáætlun 2023-2025
1. Könnun meðal félaga
Mikilvægt er að skoða reglulega hug félaga til starfseminnar, þ.e. hvað er gott og hvað má betur fara. Á forsetafundi í Dallas í júní s.l. var niðurstaða verkefnis meðal þátttakenda að slík könnun nýttist samtökunum vel í sífellt breytilegum heimi.
2. Samtökin verði sýnilegri í íslensku samfélagi
Í DKG eru mörg tækifæri fyrir konur til þroska og þróunar. Sýnileiki er nauðsynlegur svo laða megi áfram ungar konur að samtökunum og kynna þau enn frekar. Auka mætti samstarf milli deilda, efla og styðja við frumkvæði deilda í þessu skyni til að gera samtökin enn sýnilegri. Ein til tvær deildir sem eiga frumkvæði að verkefnum sem byggja á markmiðum samtakanna geta árlega sótt um styrk til stjórnar landsambandsins.
3. Samtökin láti sig menntamál enn meiru varða
Í DKG konum býr mikill auður. Á árum áður gáfu DKG konur m.a. umsagnir um frumvörp um menntamál. Hlutverk menntmálanefndar er m.a. að fjalla um „verkefni sem snerta fræðslu- og menntamál, þ.m.t. löggjöf á sviði menntamála og gerir tillögur um sameiginleg viðfangsefni.“
Nú standa fyrir dyrum miklar breytingar i menntamálum. Eflaust koma DKG konur að þeim málum en ættu samtökin að beita sér enn frekar? Menntamálanefnd mun skoða þetta enn frekar sbr. hlutverk hennar.
Inntaka nýrra félaga í Epsilon
Sex nýjar félagskonur voru teknar inn í Epsilon deild 3. október s.l. Forseti fékk þann heiður að taka þátt í hátíðlegri athöfn sem fór fram í Tryggvaskála á Selfossi. Mjög gefandi að kynnast þessum öflugu konum.
LYKILL AÐ LÆSI - málþing á vegum Epsilondeildar
Epsilon deildin átti frumkvæði að málþingi og sótti um styrk til stjórnar vegna þess. Beiðni deildarinnar varð til þess að ákvæði um árlega styrki í þvi skyni að gera samtökin sýnilegri var sett inn á framkvæmdaáætlun.
Málþing Epsilon um læsi verður haldin fimmtudaginn 26. október n.k. kl. 17 - 19 í Fjölbrautaskóla Suðurlands. Málþingið er opið öllum áhugasömum og er þeim að kostnaðarlausu. Dagskrá er aðgengileg á heimasíðu samtakanna.
Kvennaverkfall 24. október
Þriðjudaginn 24. október verður heilsdags kvennaverkfall. Delta Kappa Gamma á Íslandi tekur þátt og hvetur félagskonur til að leggja niður launuð og ólaunuð störf þennan dag og mæta á útifundi á Arnarhóli eða í heimabyggð. Vakin verður athygli á launamuni kvenna og karla og ofbeldi gegn konum.
Golden Gift leiðtoganámskeið
Í júlí 2024 halda alþjóðasamtökin viku langt leiðtoganámskeið í USA. Ferðir og uppihald eru þátttakendum að kostnaðarlausu en námskeiðsgjald er 600 dollarar. Umsóknareyðublað má finna á heimasíðu samtakanna, DKG.org, undir application form, DKG Ignite Application (LMS). Umsóknarfrestur til 1. des.
Frábært tækifæri fyrir konur í samtökunum.