Fréttabréf Naustaskóla
5.tbl. 11. árgangur september 2020
Ágæta skólasamfélag
Nú er skólastarfið í Naustaskóla komið í fullan gang og fer prýðilega af stað. Það er alltaf jafn gaman fyrir okkur skólastarfsfólkið að hitta krakkana aftur á haustin, endurnýja kynnin við nemendur sem hafa dafnað og þroskast yfir sumarið, og eins að kynnast nýjum nemendum og foreldrum.
Í vetur ætlum við að halda áfram að þróa og móta skólann okkar. Kennarar á mið – og unglingastigi hefja nú þróunarverkefni í samstarfi við Háskólann á Akureyri sem heitir Læsi fyrir lífið, við höldum áfram samstarfi við UNICEF við að tengja barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna við skólastarfið ásamt því að móta skólastarfið að nýrri menntastefnu Akureyrarbæjar. Þar er að sjálfsögðu um að ræða verkefni okkar allra sem skipum skólasamfélagið, hvort sem við erum nemendur, forráðamenn eða starfsmenn.
Helstu markmiðum og verkefnum skólaársins er lýst í starfsáætlun skólans sem birt verður á heimasíðunni í lok næstu viku, og á sama tíma munu kennsluteymi hvers námshóps birta sínar áætlanir fyrir veturinn þar sem gerð er grein fyrir starfsháttum og helstu áherslum.
Kynningarfundir með foreldrum sem við höfðum áætlað nú í september verða með öðru sniði vegna sóttvarnareglna þar sem við getum ekki boðið foreldrum á fundi í skólanum. Á þessum kynningafundum átti að fara yfir starfsáætlanir og gefa foreldrum tækifæri til samræðna, spurninga og ábendinga um hvaðeina sem varðar skólastarfið. Að Þessu sinni munu kennarar senda heim upplýsingar í tölvupósti um skipulag vetrarins, ásamt öðrum nauðsynlegum upplýsingum er varða skólastarfið.
Þann 3. nóvember verður viðtalsdagur þar sem foreldrar, nemendur og umsjónarkennarar setjast niður til skrafs og ráðagerða. Við óskum eftir öflugri þátttöku foreldra í skólastarfinu enda er gríðarlega mikilvægt að foreldrar láti sig skólastarfið varða, sýni því áhuga og taki þátt, því að Naustaskóli er skólinn okkar og við berum öll ábyrgð á því að hann sé börnunum okkar hinn besti mögulegi skóli!
Með von um gott samstarf,
Bryndís Björnsdóttir, skólastjóri
Hnetu- og möndlubann!
Mötuneyti, mjólk og ávextir
Umferð við Naustaskóla
Hjóla- og hlaupahjólareglur
Reglur um hjól og hlaupahjól í Naustaskóla.
- Nemandi sem kemur á hjóli í skólann gerir það á ábyrgð foreldra/forráðamanna sem skulu meta færni og getu nemandans sem og aðstæður til að hjóla í skólann.
- Algjört skilyrði er að nota viðeigandi öryggisbúnað.
- Ekki má nota reiðhjól og hlaupahjól í frímínútum eða meðan á skólastarfi og Frístundargæslu stendur. Við brot á þessari reglu má skólinn kyrrsetja hjól og skal foreldri eða forráðamaður þá sækja hjólið.
- Þegar komið er á hjóli eða hlaupahjóli í skólann á að geyma þau læst á skólalóðinni í eða við hjólagrindur. Það má ekki geyma hjól eða hlaupahjól inni í skólanum. Skólinn ber enga ábyrgð á hjólum. Þjófnað eða skemmdarverk getur viðkomandi kært til lögreglu.
Á döfinni í september
- 3. september Útivistardagur
- 18. september STARFSDAGUR
- 24. september Samræmt próf í íslensku 7. bekkur
- 25. september Samræmt próf í stærðfræði 7. bekkur
- 29. september Norræna skólahlaupið
- 30. september Samræmt próf í íslensku 4. bekkur
- 1. október Samræmt próf í stærðfræði 4. bekkur
Naustaskóli
Email: naustaskoli@akureyri.is
Website: naustaskoli.is
Location: Hólmatún, Akureyri, Iceland
Phone: 460 4100
Facebook: https://www.facebook.com/naustaskoli